Inn um bakdyrnar á samkomu sér til heiðurs

Nú hef ég nýlokið við að að lesa seinna bindið í mjög áhugaverðu safni af sögum af ‘Abdu’l-Bahá sem ber nafnið Visiting ‘Abdu’l-Bahá eftir Earl Redman. Redman og eiginkona hans komu hingað til lands fyrir nokkrum árum og heimsóttu bahá’í samfélög hér á landi og sögðu sögur af honum. Sögustundir þeirra fengu afar góðar viðtökur hér á landi eins og annars staðar og í kjölfarið gaf Redman út bók með safni af sögum af ‘Abdu’l-Bahá sem byggðar eru á frásögnum pílagríma sem heimsóttu hann í ‘Akká og Haifa í byrjun síðustu aldar.

Ég byrjaði að lesa þessar bækur í fyrra í tilefni af því að þá voru 100 ár liðin frá andláti ‘Abdu’l-Bahá. Baháíar um allan heim héldu upp á tímamótin og hér á Íslandi var meðal annars haldin athöfn í Gamla bíói (sjá upptöku frá 100 ára ártíð ‘Abdu’l-Bahá). Mig langaði því að dýpka þekkingu mína á syni Bahá’u’lláh og túlkanda kenninga hans, og fá betri innsýn inn í líf hans og starf og átti úr vöndu að velja af bókum sem gefnar voru út um hann um þetta leiti.

Ég hef aldeilis ekki verið svikinn af því að lesa þessa bók. Hún er uppfull af fróðleik og mér finnst ég kominn í nánari snertingu við Meistarann ástkæra eins og bahá’íar kölluðu hann á sínum tíma.

Ein saga gaf mér nýja innsýn inn í atburð sem mér var vel kunnugt um. Það er þegar Bretar ákváðu að sæma ‘Abdu’l-Bahá aðalstign sem viðurkenningu fyrir mannúðarstörf sín í Palestínu, nú Ísrael. Mér var þó ekki kunnugt um stjórnsýslulegan aðdraganda þess né um viðbrögð ‘Abdu’l-Bahá þegar til kom og reyndust þau heldur betur í þeim anda auðmýktar og þjónustu sem einkenndu líf hans. Ég læt því flakka lauslega þýðingu á þessari frásögn:

„‘Abdu’l-Bahá var sleginn til riddara Breska heimsveldisins þann 27. apríl fyrir mannúðarstörf sín meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir. Þegar Sir Arthur Money hershöfðingi stakk fyrst upp á því að veita ‘Abdu’l-Bahá orðu sagði Badi Bushrui, einkaritari hershöfðingjans og bahá’íi: ‚ ‘Abdu’l-Bahá  tekur ekki við orðum úr hendi konunga heldur færir hann þeim heiður. Engu að síður, þar sem hann hefur þolað ofsóknir af hálfu Tyrkja í 40 ár mun hann eflaust veita þeim heiðri viðtöku sem þið óskið að veita honum.‘ Reyndar hafnaði ‘Abdu’l-Bahá orðuveitingunni í fyrstu en féllst loks á að taka við henni þar sem það var vilji bresku stjórnarinnar að veita hana.“

Síðan er nokkrum orðum farið um ferlið sem leiddi til orðuveitingarinnar og vitnað í bréfasendingar embættismanna varðandi tilnefninguna, þar á meðal vangaveltur um hvort hann myndi setja fyrir sig að orðan væri krosslaga þar sem hann væri ekki kristinn. Einnig var skoðað hvort að orðuveitingin gæti haft neikvæðar pólitískar afleiðingar.

„G.P. Churchill, háttsettur embættismaður í utanríkisráðuneytinu og sá sem skrifaði undir orðuveitingarskjalið, hafði meiri áhyggjur af pólitískum afleiðingum og lagði til að breski sendiherrann í Tehran og utanríkisráðherra Persíu yrðu spurðir álits. Hvorugur mótmælti. Konungurinn samþykkti orðuveitinguna þann 7. nóvember 1919“.

Þetta finnst mér merkilegt í ljósi þess að írönsk stjórnvöld, sem hafa ofsótt bahá’ía í vöggu trúar sinnar í áratugi, hafa iðulega gefið í skyn að bahá’í trúin hafi óeðlileg tengsl við nýlenduveldin, sérstaklega Breta og Rússa, og bahá’íar séu á einhvern hátt útsendarar þeirra. Þetta er enn einn naglinn í líkkistu þeirra fáránlegu kenninga að þeirra eigin utanríkisráðherra var hafður með í ráðum þegar ákveðið var að veita ‘Abdu’l-Bahá orðu.

Svo kemur frásögn um orðuveitingarathöfnina:

Frá orðuveitingunni (Bahá'í Media bank, media.bahai.org)„Stuttu fyrir orðuveitinguna þann 27. apríl 1920, sendu Bretar stóran bíl til að sækja ‘Abdu’l-Bahá. Meistarinn fannst hinsvegar hvergi. Á meðan allir leituðu ‘Abdu’l-Bahá var Isfandíyár að harma það sem hann sá sem eigið gagnsleysi, en hann hafði verið vagnekill hans um margra ára skeið; ‚Það er ekki þörf fyrir mig lengur‘; En þegar ‘Abdu’l-Bahá birtist loks gaf hann Isfandíyár merki um að gera vagninn tilbúinn. Það var á bílnum sem ekki var þörf.“

„Athöfnin var haldin í fallegum garði við hús breska landstjórans, Stantons ofursta. Aðrir embættismenn og trúarleiðtogar kristinna, múslima og gyðinga voru viðstaddir auk annarra mektarmanna og embættismanna borgarinnar. Enskir hermenn stóðu við jaðar garðsins og herhljómsveit spilaði tónlist. ‚Allir voru að bíða eftir að ‘Abdu’l-Bahá yrði keyrt upp að húsinu með mikilli viðhöfn. Röð hermanna stóð upp við stíginn upp að húsinu og beið þess að standa heiðursvörð. Öllum til mikillar undrunar kom ‘Abdu’l-Bahá hljóðlega inn um bakdyrnar og settist í sætið ætlað honum.‘“

„Allenby hershöfðingi var steinhissa en náði sér fljótt. Hann hélt stutta ræðu þar sem hann stóð fyrir aftan ‘Abdu’l-Bahá og því næst sagði Meistarinn nokkur orð og fór með bæn fyrir bresku stjórninni. Þegar athöfninni lauk fór ‘Abdu’l-Bahá sömu leið og hann kom og Allenby hershöfðingi áttaði sig á að ríkisstjórn hans hafði verið heiðruð, ekki öfugt.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband