„Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig“

Mofi lagði til að ég byggi til nýjan þráð í framhaldi af umræðum í tengslum við síðustu færslu. Umræðan var komin út á vangaveltur um hinn þríeina Guð, þ.e. ef ég skil það rétt að Jesús sé allt í senn, Faðirinn, sonurinn og hinn heilagi andi. Kristnir undirstrika með þessu einstæði Krists yfir alla aðra trúarbragðahöfunda.

Bahá'í trúin lítur aðeins öðruvísi á málin, þ.e. að Jesús og aðrir Guðlegir opinberendur opinberi Guð í samræmi við getu manna á hverjum tíma. Innsti kjarni Guðdómsins er óaðgengilegur okkur mönnum og raunar opinberendunum sjálfum. Hann getum við ekki þekkt frekar en borðið skilur smiðinn sem smíðaði það. Sköpunin getur aldrei þekkt skaparann.

Svo vitnað sé í orð Bahá'u'lláh sjálfs:

XX. Vita skalt þú með vissu að hinn óséði getur á engan hátt  líkamnað eðlisgerð sína og opinberað hana mönnum. Hann er, og hefur ætíð verið, ómælanlega hátt hafinn yfir alla tjáningu eða skynjun. Frá athvarfi dýrðar hans kunngerir rödd hans án afláts:  “Sannlega er ég Guð; enginn er Guð nema ég, hinn alvitri og alvísi. Ég hef birt mig mönnum og sent niður þann sem eins og sólin stafar frá sér táknum opinberunar minnar. Með fulltingi hans hef ég látið alla sköpunarverkið votta að enginn er Guð nema hann, hinn óviðjafnanlegi og alupplýsti, hinn alvísi.” Hann, sem er að eilífu hulinn sjónum manna, er aldrei hægt að þekkja nema af opinberanda hans og opinberandi hans getur ekki gefið neina frekari staðfestingu á sannleiksgildi ætlunarverks síns en sína eigin persónu.

Úrval úr ritum Bahá'u'lláh, kafli. XX.

og einnig:

 

XXII. Þeir sem gæta vörslufjár Guðs birtast þjóðum jarðar sem skýrendur nýs málstaðar og opinbera nýjan boðskapar. Þar sem þessir fuglar hins himneska hásætis eru allir sendir niður frá himni vilja Guðs og þar sem þeir rísa allir upp til að kunngera ómótstæðilega trú hans, er litið á þá sem eina sál og eina og sömu persónu. Því allir drekka þeir af sama bikar Guðs ástar og neyta af ávexti eins og sama trés einingarinnar

 ...

    Ef einhver hinna alltumlykjandi birtinga Guðs segði: ,,Ég er Guð!” mælti hann vissulega sannleikann og það án nokkurs vafa. Því þráfaldlega hefur verið sýnt fram á, að með opinberun hans, eigindum og nöfnum, er opinberun Guðs, nöfn hans og eigindir, birt heiminum. Því segir hann einnig: ,,Þessi spjót voru Guðs, ekki þín!” Einnig segir hann: ,,Í sannleika sóru þeir Guði trúnað sem sóru þér trúnað.” Og ef einhver þeirra segði: ,,Ég er sendiboði Guðs,” segði hann einnig ótvíræðan sannleika. Líkt og hann sagði: ,,Múhameð er ekki faðir neins á meðal yðar, en hann er boðberi Guðs.” Frá þessu sjónarhorni eru þeir allir aðeins boðberar hins fullkomna konungs, hins óbreytanlega kjarna. Og ef þeir allir kunngerðu: ,,Ég er innsigli spámannanna”, segðu þeir vissulega hreinan sannleika.  Því þeir eru aðeins ein persóna, ein sál, einn andi, ein verund, ein opinberun. Þeir eru allir opinberendur ,,upphafsins” og ,,endalokanna”, hins ,,fyrsta” og hins ,,síðasta”, hins ,,sýnilega” og hins ,,ósýnilega” - allt á þetta við um innsta andi alls anda og eilífan eðliskjarna alls eðlis. Og ef þeir segðu: ,,Við erum þjónar Guðs” þá er það einnig ótvíræð og ómótmælanleg staðreynd. Því þeir hafa verið birtir í stöðu fullkominnar þjónustu, þjónustu sem enginn maður getur nokkru sinni öðlast. Þess vegna sögðu þessir eðliskjarnar verundarinnar að orð sín væru orð guðdómsins, kall Guðs sjálfs, þegar þeir voru umluktir hafdjúpum forns og eilífs heilagleika eða þegar þeir svifu til háleitustu tinda guðdómlegra leyndardóma.

 Úrval úr ritum Bahá'u'lláh, kafli. XXII.

Í þessu ljósi má lesa eftirfarandi tilvitnun úr Jóhannesarguðspjalli:

Vegurinn, sannleikurinn, lífið
1„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? 3Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
5Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
6Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig. 7Ef þér hafið þekkt mig munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann.“
8Filippus segir við hann: „Drottinn, sýn þú okkur föðurinn. Það nægir okkur.“
9Jesús svaraði: „Ég hef verið með yður allan þennan tíma og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: Sýn þú oss föðurinn? 10Trúir þú ekki að ég er í föðurnum og faðirinn í mér? Það sem ég segi við yður eru ekki mín orð. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk. 11Trúið mér að ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Ef þér trúið ekki orðum mínum trúið þá vegna sjálfra verkanna. 12Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig mun einnig gera þau verk sem ég geri. Og hann mun gera meiri verk en þau því ég fer til föðurins. 13Og hvers sem þér biðjið í mínu nafni það mun ég gera svo að faðirinn vegsamist í syninum. 14Ef þér biðjið mig einhvers í mínu nafni mun ég gera það.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róbert Badí Baldursson

Er talað um einhvern Jesús í Gamla testamentinu? Gátu Gyðingar flett honum upp í ritum sínum þegar hann var uppi?

Róbert Badí Baldursson, 18.12.2007 kl. 15:43

2 Smámynd: Mofi

Jesús varaði við fals kristum og fals spámönnum, sjá:

Matteus 24

"4 Jesús svaraði þeim: „Varist að láta nokkurn leiða yður í villu. 5 Margir munu koma í mínu nafni og segja: Ég er Kristur! og marga munu þeir leiða í villu. 6 Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi. Gætið þess að skelfast ekki. Þetta á að verða en endirinn er ekki þar með kominn. 7 Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum. 8Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.

9 Þá munu menn framselja yður, pína og taka af lífi og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns. 10Margir munu þá falla frá og framselja hver annan og hata. 11 Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu. "

Svo fyrir þann sem tekur mark á Kristi hann hugsar með sér að það eru til margir fals spámenn, að margir munu segja hitt og þetta en eru aðeins að leiða mann í villu. Geturðu verið sammála þessu Róbert, að það eru til boðberar frá Guði og það eru til menn sem segjast vera boðberar frá Guði en eru falsspámenn?

Mofi, 18.12.2007 kl. 16:53

3 Smámynd: Róbert Badí Baldursson

Jú, ég get verið sammála því. „Af ávöxtunum munuð þér þekkja þá“

Róbert Badí Baldursson, 18.12.2007 kl. 17:06

4 Smámynd: Mofi

Hvernig getur maður þekkt fals spámennina frá þeim sem eru sannarlega frá Guði?

Mofi, 18.12.2007 kl. 18:09

5 Smámynd: Mofi

Kannski betri spurning væri, geta tveir spámenn frá Guði verið ósammála um eitthvað af stóru atriðunum? 

Mofi, 18.12.2007 kl. 20:23

6 Smámynd: Árni þór

Róbert þú skilur ekki rétt Jesús er ekki allt í senn faðirinn, sonurinn og heilagur andi.
Guð er þrír einn en samt einn; faðir, sonur og heilagur andi, við erum sköpuð í Guðs mynd sem líkami sál og andi.
Faðirinn er sá sem gerði meistaraáætlun, Kristur er hægri hönd hans sá sem framkvæmdi og skapaði allt sem hið lifandi orð. 
Kristur er á mörgum stöðum í gamla testamentinu og fæddist síðan sem maðurinn Jesús, fór upp á krossinn og dó fyrir syndir okkar og reis síðan upp frá dauðum og er núna Jesús Kristur í dýrðarlíkama.

Árni þór, 18.12.2007 kl. 20:46

7 Smámynd: Árni þór

ætlaði að segja að Guð sé þrír en samt einn eins og við erum þrír (líkami,sál og andi) en samt einn

Árni þór, 18.12.2007 kl. 20:49

8 Smámynd: Mofi

Hérna eru vers sem ég tel að sýni að viðkomandi höfundur trúði og fullyrti að Jesús er Guð.

Rómverjabréfið 9
5Þeirra eru ættfeðurnir og af þeim er Kristur kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Guð, blessaður að eilífu. Amen

Filippíbréfið 2
4Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. 5Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.
6Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.
7Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd
og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður,
8lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða,
já, dauðans á krossi.
9Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann
og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra,
10til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja
sig á himni, jörðu og undir jörðu
11og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar:
Jesús Kristur er Drottinn.

Kólussubréfið 2
 9Í manninum Jesú býr öll fylling guðdómsins 10og þið hafið öðlast hlutdeild í fullkomnun hans sem er höfuð hvers kyns tignar og valds.

Síðara Pétursbréf 1
1Símon Pétur, þjónn og postuli Jesú Krists, heilsar þeim sem Guð vor og frelsari Jesús Kristur hefur í réttlæti sínu gefið sömu dýrmætu trú og mér.
2Náð og friður margfaldist með yður með þekkingu á Guði og Jesú, Drottni vorum.

Fyrsta Jóhannesarbréf 5
20Við vitum að sonur Guðs er kominn og hefur gefið okkur skilning til þess að við þekkjum sannan Guð. Við lifum í hinum sanna Guði, í syni hans Jesú Kristi. Hann er hinn sanni Guð og eilífa lífið.

Opinberunarbókin 1
17Þegar ég sá hann féll ég fyrir fætur honum sem dauður væri. Og hann lagði hægri hönd sína yfir mig og sagði: Vertu ekki hræddur, ég er hinn fyrsti og hinn síðasti 18og hinn lifandi. Ég dó en nú lifi ég um aldir alda og ég hef lykla dauðans og heljar.

Markúsarguðspjall 2
5Þá er Jesús sér trú þeirra segir hann við lama manninn: „Barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“
6Þar sátu nokkrir fræðimenn og hugsuðu með sjálfum sér: 7„Hví mælir þessi maður svo? Hann guðlastar. Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?“

Jóhannesarguðspjall 1
1Í upphafi var Orðið[1] Orðið og ljósið í 9. versi vísa til Jesú og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. 2Hann var í upphafi hjá Guði. 3Allt varð til fyrir hann, Fyrir merkir „fyrir atbeina einhvers, um hendur einhvers“. án hans varð ekki neitt sem til er. 4Í honum var líf og lífið var ljós mannanna.
...
10Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. 11Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. 12En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. 13Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd. 14Og Orðið varð hold,[3] 
 hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Jóhannesarguðspjall 5
18Nú sóttu þeir enn fastar að taka hann af lífi þar sem hann braut ekki aðeins hvíldardagshelgina heldur kallaði líka Guð sinn eigin föður og gerði sjálfan sig þannig Guði jafnan.

Læt þetta duga í bili.

Mofi, 19.12.2007 kl. 00:01

9 Smámynd: Róbert Badí Baldursson

Takk fyrir Árni Þór og Halldór.

Varðandi falsspámennina þá er líklegra að Jesús hafi verið að vara fylgjendur sína sérstaklega við því sem koma skyldi eftir dauða sinn, en Gyðingar væntu og óskuðu fyrst og fremst eftir Messíasi sem myndi frelsa þá undan oki Rómverja. Jesús uppfyllti ekki þær langanir á meðal þeirra og lagði áherslu á kærleiksboðskap sem var vissulega mun meiri þörf á en það samræmdist ekki bókstaflegum skilningi Gyðinga á spádómum sínum.

Því voru margir sem komu fram og gerðu tilkall til þess að vera Messías. Þar sem Jesús sagði þetta sem Halldór vitnaði í (Matt. 24) um tveimur dögum fyrir krossfestinguna er líklegast að hann hafi verið að búa fylgjendur sína undir þær þrengingar. Eitt dæmi um slíkan falsspámann er t.d. Simon bar Kokhba.

Varðandi tilvitnanirnar hér á undan þá sé ég ekki hvernig þær væru í ósamræmi við orð Bahá'u'lláh (kafla XXII).

Róbert Badí Baldursson, 19.12.2007 kl. 08:50

10 Smámynd: Mofi

Róbert
Jesús uppfyllti ekki þær langanir á meðal þeirra og lagði áherslu á kærleiksboðskap sem var vissulega mun meiri þörf á en það samræmdist ekki bókstaflegum skilningi Gyðinga á spádómum sínum. 

Kærleikurinn var mjög mikilvægur í GT og Jesús segir að kærleikurinn uppfylli lögmálið, svo þessi tvö atriði spegla í rauninni hvort annað. Það sem Jesús gerði samræmdir alveg bókstaflegum skilningi á spádómunum, málið var aðeins að spádómarnir fjölluðu um mismunandi atriði. Tökum t.d. Daníel 9

Daníel 9
„Daníel, hingað er ég kominn til að veita þér glöggan skilning. 23Þegar þú byrjaðir bænir þínar barst orð og ég er hér til að greina þér frá því enda nýtur þú náðar. Hyggðu því að orðinu og öðlastu skilning á sýninni. 24Sjötíu vikur eru útmældar þjóð þinni og hinni heilögu borg þinni þar til mælir misgjörða þinna er fullur og syndirnar afplánaðar, þar til friðþægt verður fyrir ranglætið og eilíft réttlæti kemst á, sýnir spámannanna rætast og hið háheilaga hlýtur smurningu. 25Vita skaltu og skilja að frá því að orð barst um endurreisn og endurbyggingu Jerúsalem, allt til komu hins smurða, líða sjö vikur og á sextíu og tveim vikum verður hún endurreist, torg hennar og síki. Það verður erfiður tími. 26Að þessum sextíu og tveimur vikum liðnum mun hinn smurði afmáður með öllu. Her leiðtoga nokkurs, sem koma skal, mun eyða borginni og helgidómnum en hann mun farast í flóði. Tortíming er fyrirhuguð uns hernaðinum lýkur. 27Hann mun gera traustan sáttmála við marga í eina viku, frá miðri viku mun hann afnema sláturfórn og matfórn. Við horn altarisins verður viðurstyggð eyðingarinnar uns hin fyrirhugaða tortíming steypist yfir viðurstyggðina.“

Gyðingar áttu að vita hvenær Messías myndi vera afmáður og afnema sláturfórnir en allt þeirra trúarhald snérist um musterið og fórnir, ef einhver syndgaði þá gat hann farið í musterið með fórn og fengið fyrirgefningu sem táknaði það sem Guð myndi seinna gera.

Róbert
Varðandi tilvitnanirnar hér á undan þá sé ég ekki hvernig þær væru í ósamræmi við orð Bahá'u'lláh (kafla XXII). 

Kannski samræmist það, þú segir til um.  Í t.d. Jóhannesarguðspjall 5:18 þá segir Jóhannes að Jesús kallaði Guð föður sinn og gerði sig líkan Guði. Enginn af spámönnum Gamla Testamentisins sagði neitt slíkt, þeir voru aðeins menn sem Guð valdi til að tala til, ekkert meira.

Í Jóhannasarguðspjalli 1 þá er talað um að Guð varð að manni eða varð að Kristi og bjó meðal okkar og allt sem er í heiminum varð til fyrir Hann og vegna Hans. Samræmist þetta orðum Bahá'u'lláh?

Mofi, 19.12.2007 kl. 10:02

11 identicon

Sælir strákar,

 Jesús er Drottinn og Guð. Að halda öðru fram er villutrú og Guðlast. Þetta stendur allt og er sannað í Biblíunni og þarf ekki frekari vitna við. Það er ekki minnst á neina Baháúlla í minni Biblíu.

Sóknarbarn, það er ekki alveg rétt að ekki sé minnst á Bahá'u'láh í þinni Bíblíu, nema þú sért með einhverja sérútgáfu. Leitaðu að orðunum Dýrð Guðs og þú munt líkega þó nokkrar vísanir.

En í sambandi við eðli boðberana þá notar Bahá'u'lláh oft líkinguna með speglunum. Ef einhver skyldi benda á sólina og segja ,,Sjá, þarna er sólin" þá væri það augljóslega rétt. Sömuleiðis ef þessi maður benti á spegil sem endurspeglaði sólina og segði ,,Sjá, þar er sólin" þá væri það íka rétt. Við vitum samt að að spegillinn er ekki sólin sjálf ekki satt? Samt sem áður getum við sagt að sólina er að sjá í allri sinni dýrð í þessum spegli. Þetta er í stuttu máli útskýringin á því hvað Jesús meinar þegar hann segir bæði að hann sé og að hann sé ekki Guð.
Samkvæmt mínum skilningi er því líkami hans er spegillinn og andi hans er endurspeglun vilja Guðs.

Sömuleiðis eru allir boðberarnir slíkir guðlegir speglar sem lýsa ljósi vilja Guðs á mennina. Allir eru þeir jafnir og í eði sínu eru þeir eitt.

Til að skilja þetta betur má íhuga Bíblíuversin þar sem Jóhannes skírari er spurður hvort hann sé Elía. Hann svarar fariseunum neitandi á meðan Jesús svara játandi að Jóhannes skírari sé Elía. Hér er aftur verið að vísa í efnið og andann. Jóhannes svarar nei því að hann er líkamlega ekki endurkoma Elía en Jesús svarar játandi vegna þess að andlega er Jóhannes skírari endurkoma Elía.

 m.b.k.
Jakob

. (IP-tala skráð) 20.12.2007 kl. 21:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband