Föstudagur, 8. júní 2007
Konungur Vestur-Samóa látinn
Nú nýlega bárust þær fréttir að konungur Vestur-Samóa, Hans hátign Malietoa Tanumafili II. væri látinn, 94 ára að aldri.
Malietoa var annar þjóðhöfðingja til að gerast bahá'íi, á eftir Maríu Rúmeníudrottningu.
Ég man að ég var eitthvað að fletta í
Bahá'í World bókunum heima í
Raftahlíð 77 á Króknum þegar ég
var táningur og í einni bókanna,
sem spannar að mig minnir árin
1973-1976 var mynd af konunginum
á einni af fyrstu síðunum. Ég var
einhverra hluta vegna heillaður og
mjög stoltur af þessum konungi og
síðan þá hef ég kunnað nafn hans
utan að. Þegar fréttirnar bárust á
fréttavef Alþjóðlega bahá'í samfélagsins um andlát hans mundi ég nafn hans mér til nokkurrar furðu g ánægju.
Malietoa Tanumafili II. látinn? Æi, enn leiðinlegt. Vá! Var hann 94 ára! - hugsaði ég.
Andlát hans markar lok æviskeiðs hjá merkum manni í sögu Bahá'í trúarinnar og því sendi Andlegt þjóðarráð bahá'ía Íslandi forsætisráðherra Vestur-Samóeyja
samúðarskeyti eins og fjölmörg þjóðarráð út um allan heim.
Í lok maí fékk íslenska þjóðarráðið svo skýrslu um atburðina í tengslum við útför hans sem ég las. Það var mjög merkilegt að lesa hana. Bahá'í samfélagið á eyjunum hélt sérstaka minningarathöfn um hann í tilbeiðsluhúsinu sínu í höfuðborginni Apia, en þar er að finna eitt af sjö tilbeiðsluhúsum bahá'ía í heiminum. Meðal gesta við minningarathöfnina voru meðlimir konungsfjölskyldunnar.
Dagskrá minningarathafnarinnar má svo finna hér, en þar má lesa um sögu þess þegar hann gerðist bahá'íi. Hún er nokkuð áhugaverð. Athugið að maður þarf að fletta svolítið fram og aftur þar sem brotið miðast við heftaðan bækling en ekki lestur af tölvuskjá.
Sjálf útförin á vegum ríkisins var svo haldin 18. maí sl. Þótt þjóðhöfðinginn væri bahá'íi, var það samt sem áður Samráðsvettvangur kristinna kirkna í Samóa (National Council of Christian Churches in Samoa, NCCCS) sem hafði umsjón með útförinni. Það sem gerði þessa útför nokkuð merkilega, raunar einstaka í sögu Vestur-Samóa, var að þrátt fyrir beiðnir þar um var engum kirkjudeildum leyft að fá lík konungs lánað fyrir guðþjónustur og líkið kom því aldrei inn fyrir kirkjudyr. Einnig voru ávörp kirkjuleiðtoga ekki leyfð í sjálfri útförinni á vegum ríkisins né heldur fengu þeir að halda líkræður.
Þjóðarráð bahá'ía í eyjunum hafði einnig beðið um að lesið yrði úr ritum bahá'í trúarinnar við útförina á vegum ríkisins en þeirri beiðni var sömuleiðis hafnað. Þess í stað var því bent á að bahá'íarnir gætu nýtt sér sérstaka stund, í lokin held ég, þar sem mönnum gæfist kostur á að syngja sálma og fara með bænir, til að lesa úr sínum ritum.
Bahá'í útför, eins og mælt er fyrir um, þar sem sérstök skyldusafnaðarbæn er lesin var ekki hluti af ríkisútförinni, heldur var sérstök bahá'í útför haldin í þinghúsinu daginn fyrir ríkisútförina. Henni var sjónvarpað beint. Tvöhundruð bahá'íar sóttu þá stund. Bahá'í kórinn flutti fjögur lög úr helgum ritum trúarinnar og formaður þjóðarráðsins las bahá'í skyldusafnaðarbænina. Að lokum vottaði hver gestur konunginum virðingu sína um leið og þeir yfirgáfu þinghúsið.
Ég leitaði mikið að myndskeiðum frá þessum athöfnum en fann því miður aðeins þessa síðu hjá TV ONE NZ. Því miður er tengillinn með ríkisútförinni í fullri lengd brotinn. Hinsvegar eru önnur áhugaverð myndskeið sem hægt er að skoða. Þá helst tvö síðustu myndskeiðin.
Hér fann ég svo einkar fallegt myndskeið sem einhver bahá'íi hefur útbúið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.