Dagbók pílagrímsferðar - komið til Haifa

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Á leiðinni - 15. mars 2008, laugardagur

„Vá, þetta eru há fjöll!" sagði Erin og leit á skjáinn í sætisbakinu fyrir fram sig og skoðaði landakortið sem þar var og litlu flugvélina sem þá stundina markaði staðsetningu Boeing 777 vélar British Airways sem við vorum í. „Þetta eru Alparnir er það ekki!" hrópaði hún spennt. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé Alpana!" Stuttu síðar endurtók sagan sig þegar við flugum yfir borg, líklega Sofiu í Búlgaríu og svo framhjá Kýpur. Erin var heldur betur spennt og hrifin

Þetta var í fyrst skipti sem Erin fer svo sunnarlega eða austarlega. Hún hefur komið til allra landa í Skandinavíu og Bretlands áður en aldrei til þessa heimshluta og aldrei í pílagrímsferð eða þriggja daga heimsókn til Bahá'í helgistaðanna í Ísrael. Ég næstum því skammast mín fyrir að vera að fara í fimmta skiptið. Reyni að líta svo á að mitt hlutverk sé að leiðbeina Erin um svæðið og sjá til þess að hún fái sem mest úr ferðinni. Við pössuðum upp á að mæta snemma á Heathrow. Við erum jú að fara til Ísrael og öryggisgæslan verður væntanlega í hámarki. Hún reyndist svo ekki vera meiri en ég átti von á. Venjulegt eftirlit á Heathrow, screening þar sem ég og Erin vorum beðin að stíga til hliðar um leið og við gengum úr vélinni og gera grein fyrir erindi okkar til landsins og svo ítarleg vegabréfaskoðun við tollhliðið þar sem ég var spurður furðulegrar spurningar. Svo vorum við laus.

Við höfðum komið auga á fólk við útgönguhliðið á Heathrow sem okkur grunaði að væru bahá'íar á leið í pílagrímsferð. Þegar við lentum kom í ljós að þeir voru mun fleiri. Neda, persnesk kona spurði hvort við vildum slá saman í sherut til Haifa. Þar sem við höfðum lesið að við mættum ekki koma til Haifa fyrr en kl. 21 þorðum við ekki að leggja strax af stað þangað og ætluðum að drepa tímann á vellinum á meðan. Við afþökkuðum það góða boð.

Því næst hittum við Jessicu, konu frá Wales og förunaut hennar, ungann mann að nafni Thenna, úr sama bæjarfélagi. Þau höfðu fyrir tilviljum valið sömu dagsetningar fyrir pílagrímsferð á sama hátt og við og Sigga Lóa og Sigurður Ingi úr Kópavogi. Það voru heldur ekki samantekin ráð.

Jessica og Thenna, sem er hálfur Íraki og hálfur Breti, voru einnig að velta fyrir sér hvort við vildum verða samferða þeim. Við bentum þeim á tuttuguogeitt-regluna (pílagrímar eiga ekki að koma til Haifa-‘Akká svæðisins fyrr en kl. 21 degi fyrir upphaf pílagrímsferðar) og ákváðu þau að bíða. Við áttum svo þetta fína samtal við Jessicu í kaffiteríunni á Ben Gurion flugvellinum.

Á meðan við við vorum að ræða við hana stend ég upp til að athuga eitthvað og þá gengur maður á móti mér og segir „Hello, hello! Badí from Iceland!" Ég spyr hvernig hann viti það. Hann kynnir sig og kemur í ljós að þetta var Neysan Rafat frá Þýskalandi sem þjónaði í nokkra mánuði á Íslandi og bjó ásamt félaga sínum Riaz Khabirpour hjá Davíð Ólafssyni. Það voru fagnaðarfundir. Hann var að koma í pílagrímsferð ásamt ömmu sinni.

Loks tókum við lestina frá Ben Gurion flugvelli kl. 19:35. Þá vorum við orðin vel þreytt eftir ferðina en mjög sæl og ánægð með að hafa hitt allt þetta fólk, og það bara á flugvellinum. Við vorum komin til Haifa kl. 20:55.

Þegar við stigum út af lestarstöðinni blasti við okkur flóðlýst grafhýsi Bábsins og upplýstir stallarnir í næturhúminu. Erin var dolfallin. Trúði varla sínum eigin augum. Var hún raunverulega hér?

Við tókum leigubíl á hótelið okkar. Lítið snoturt hótel efst upp á Karmelfjalli. Við komum okkur fyrir og fórum svo og fengum okkur kvöldsnæðing á McDonalds og fórum svo að sofa. Á morgun er svo skráning og formlegt upphaf pílagrímsferðarinnar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband