„Bahá'í stjórnskipulagið og hugmyndin um ríki Guðs“ - viðtal

Jæja, Rósin, fréttabréf Bahá'í samfélagsins í Reykjavík birti „viðtal“ við mig (raunar varð ég að lagfæra spurningarnar sjálfur, hehh Smile). Þar sem ég á því að nokkru leiti að þakka bloggsamræðum við Mofa og Hauk leyfi ég mér að birta það hér.

1) Róbert Badí, þú varst með fyrirlestur í Bahá'í miðstöðinni að Öldugötu um miðjan janúar sem hét „Bahá'í stjórnskipulagið og hugmyndin um ríki Guðs“. Hvernig er stjórnskipulag bahá'í trúarinnar frábrugðið skipulagi annarra trúarbragða? Og hvernig er það frábrugðið t.d. skipulagi kirkjunnar?


Í fyrsta lagi er bahá'í stjórnskipulagið einstakt að því leiti að aldrei fyrir í trúarsögunni hefur opinberandi Guðs sagt til um hvernig stjórn trúarinnar ætti að vera háttað eftir sinn dag. Bahá'u'lláh sagði fyrir um stofnun „húsa réttvísinnar“, bæði Allsherjarhúss réttvísinnar og „svæðisbundinna húsa réttvísinnar“. 'Abdu'l-Bahá og Shoghi Effendi útfærðu nánar verksvið og hlutverk þeirra. Í dag höfum við í samræmi við ákvæði Erfðaskrár og sáttmála 'Abdu'l-Bahá og túlkunar og leiðsagnar Shoghi Effendi andleg ráð á þremur stjórnstigum sem má líta á sem þessi „hús réttvísinnar“ sem Bahá'u'lláh kvað á um, nema hvað þau eru í dag aðeins á fósturstigi. Þau eru að vaxa og þroskast og þekkjast undir því sem Shoghi Effendi sagði að væri tímabundið heiti, þ.e. „Andleg svæðis- og þjóðarráð bahá'ía“.


Fyrri trúarkerfi, t.d. kristni og islam hafa ekki svo nákvæm fyrirmæli frá opinberanda sínum um tilhögun og skipulag trúar sinnar eftir sinn dag.


2) Hvernig tengist bahá'í stjórnskipulagið ríki Guðs?
Það var eiginlega tilviljun að ég fór þá leið að tengja þennan fyrirlestur um stjórnskipulagið við ríki Guðs eins og talað er um það í Biblíunni. Það vildi svo til að ég lenti í bloggsamræðum við vinnufélaga mína sem fékk mig til að lesa kafla úr bókinni Prophecies of Jesus eftir Michael Sours. Hún er frábær og þar er meðal annars viðauki sem fjallar sérstaklega um hugmyndina um ríki Guðs. Ég vann því út frá henni og tengdi bahá'í stjórnskipulaginu. Í stuttu máli þá lagði Bahá'u'lláh grunn að nýju heimsskipulagi sem við bahá'íar trúum að við séum að byggja upp og stuðla að með starfi okkar.


Lokatakmark þess er eining og bræðralag, eining alls heimsins í einni sameiginlegri trú þar sem réttlæti og friður ríkir.


Bahá'í stjórnkerfið er „ekki aðeins kjarni heldur mynstur nýs heimsskipulags“ segir Shoghi Effendi. Það er ekki sjálft heimsskipulagið heldur einungis tæki til að koma því á. Annar merkilegur lærdómur sem ég dró af þessum lestri er sá að það er ekkert í bahá'í ritunum sem segir að Jesús Kristur hafi ekki stofnað ríki Guðs á jörðu. Ég hafði alltaf skilið það svo að ríki Guðs sem talað er um í Biblíunni sé aðeins eitthvað sem koma myndi síðar í fyllingu tímans og því hefði hann aðeins spáð um það en ekki komið því á. Það er ekki alveg rétt.


Opinberendur Guðs eru búnir valdi og myndugleika þegar þeir birtast, nema hvað ekki veraldlegu valdi eins og flestir menn þekkja best og þráðu, t.d. þegar Kristur kom fram og olli þeim vonbrigðum þegar hann ætlaði ekki að berjast fyrir þá [þ.e. Gyðinga] sem veraldlegur konungur gegn oki Rómverja. Yfirráðasvæði opinberenda Guðs spannar hjörtu þeirra sem á hann trúa og það endurspeglast á veraldlegu sviði í góðum verkum fylgjendum þeirra. Ríki Guðs á jörðu á kristnum tíma voru því dómkirkjur og líknarstofnanir í Rómaveldi og auðvitað fleiri stofnanir síðar meir.


Stjórnskipulag bahá'í trúarinnar er tæki sem miðlar anda trúarinnar sem Bahá'u'lláh opinberaði okkur og mun hjálpa okkur að tjá trú okkar með sama hætti, nema hvað nú höfum við möguleika á að gera það um allan heim og byggja upp heimssiðmenningu sem aldrei hefur verið hægt fyrr á tímum. Það er því ekki að bahá'í trúin sé einfaldlega best í „samkeppni trúarbragðanna“ og þess vegna muni hún koma á ríki Guðs sem Jesús talar um í faðirvorinu heldur byggir hún á arfleifð fyrri opinberenda og þess vegna mun það gerast. Þetta er jú „eilíf trú Guðs. Eilíf í fortíðinni, eilíf í framtíðinni“ eins og Bahá'u'lláh segir.

3) Í lýðræðisríkjum nútímans er mikil áhersla lögð á að kjörnir fulltrúar fólksins þjóni þeim og framkvæmi vilja þeirra sem kusu þá. Hvernig er þessu háttað í Bahá'í stjórnskipulaginu? Er þetta eins eða einhver munur hér á?


Já, það er mikill munur á þessu í bahá'í stjórnskipulaginu. Aristóteles skilgreinir þrjú stjórnarform. Eitt af þeim er lýðræði sem talið er vera best í dag og það sem Vestræn siðmenning hampar. Engu að síður getur hún, eins og öll stjórnarform, úrkynjast og valdið þjáningum og ringulreið. Lýðræði getur úrkynjast í lýðskrum þar sem valdhafar höfða til útbreiddra fordóma fólks til að tryggja eigið kjör til embætta og heildarhagsmunir sinnar þjóðar, hvað þá alls heimsins, eru ekki hafðir að leiðarljósi.


Bahá'í trúin kemur í veg fyrir þetta með því að árétta andlegt eðli einstaklingsins og að valdhafar, þ.e. kjörnir fulltrúar fólksins, eru ekki ábyrgir gagnvart þeim sem kusu þá heldur Guði. Þeim ber að gera það sem er rétt og sæmandi eins og „samviska þeirra knýr þá til“. Einnig er bahá'íum bannað að sækjast eftir kjöri. Við megum ekki bjóða okkur fram eða hvetja aðra til kjósa tiltekna einstaklinga. Kosningin er heilög í eðli sínu, milli kjósandans og Guðs. Þeir sem eru kosnir verða að taka við kjöri í anda auðmýktar og þjónustu þar sem forðast er flokkadrætti og óeiningu sem einkennir því miður stjórnmál samtímans.


Einnig eru völd innan bahá'í samfélagsins aldrei í höndum einstaklinga heldur í höndum fjölskipaðra ráða.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband