Þegar bahá’íar njóta frelsis munu aðrir Íranir einnig njóta þess

Hamid DabashiMér var bent á góða grein á vef CNN þar sem Hamid Dabashi, prófessor í Írönskum fræðum við Kólumbíuháskóla í Bandaríkjunum, fjallar um og útskýrir skilmerkilega þá hættu sem steðjar að Bahá'í samfélaginu í Íran og setur það í samhengi við stjórnmálaþróunina í Íran og Bandaríkjunum.

Hann endar á þessum orðum (í minni þýðingu):

Örlög Íranskra bahá'ía er ekki einungis spurning um grundvallarmannréttindi þeirra í samhengi við eitthvað lýðveldi, islamskt eður ei. Þau eru hornsteinn lýðræðislegs réttar borgaranna en án þess er múslimska meirihlutanum í Íran meinað um stjórnarskrárlega vernd. Fylgist gaumgæfilega með örlögum Íranskra bahá'ía.

Þegar þeir njóta frelsis til að iðka trú sína án ótta munu Íranir allir loks hafa tryggt sér borgararéttindi sín.

Ég mæli eindregið með greininni en hana má lesa í heild hér: http://edition.cnn.com/2009/WORLD/meast/09/16/dabashi.iran.tolerance/


Karlakór Kópavogs?

Í gærkvöldi var nítjándagahátíð haldin á heimili eins af bahá'íunum í Kópavogi. Eftir bænastund tók annar hluti hátíðarinnar við þar sem við ræddum málefni trúarinnar í Kópavogi. Eftir ágætar umræður nefndi einn maður að hann hygðist byrja í Karlakór Kópavogs næsta fimmtudagskvöld.

Mér þótti þetta frábær hugmynd og sagði honum og viðstöddum að ég þekkti nokkra sem hefðu byrjað í kór og gætu nú varla hætt. Það væri svo gaman að vera í kór, að upplifa það að vera hluti af stóru hljóðfæri, sem kórinn er í raun.

Þá var mér bent á að ég hefði nú örugglega gaman að því að vera í kór sjálfur. Woundering Ég gat nú ekki neitað því, enda með 12 ára tónlistarnám að baki. Það endaði loks með því að ég ákvað að fara með félaga mínum á fyrstu æfinguna næsta fimmtudagskvöld!

Ég verð að segja að ég er bara nokkuð spenntur! Happy

Hér er svo vefur kórsins:

www.karlakor.com

 


Við erum ekki njósnarar!

Ég fann þetta áhrifamikla vídeó af leikriti sem haldið var á samkomu til stuðnings bahá'íum í Íran sem haldin var í Bandaríkjunum. Sjá nánar á iranpresswatch.com: http://www.iranpresswatch.org/post/4779.

Það er í tveimur pörtum, en annar hlutinn ætti að fara skjálfkrafa af stað.

 


Réttarhöldum frestað til 18. október.

Réttarhöldunum hefur verið frestað enn og aftur, nú til 18. október. Alþjóðlega bahá'í samfélagið vonast til þess að sakborningunum verði sleppt gegn greiðslu tryggingargjalds.

 Sjá nánar á vef Alþjóðlega bahá'í samfélagsins: http://news.bahai.org/story/727


Hefjast réttarhöld í dag?

Í dag eiga að hefjast réttarhöld yfir bahá'íunum sjö sem störfuðu í stjórnunarnefnd sem hafði umsjón með lágmarksþörfum hins 300.000 manna bahá'í samfélags í Íran. Bahá'íar um allan heim biðja fyrir vernd þessara trúbræðra sinna sem gætu átt yfir höfði sér dauðarefsingu.

Nánar á vef CNN: http://edition.cnn.com/2009/WORLD/meast/08/16/iran.bahai.trial/

og á fréttavef Alþjóðlega Bahá'í samfélagsins:  http://news.bahai.org/story/725


Verður réttað yfir bahá’í sakborningunum í dag?

Samkvæmt munnlegum heimildum verður réttað yfir sjö manna hópi forystumanna bahá'í samfélagsins í Íran á dag, 11. júlí, í deild nr. 28 við íranska byltingarréttinn. Sjömenningarnir eiga yfir höfði sér dauðadóm fyrir „trúarspjöll" og „að útbreiða spillingu á jörðinni" , en þeir hafa verið í haldi frá því í maí í fyrra. Allan þann tíma hafa þau ekki fengið að hitta verjanda sinn, nóbelsverðlaunahafann Shirin Ebadi, en hún var gerður að heiðursdoktor við Háskólann á Akureyri fyrir nokkru.

Bahá'íar á Íslandi koma því saman í dag af því tilefni og biðja fyrir trúsystkynum sínum. Ég og Erin munum vera með bænastund heima hjá okkur kl. 20:00 og eru allir velkomnir sem vilja biðja með okkur (veit að fyrirvarinn er skammur ...en hef ekki komist í bloggið fyrr en nú).

Fréttatilkynning Bahá'í samfélagsins á Íslandi

[Reyndar var ég svo rétt í þessu að lesa að réttarhöldunum hafi verið frestað. Sjá nánar á www.iranpresswatch.org]


Dagbók pílagrímsferðar - brottför og heimkoma

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Brottför og heimkoma - 26. og 27. mars – miðvikudagur og fimmtudagur

Miðjarðarhafið á leiðinni til Tel AvivRútan kom og sótti okkur rétt eftir kl. 11 þar sem við biðum í lobbýinu á hótelinu. Ég skrifaði í dagbókina mína en Erin var of stressuð til að skrifa (ferðastressið blessað). Við vorum að vonast eftir að rútan færi um Ben Gurionstræti þannig að við gætum séð stallana og grafhýsið í síðasta skiptið en því miður fór rútan aðra leið. Við keyrðum framhjá ströndinni. Ég fór þangað reglulega á sumrin þegar ég bjó hér. Þvílíkar öldur! Hér hefði ég skemmt mér á sundbrettinu mínu!

Öryggisgæslan var ekki eins hræðileg og ég óttaðist. Hauður bloggaði mikið reiðiblogg um öryggisgæsluna eftir pílagrímsferðina sína og því hélt ég að nú væri allt farið til andskotans hjá þeim eftir 11. september 2001. Ég átti von á ókurteisi og kaldhæðni en svo reyndist ekki vera. Öryggisstarfsfólkið var kurteist og kom fram við okkur af fagmennsku. No problem! Aðalatriði var að gefa sér a.m.k. þrjá tíma fyrir flug sem við gerðum.

Ferðin heim gekk vel. Ekkert óvenjulegt kom uppá og við lentum heilu og höldnu á Íslandi eftir einnar nætur gistingu við Stansteadflugvöll. Erin ætlaði að sækja Darian þegar við komum heim en þegar hún steig upp í bílinn og ætlaði að bakka neitaði bíllinn að fara úr handbremsu. Þetta hefur gerst áður eftir þriggja vikna dvöl í Finnlandi, nema hvað ég hélt að frostið ylli þessu og átti ekki von á miklu frosti í mars. Ég reyndi því að losa um handbremsurnar með því að jugga bílnum fram og til baka með bensíngjöfinni. Þrjú hjól losnuðu nema það aftara hægra megin, sem reyndist pikkfast, bremsuför mynduðust á malbikinu undir því eftir því sem ég hreyfði bílinn. Ég ætlaði að reyna ða keyra hjólin á kantsteininn en það tókst ekki betur til en svo að ég festi bílinn og spólaði hægra framhjólið ofan í möl. Ég sá fyrir mér að þurfa að panta dráttarbíl og að við gætum ekki sótt strákinn á bílnum okkar allavega.

Erin fór því til Evu í strætó og fékk hana til að keyra sig og Darian heim. Á meðan tók ég hjólið undan bílnum og kíkti á diskinn og sá ekkert sem ég gæti gert. Ég fór því inn og hringdi í viðgerðarstöð og lýsti vandræðum mínum. Verkstjórinn sagði mér að ná í hamar eða sleggju og slá fast í skálina. Þá ætti barkinn að losna en hann væri að öllum líkindum fastur. Ég vissi ekki einu sinni hvað skál væri en það er víst það sem er bak við diskinn. Ég gerði það og viti menn! Hjólið losnaði og ég var rétt búinn að setja hjólið á þegar Eva rennir í hlað.

Þar er Darian og þegar hann sá mig út um hliðargluggann brosti hann til mín, greinilega hissa. Erin sagði mér að hann hefði líklega verið hissa þegar hún kom að sækja hann til Evu. Hann hafði ekkert sagt. Eftir tvær sekúndur benti hann á mömmu sína og alla í kringum sig. Þegar hún rétti fram hendur sínar til að athuga hvort hann vildi koma til sína hikaði hann ekki!

Það var yndislegt að endurheimta strákinn okkar eftir þessa löngu fjarveru og hann mátti ekki missa okkur úr augsýn næstu klukkutímana. Við fórum á American Style og fengum okkur að borða og fórum með hann í leikherbergið þar. Hann var í essinu sínu og þegar við fengum okkur að borða komu önnur börn í leikherbergið. Það var því lítil athygli sem fór í að borða hjá honum heldur að horfa á hin börnin og snerist hann næstum í hringi í sætinu sínu til að fylgjast með þeim. Það er greinilega kominn tími til að hann fari í leikskóla, en hann kemst inn í næsta mánuði.

Jæja, hver var svo merking þessa alls?  Pílagrímsferð er ekki bara skoðunarferð. Þetta er tækifæri til að sjá staðina sem tengjast opinberendum Guðs og biðja á helgasta stað á jarðríki og létta á hjarta sínu og hljóta innblástur til áframhaldandi þjónustu við málstaðinn. Ferðin var allt þetta fyrir mig. Svo er að sjá hvernig gengur að túlka það í framkvæmd.

Síðustu myndir ferðarinnar


Dagbók pílagrímsferðar - dagur 10

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Dagur 10 - 25. mars – þriðjudagur

Rebecca ásamt foreldrum sínum.Við leyfðum okkur sofa til kl. 08:00 í dag þar sem eini dagskrárliðurinn í dag byrjar ekki fyrr en kl. 12:30 með heimsókn í hús Meistarans á Haparsimstræti. Við tókum það því rólega þess vegna og eftir morgunverð og sturtu gengum við niður í pílagrímamiðstöð um kl. 10:00, athuguðum með skilaboð og þess háttar og röbbuðum við fólk í matsalnum, þar á meðal Rebeccu, unga konu frá Kenya sem er nú búsett í Kína. Hún þjónaði við heimsmiðstöðina rétt á eftir að minni þjónustu lauk þar. Hún þekkti samleigjanda minn, Badi Mungonye heitinn, samlanda sinn. Hann hafði verið veikur þegar við deildum saman íbúðinni á Golomb 17 en hann var ekkert að segja mér frá því. Nokkru eftir að ég flutti heim til Íslands eftir lok þjónustu minnar frétti ég að hann hefði látist í Kenya.

Manni bregður alltaf þegar ungt fólk deyr, sérstaklega jafnaldrar manns, og það var engin undantekning í þessu tilviki. Mín stærsta spurning var alltaf af hverju, og úr hverju. Samt hefur maður ekki kunnað við að grafast fyrir um það fyrr en nú að ég leyfði mér að spyrja Rebeccu út í það. Hún sagði mér að hann hefði haft einhvern lifrarsjúkdóm, töluvert lengi, raunar áður en hann kom til Haifa. Hann mátti eiga það að hann faldi það vel, eða kannski er ég bara svona blindur. Þá veit ég það. Tólf árum seinna. Og líður mér betur? ... Já. ... Af hverju? ... Veit það satt að segja ekki.

Badi Mungonye 1996Nafni minn Mungonye var ólíkindadrengur. Það tók mig tíma að fatta hann. Fyrst hélt ég að hann væri svona lyginn drengurinn þegar hann sagði hluti sem ég komst svo að því að stóðust ekki. Eftir því sem á leið fór ég að fatta að þetta var bara húmorinn hans, kannski menningarlegur mismunur á okkur. Hann gerði í því að spinna upp ævintýralegar lygasögur um sjálfan sig, t.d. sem matatubilstjóra í Kenya. Ég man eftir því einn daginn þegar við vorum á leiðinni frá Haifa til Bahjí í sherut ásamt nokkrum vinum, þar á meðal Esther Gaita, sem er einnig frá Kenya en hálf Bandarísk, ef ég man rétt. Í bílnum lét Badí Mungonye dæluna ganga um ævintýri sín og allir í sherutnum lágu í kasti, þar á meðal gamall Ísraeli sem var í sherutnum á leið til 'Akká. Þegar við komum þangað fór þessi gamli maður og um leið og hann steig út um bíldyrnar, hægum óstyrkum skrefum úr sherutnum endurtók hann hann hlæjandi orðin „Thank you, thank you" og horfði til Badís og okkar hinna, þakklátur fyrir þessa óvæntu skemmtun.

Badí var gull af manni, svolítið hrekkjóttur, en góðhjartaður og hlýlegur þegar maður náði að kynnast honum. Það var heiður að fá að kynnast honum. Blessuð sé minning hans.

Samleigjendur mínir á Golomb 17Rebecca var þó ekki í níudaga pílagrímsferð. Það voru foreldrar hennar hinsvegar. Móðir hennar talar þó aðeins kikuju en faðir hennar einnig ensku. Hún  kom til Ísrael frá Kína til að hitta foreldra sína og vera þeim til hjálpar. Þetta var í fyrsta sinn í þrjú ár sem hún hitti þau. Án efa stór stund enda er hún þeirra einkabarn og var sérstaklega erfitt fyrir móður hennar að sjá á eftir henni til Kína. Þetta var ekki aðeins fyrsta pílagrímsferð þeirra heldur fyrsta ferð þeirra utan landsteinanna. Það var gaman að kynnast þeim en ég gerði mér ekki grein fyrir þessu fyrr en Rebecca sagði okkur frá þessu og ýmsum vandkvæðum þeirra og misskilningi vegna lítillar tungumálakunnáttu að ég fattaði að við hefðum nú getað reynt að vera þeim meira innan handar.

[Birta mynd af foreldrum Rebeccu]

Garðurinn fyrir utan Haparsim 4Eftir að hafa spjallað og eytt smá tíma í pílagrímamiðstöðinni fórum við út í búðina á horninu og keyptum okkur ís og safa til að fá okkur í hitanum. Síðan lá leiðin á Haparsimstræti. Við byrjuðum að skoða hús nr. 4, sem ég kannaðist ekki við. Ég fattaði fljótlega af hverju. Bahá'í samfélagið eignaðist það ekki fyrr en árið 2001 að mig minnir, eftir að ég hafði þjónað hér. Það var ‘Abdu'l-Bahá sem leigði þetta hús undir pílagríma eftir að hann flutti til Haifa. Þar eru ýmsir munir og myndir frá þeim tíma og fallegur garður umhverfis.

Þvínæst fórum við og skoðuðum hús Meistarans (þ.e. ‘Abdu'l-Bahá). Þetta hús lét ‘Abdu'l-Bahá byggja þar sem hann vildi vera á svæðinu til að hafa umsjón með byggingu grafhýsis Bábsins. Strax og það var tilbúið flutti hann hluta fjölskyldunnar þangað, þar á meðal Bahíyyih Khánum og Shoghi Effendi sem þá var ungur drengur. Þegar ‘Abdu'l-Bahá sneri heim úr reisu sinni til Vesturlanda árið 1913 var þetta hús að opinberu heimili hans og þar tók hann á móti pílagrímum og þar þjónaði Shoghi Effendi honum sem ritari eftir fyrri heimsstyrjöldina. Það var í einu herbergjanna hér sem ‘Abdu'l-Bahá andaðist og stuttu síðar í aðalsal hússins var erfðaskrá hans lesin sem kvað á um að Shoghi Effendi tæki við stjórntaumum trúarinnar að honum látnum.

Hliðið fyrir utan hús Meistarans.Við settumst inn í herbergið þar sem ‘Abdu'l-Bahá tók á móti pílagrímum og David, leiðsögumaðurinn okkar, sagði okkur frá sögu hússins. Þvínæst fórum við inn í herbergi ‘Abdu'l-Bahá og Bahíyyih Khánum til að biðja og skoðuðum önnur herbergi hússins. Að því loknu komum við aftur saman og lásum nokkrar ritningar og David þakkaði okkur samfylgdina enda var þetta síðasti dagskrárliðurinn í pílagrímsferðinni fyrir utan kveðjuathöfnina í kvöld.

Allt í einu kom einn ungur danskur drengur og færði David konfekt í þakkarskyni og tók í höndina á honum. Síðan þakkaði Jess honum formlega fyrir hönd hópsins með ljóði sem jós á hann lofi fyrir blíðu sína, hlýlegt bros o.s.fr. o.s.fr. Ég veit ekki hvernig honum hefur liðið, ég hefði orðið þvílíkt vandræðalegur! En hann tók þessu með hæversku og stóískri ró og þakkaði fyrir sig. Hann sagði að hann hefði unnið sem leiðsögumaður nú í tvo mánuði en þetta væri í annað skiptið sem hann veitti leiðsögnina á ensku, yfirleitt gerði hann það bara á móðurmálinu, spænsku. Baðst hann velvirðingar á enskunni sinni en var klappað óspart lof í lófa. Að lokum bauð hann okkur að fara út á tröppur hússins til að taka mynd af hópnum þegar menn ætluðu að lofsyngja hann meira og meira.

Við ásamt David, leiðsögumanninum okkar.Eftir þessa síðustu heimsókn okkar á bahá'í helgistað, eftir myndatökuna, fórum við Erin á Hadarsvæðið og fengum okkur shawarma í síðasta skiptið. Þvínæst fórum við í pílagrímamiðstöðina og grafhýsi Bábsins og eftir það upp á hótel, skiptum um föt, fórum á McDonalds og gleyptum í okkur skyndibita og tókum svo leigubíl aftur að grafhýsi Bábsins kl. 19:00 á kveðjuathöfnina.

Þegar við komum var saman kominn múgur og margmenni fyrir utan gamla pílagrímahúsið. Við notuðum tækifærið að kveðja þá sem við þekktum fyrir eða höfðu kynnst í ferðinni. Á slaginu 19:30 voru svo vitjunartöflurnar tvær lesnar upp á arabísku og ensku og svo gekk öll hersing pílagrímanna í kringum grafhýsið. Að því loknu var grafhýsið opið til kl. 22:00. Við fórum þangað í síðasta sinn og vottuðum virðingu okkar og þakklæti fyrir þessa náð að fá að koma hingað. Að því loknu kvöddum við þá fáu sem við áttum eftir að kveðja í gamla pílagrímahúsinu, fórum svo í nýju miðstöðina, tókum dótið okkar sem við höfum geymt þar og tókum svo leigubíl upp á hótel.

Upplýst grafhýsið út um glugga leigubílsins reyndist vera síðasta skiptið sem við sáum það. Skrýtin tilfinning. Leigubílstjórinn virtist skynja það. Hann hafði án efa keyrt ófáum pílagrímum frá kveðjuathöfninni með tár í hvörmum. Hann sagði eitthvað á þá leið að hann og hans fólk (væntanlega íbúar Haifa) vonuðu að við kæmum aftur til baka.

Þessi tónlist hér fyrir neðan lýsir tilfinningunni ágætlega:

http://www.youtube.com/watch?v=SJUDEuNOjuY&eurl=http://apps.facebook.com/ilike/?ded_sender=651809486&ad=dedication_notif_d&force_login=1&ded_date=659&feature=player_embedded

Við byrjuðum að pakka ofan í töskur þegar við kæmum upp á hótelið og fórum svo og fengum okkur belgískar vöfflur um kl. 23:00. Þar voru einhverjir bahá'íar. Greinilegt að þessi vöfflustaður var orðinn vinsæll á meðal þeirra.

Við fórum í bólið um miðnætti þetta kvöld.

Myndaalbúm dagsins


Dagbók pílagrímsferðar - dagur 9

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Dagur 9 - 24. mars – mánudagur

BogabyggingarÍ dag heimsóttum við byggingarnar á boganum, þ.e.a.s. stjórnfarslegar byggingar bahá'í trúarinnar á Karmelfjalli, en þær standa við bogalaga stíg. Heimsóknin hófst kl. 10:30 svo við gátum því leyft okkur að vakna aðeins síðar en venjulega og fórum fyrst í minjagripabúðina Ahuza rétt hjá hótelinu okkar. Við höfðum keypt bahá'í minjagripi nokkru áður og nú þurftum við að fylla út eyðublöð vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts sem við myndum fá til baka á flugvellinum.

Að því loknu gengum við niður tröppurnar sem við fundum um daginn að hliðinu að bogabyggingunum við Golombstræti 16. Hitinn var auðvitað enn og aftur steikjandi og við svitnuðum þokkalega á niðurgöngunni. Þegar niður var komið hittum við hina pílagrímana í hópi N við hliðið. Kl. 10:30 hófst svo skoðunarferðin. Við byrjuðum á að skoða húsnæði Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar. Við skoðuðum hæðir 7 og 8 af alls 9 hæðum. Þar eru skrifstofur ráðgjafanna og ritara þeirra og fundarherbergið er á þeirri níundu. Restina, hæðir 1 - 6 eru grafnar niður í fjallið og þær sáum við ekki. Í raun sáum við bara yfirborðið í þessari skoðunarferð, því stærstur hluti bygginganna er neðanjarðar og hýsir hina fjölbreyttustu starfsemi.

GlerstrýtanSérstaklega fallegt var að sjá hvernig náttúrlegt ljós fær að njóta sín í þessari byggingu og helsta skrautið er glerstrýta með hringmerkinu með tilvitnun úr ritum Bahá'u'lláh á arabísku sem hljómar svo á ensku: „I am the royal Falcon on the arm of the Almighty. I unfold the drooping wings of every broken bird and start it on its flight."  Einnig var áhugavert að heyra að allar skrifstofur ráðgjafanna snúa að grafhýsi Bábsins á meðan skrifstofur meðlima Allsherjarhúss réttvísinnar í aðsetri þess snúa í átt að Bahjí.

Eftir að hafa skoðað þessa byggingu skoðuðum við aðsetur Allsherjarhúss réttvísinnar. Við gengum inn í hátíðarsalinn þar sem haldið var upp á Naw-Rúz hátíðina. Það var svosem ekkert nýtt fyrir mig að sjá þar enda vann ég hér í grenndinni á sínum tíma og þurfti við og við að sendast með vatn í eldhúsið næst fundarherbergi Allsherjarhússins.

Súlnatorg textarannsóknamiðstöðvarinnarEftir viðkomuna hér var ferðinni næst heitið í textarannsóknamiðstöðina. Þar fengum við að sjá innganginn. Þar starfa þýðendur og rannsakendur ritanna sem aðstoða Allsherjarhús réttvísinnar við rannsóknir á textum trúarinnar. Í henni er einnig að finna Alþjóðlega bahá'í bókasafnið. Eins og aðsetur Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar er stærsti hluti þess húss einnig inni í fjallinu, en byggingarnar sem sjást hið ytra eru aðeins lítill hluti heildarbygginganna. Þar er einnig að finna viðbyggingu við Alþjóðlega minjasafnið þar sem mikilvægir munir og rit eru geymd við rétt raka- og hitastig.

Að lokinni heimsókninni í textarannsóknamiðstöðina var ferðinni heitið undir 10. stallinn þar sem er að finna gestamiðstöð heimsmiðstöðvarinnar. Þar er tekið á móti sérstökum gestum og hópum sem um það biðja þar sem hægt er að horfa á kynningarmyndband í 150 manna sal og skoða sögusýningu um trúna. Sýningin var sérlega vel framsett. Þarna mátti sjá eftirlíkingar af upprunalegum handritum með töflum eftir Bahá'u'lláh og Bábinn, valdar tilvitnanir innrammaðar á veggjum, kort sem sýndi þá staði sem Bahá'u'lláh dvaldi á eða ferðaðist til í útlegð sinni, upplýsingar um félagsleg og efnahagsleg þróunarverkefni á vegum bahá'í samfélagsins og margt fleira.

Frá upplýsingamiðstöðinni.Þegar hér var komið sögu vorum við orðin vel lúin og dösuð eftir að hafa gengið um á milli bygginganna í steikjandi sólinni. Og það sem meira er, við þurftum að fara aftur í kennslumiðstöðina til að hitta Shahriar Razavi, sem hafði boðið okkur að hitta sig kl. 13:00. Þar sem David, leiðsögumaðurinn okkar hafði gleymt lyklum að einu hliðanna um minnisvarðagarðinn gátum við ekki farið til baka í gegnum hann heldur urðum að fara töluvert lengri leið í kennslumiðstöðina. Það þýddi röskan labbitúr í steikjandi hita um Hatziounoutstræti og upp væna lengju af tröppum (Hilleltröppurnar). Þannig að þegar við loksins mættum á staðinn vorum við vel þyrst og sveitt. Ekki alveg ákjósanlegasta staðan þegar maður á að hitta ráðgjafa og gamlan samverkamann, en Razavi var ráðgjafi fyrir Ísland og vann náið með þjóðarráðinu áður en hann var útnefndur ráðgjafi við alþjóðlegu kennslumiðstöðina. Við fengum sem betur fer vatnsglas og að þvo okkur í framan áður en við fórum upp til hans.

Það var reglulega gaman að hitta hann, og einnig stuttlega, frú Violette Haake, kollega hans. Við ræddum um starfið á Íslandi í ljósi fimm ára áætlunarinnar og hann sýndi okkur athyglisverð nýsigögn í tengslum við Ruhi þjálfunarefnið.

Að fundinum loknum vorum við orðin nokkuð svöng og fórum því niður í pílagrímamiðstöð og fengum okkur að borða og reyndum að klára afganginn af nestinu okkar þar, enda bara einn dagur eftir af pílagrímsferðinni. Svo fórum við í viðbygginguna og skrifuðum í dagbækurnar okkar. Nú var ég orðinn svo lúinn eftir lítt svefnsama nótt og allt röltið í hitanum að ég gat ekki skrifað mjög lengi og ákvað að fara niður í hvíldarherbergið og reyndi að fá mér lúr. Ég fór því niður, lokaði hurðinni, lagðist upp í sófann þar og eftir tvær veltur sofnaði ég. Það næsta sem ég veit er að Erin er að stugga við mér þar sem klukkan var að verða fimm og ég búinn að sofa í meira en klukkutíma. Og hvað ég var myglaður! Það tók mig óratíma að vakna almennilega. Ég var þvílíkt ringlaður í fyrstu en svo eftir að hafa þvegið mér í framan og fengið mér te komst ég á ról og við fórum í Grafhýsi Bábsins til að biðja. Því næst fórum við niður á Ben Gurionstræti í leit að góðum veitingastað til að borða á. Á röltinu sáum við einn veitingastað sem leit ágætlega út nema hvað staðurinn var pakkaður. En þarna sátu úti Sigga Lóa, Sigurður Ingi og Eva Margrét, hinir Íslendingarnir í pílagrímahópnum og félagar okkar í Kópavogssamfélaginu.

Við settumst því niður með þeim, pöntuðum mat, ég fékk mér St. Pétursfisk, sællar minningar úr þjónustu minni þegar ég át augun úr einum slíkum fyrir framan bandaríska vini mína þeim til mikillar hneykslunar og velgju en mér til ómældrar skemmtunar (fiskurinn er semsagt heill á disknum). Við áttum þar góðar samræður um málefni síðasta pílagrímafyrirlesturs og starfsemina á Íslandi.

Því miður tók óratíma fyrir matinn að koma þar sem fáliðað var á veitingahúsinu en fjölmennt af gestum þar sem purimhátíð gyðinga stóð enn yfir. Við vorum því ekki búin að borða og borga fyrr en kl. 19:45, korteri fyrir fyrirlestur kl. 20:00 og við þurfum að koma okkur upp fjallið í Alþjóðlegu kennslumiðstöðina fyrir þann tíma. Við ákváðum því að skipta liði þar sem við vorum fimm. Eva, Sigurður og Erin tóku leigubíl en ég og Sigga Lóa, sem er mikill fjallgöngugarpur, myndum labba.

Það gekk mjög vel og ótrúlegt en satt vorum við öll komin nær samtímis kl. 20:02 eða þar um bil, þrátt fyrir að ég hafi orðið að koma við í pílagrímamiðstöðinni á leiðinni til að sækja bakpokann minn. Ég var samt kófsveittur auðvitað eins og við mátti búast. Fór og þvoði mér í framan og biðum svo ásamt öðrum óstundvísum fyrir utan salinn meðan farið var með upphafsbæn. Að þessu sinni var hún nokkuð löng og tónuð á arabísku, sem var ágætt því þá náði ég að kæla mig niður áður en við gengjum í salinn.

Að þessu sinni var það Dr. Penny Walker, ráðgjafi við kennslumiðstöðina, sem talaði. Hún talaði um það hvernig bahá'íar um allan heim eru að læra að kynna trú sína fyrir öðrum með kerfisbundnari og hnitmiðaðri hætti en áður og bjóða þeim að taka þátt í starfsemi með þeim og byggja upp betri samfélög. Hún vitnaði sérstaklega í tilvitnun úr bókinni Wellspring of Guidance um það hvernig bahá'í samfélög við ættum að leitast við að rækta:

Wherever a Bahá'í community exists, whether large or small, let it be distinguished for its abiding, sense of security and faith, its high standard of rectitude, its complete freedom from all forms of prejudice, the spirit of love among, its members, and for the close knit fabric of its social life.

(The Universal House of Justice, Wellspring of Guidance, Messages 1963-1968)

Það veitti mér töluverðan innblástur að hlýða á ræðuna í þessu samhengi.

Eftir fyrirlesturinn fórum við og fengum okkur vöfflu upp á fjalli áður en við gengum til náða á hótelinu.

Myndaalbúm dagsins


Dagbók pílagrímsferðar - dagur 8

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Dagur 8 - 23. mars – sunnudagur

Í dag er síðasta skipulagða ferðin okkar til ‘Akká. Í þetta sinn heimsækjum við hús ‘Abdu'lláh Páshá. Húsið er nefnt eftir landsstjóranum í ‘Akká sem bjó þar fyrrihluta nítjándu aldar. Fjórum árum eftir andlát Bahá'u'lláh flutti ‘Abdu'l-Bahá í þetta hús ásamt fjölskyldu sinni, fjórum dætrum og fjölskyldum þeirra. Þar átti hann heima til ársins 1910. Margt merkilegt gerðist á þessu tíma. Shoghi Effendi fæddist í húsinu árið 1897. Fyrsti hópur vestrænna pílagríma kom þangað árið 1898 og árið 1899 voru jarðneskar líkamsleifar Bábsins fluttar þangað frá Persíu með mikilli leynd og geymdar þar í herbergi Hins helgasta laufs, systur ‘Abdu'l-Bahá, þar til þeim hafði verið komið fyrir í grafhýsi á Karmelfjalli sem ‘Abdu'l-Bahá byggði í samræmi við óskir Bahá'u'lláh sem hann hafði mælt fyrir um nokkru áður en hann andaðist.

Hús 'Abdu'lláh PásháVið fengum að skoða húsið sem er mjög stórt enda þurfti að það að rúma marga. Raunar leigði ‘Abdu'l-Bahá það ekki allt í upphafi heldur leigði fleiri hluta hússins eftir því sem þörfin fyrir rými jókst. Meðal herbergjanna sem við skoðuðum var kennslustofa þar sem börnunum á heimilinu var kennt. Eitt af því sem ‘Abdu'l-Bahá sá til að þau lærðu var að tóna bænir og fékk hann kallara borgarinnar (mu'azzín) til að koma og kenna börnunum þá list.

Einnig fengum við að sjá herbergið þar sem ‘Abdu'l-Bahá tók á móti pílagrímum. Það var hér sem Laura Dreyfus-Barney dvaldi í heilt ár sem pílagrími, lærði persnesku og ritaði hið merka rit Some Answered Questions.

Aðalsalur hússins.Við fengum einnig að sjá herbergi Shoghi Effendi sem dvaldi í því að mig minnir til tíu ára aldurs. Það kom mér nokkuð á óvart hvað það var stórt og velti ég því fyrir mér hvort það hafi verið ein aðferð ‘Abdu'l-Bahá til að undirstrika mikilvægi hans sem hann gaf strax í skyn eftir að hann fæddist í töflu til móður hans.

Að sjálfsögðu má ekki gleyma herbergjum ‘Abdu'l-Bahá og Bahíyyih Khánum systur hans sem við skoðuðum og báðum í. Það kom mér mest á óvart að sjá kjól Bahíyyih Khánum. Þegar maður sér hann áttar maður sig á því hve smávaxin hún var. Engu að síður markaði hún merk spor í sögu trúarinnar og hélt utan um stjórntauma hennar í fjarveru Shoghi Effendi fyrstu tvö árin eftir andlát ‘Abdu'l-Bahá og var eiginlega fyrsti minjavörður bahá'í trúarinnar, en hún safnaði saman munum tengdum sögu trúarinnar og sýndi pílagrímum.

Að heimsókninni lokinni fórum við aftur til Haifa þar sem við fengum okkur hádegismat í pílagrímamiðstöðinni. Því næst fengum við lykil að garðinum þar sem Rúhíyyih Khánum, eiginkona Shoghi Effendi er jarðsett. Því næst fórum við niður á pósthús til að senda póstkort til vina og ættingja. Það var auðvitað steikjandi hiti á leiðinni, sem er mjög óvenjulegt  á þessum árstíma. Konan á pósthúsinu spjallaði aðeins við okkur og sagði okkur að alltaf, alla sína æfi, á Purim hátíð Gyðinga, sem nú stendur yfir, hafi verið kalt, yfirleitt rigning og bleyta. Í fyrsta skipti nú, á hennar 44 ára löngu ævi, væri nú sólskin og heitt.

Það voru svo sannarlega orð að sönnu. Mér fannst hitinn núna álíka hár og um mitt sumar þegar ég þjónaði hér árið 1996 og Erin sagði að þetta væri mesti hiti sem hún hefði verið í á ævinni. Planið okkar var að fara næst í upplýsingamiðstöð ferðamanna og fá nokkra bæklinga fyrir samnemendur Erinar í ferðamálaskólanum og ganga svo upp stallana upp á topp.

Í upplýsingamiðstöðinni tók á móti okkur afar indæl ísraelsk kona sem aðstoðaði Erin við að finna rétta efnið fyrir hana. Einnig voru þar miðaldra kona og tvær dætur hennar, bahá'íar með rauð „visitor"-barmmerki, sem við giskum á að merki að þær hafi verið ættingjar að heimsækja einhvern starfsmann við heimsmiðstöðina.

Stallarnir - sýnir vel hæðina.Þegar við ætluðum að borga vantaði konunni í afgreiðslunni skiptimynt og því þurfti ég að fara og skipta 100 sékla seðlinum mínum í galleríi hinu megin götunnar. Á meðan tók Erin tal við stúlkurnar sem voru forvitnar um Ísland og konan í afgreiðslunni færði henni vatn og sagði henni móðurlega að halda sig í skugganum þar sem hún væri með svo ljósa húð. Þegar ég kom loks til baka kvöddum við og fórum í sjoppu þar nærri á Ben Gurion-stræti og fengum okkur frostpinna til að kæla okkur niður fyrir fjallgönguna. Eftir að hafa klárað þá litum við á hvort annað: „Labba upp alla stallana? Í þessum hita?!" Við ákváðum að reyna að komast upp allavega hálfa leið að Grafhýsi Bábsins. Þegar við gengum inn um hliðið á neðsta stallinum spurðum við öryggisvörðinn hvert hitastigið væri. Hann sagði að það væri um 40°C í skugga, líklega um 45°C í sólinni. Við lölluðum tiltölulega rólega upp stallana og litum í kringum okkur á leiðinni. Spjölluðum við einn bahá'í sjálfboðaliða í öryggisvörslunni. Hann var frá Flórída og sagðist vanur svona hita úr heimahögunum. Hann var af norskum ættum sagði hann okkur þegar við sögðumst vera frá Íslandi.

Að labba upp stallana í þessu hita tók vel á. Við svitnuðum eins og svín svo það var ekki séns að við færum beint inn í grafhýsi Bábsins að biðja án þess að skola okkur í framan og fá okkur vatnsglas. Við fórum því fyrst í gamla pílagrímahúsið og fengum okkur vatn. Erin var eldrauð í framan og einni konu brá svo mikið að sjá hana, taldi hana við það að fá sólsting, svo hún færði henni blautar handþurrkur til að setja á hálsinn og andlitið. Hún var frá Arizona og þekkti John Jason, bahá'ía sem Erin þekkir frá fornu fari sem bjó í Joensuu í Finnlandi þegar hún var yngri. Þessi kona þekkti hann þegar hann bjó í Bandaríkjunum áður en hann flutti til Finnlands, sem var fyrir um 30 árum síðan. Týpískt ég-þekki-einhvern-sem þú-þekkir í bahá'í samfélaginu. ;)

Þegar við vorum búin að þvo okkur í framan, fá okkur nóg að drekka og ná okkur eftir vökvatapið og Erin var orðin aðeins minna rauð í framan, fórum við í Grafhýsið og báðum þar um stund. Að því loknu fórum við á Hadarsvæðið og fengum okkur shawarma og franskar í kvöldmat og fórum svo í pílagrímamiðstöðina og skrifuðum í dagbækurnar okkar þar til tími var kominn til að fara í Alþjóðlegu kennslumiðstöðina og hlýða á fyrirlestur kvöldsins kl. 20:00.

Að þessu sinni var það meðlimur Allsherjarhúss réttvísinnar, Dr. Payman Mohajir, sem talaði um núverandi fimm ára áætlun sem bahá'íar eru að vinna að. Það var mjög gaman að hlýða á hann, hann kom með skemmtilegar sögur með húmorinn í lagi svo áhorfendur skelltu ósjaldan uppúr. Þessi fyrirlestur skýrði ýmis atriði fyrir mér sem voru óljós um aðferðirnar sem við beitum í dag við útbreiðslu trúarinnar sem eru nokkuð frábrugðnar þeim sem notaðar voru á tímum Shoghi Effendi.

Ég fór alsæll í háttinn þetta kvöld. Smile

Myndaalbúm dagsins


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband