Dagbók pílagrímsferðar - dagur 6

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Dagur 6 - 21. mars 2008 - föstudagur

BangsarÍ dag er engin skipulögð pílagrímadagskrá enda Naw-Rúz (nýársdagur). Það verður haldið upp á daginn með helgistund kl. 16:00.

Við leyfðum okkur að sofa aðeins lengur í dag og vorum ekki mætt í morgunmat fyrr en kl. 08:50, tíu mínútum áður en lokaði. Því næst fórum við að efsta stallinum. Á leiðinni var mikill mannfjöldi á götum úti vegna Purimhátíðar Gyðinga. Það var sannkölluð karnivalstemning á götum úti og ógrynni barna í grímubúningum, þannig að það minnti einna helst á öskudaginn heima á Íslandi. Eftir að hafa náð að smokra okkur í gegnum mannfjöldann komumst við að efsta stallinum og gengum niður efri stallana að Grafhýsi Bábsins. Hitinn var mikill og maður svitnaði vel við að bera þungan bakpokann okkar niður hlíðina. Þegar við komum niður fórum við í gamla pílagrímahúsið og notuðum salernisaðstöðuna þar til að skola burt mesta svitann af andlitinu og kæla okkur niður áður en við færum í grafhýsi Bábsins til að biðja.

Við eyddum dágóðri stund þar við bæn og íhugun. Að því loknum fórum við á Hadarsvæðið og fengum okkur að borða. Erin fékk sér shawarma, sem hún er farin að elska. Ég ákvað að halda mig á grænmetislínunni og fékk mér falafel. Þegar við vorum mett tókum við Carmelit-lestina upp á fjallið og gengum á hótelið okkar. Þar höfðum við fataskipti og fórum í betri fötin og tókum svo leigubíl að hliðinu á Golombstræti 16 og gengum að aðsetri Allsherjarhúss réttvísinnar.

Kern WismanÞar var samankominn töluverður mannfjöldi og á bak við aðsetrið mátti finna borð þar sem hægt var að fá vatn, te og kex. Það leið ekki á löngu þar til ég sá fólk sem ég kannaðist við frá þjónustu minni hér. Helst ber að nefna Kern Wisman og konu hans Barböru. Kern var yfirmaður minn í starfsmannaversluninni sem ég vann í en hann dvaldi sem skiptinemi á Íslandi á því herrans ári 1969 og gekk í Menntaskólann í Reykjavík. Það var löngu áður en hann gerðist bahá'íi þótt hann hafi reyndar heyrt hennar fyrst getið þar.

Núna þjónar hann sem sérstakur fulltrúi Alþjóðlega bahá'í samfélagsins með aðsetur í Jerúsalem. Hann sér því um samskipti við stjónvöld í Ísrael og í tilefni af Naw-Rúz verður sérstök mótttaka þar í borg fyrir fyrirmenn þjóðarinnar af því tilefni.

Eftir að hafa heilsað þeim sem ég þekkti var okkur bent á að drífa okkur inn í hátíðarsalinn því þar væri allt að verða pakkað af fólki. Það voru orð að sönnu. Ég hef aldrei séð hátíðarsalinn svona fullann. Þarna voru samankomnir 402 pílagrímar og um 300 þriggjadagagestir og gestir starfsmanna. Um 600 starfsmenn voru svo í áhorfendasal Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar. Þannig að allt í allt voru samankomnir um 1300 bahá'íar á þessari Naw-Rúzhátíð.

Hátíðin var mjög einföld og falleg. Hartmut Grossmann, meðlimur Allsherjarhúss réttvísinnar setti hátíðina og var með stutt erindi. Því næst hófst ritningalestur á ensku, arabísku og persnesku. Kór heimsmiðstöðvarinnar söng lag við vers úr ritunum og eftir það fengu börn á aldrinum þriggja til tíu ára að yfirgefa salinn og fara á sérstaka dagskrá sem var ætluð þeim. Síðan hélt ritningalesturinn áfram þar til kom að lestri vitjunartaflna ‘Abdu'l-Bahá og Bábsins. Þá yfirgáfum við salinn og komum okkur fyrir á tröppunum fyrir framan aðsetrið þar sem við stóðum og snerum okkur í átt að grafhýsi Bábsins á meðan vitjunartöflurnar voru lesnar.

Gestir helgistundarinnar.Að þeim loknum gengum við í gegnum garðana og gengum virðingarhring í kringum grafhýsið og enduðum fyrir framan gamla pílagrímahúsið. Og hvílík mergð manns þar! Allir að spjalla og margir að rifja upp gömul kynni. Eftir að hafa staðið þar í smá stund ákváðum við að draga okkur í hlé. Við tókum leigubíl upp á hótel og fórum út að borða. Ég pantaði mér entré-coté steik sem stóð því miður ekki undir væntingum. Erin pantaði pastarétt sem reyndist mjög góður hinsvegar. Síðan var farið í háttinn eftir þennan rólega en viðburðaríka dag.

Albúm þessa dags.

Næsti dagur >>


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband