Dagbók pílagrímsferðar - dagur 7

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Dagur 7 - 22. mars 2008 – laugardagur

Alþjóðlega minjasafniðÍ dag var komið að heimsókn í Alþjóðlega minjasafnið. Þar myndum við fá að sjá myndir af Bábinum og Bahá'u'lláh og muni tengda þeim og einnig muni tengda ‘Abdu'l-Bahá og Shoghi Effendi.

Við ákváðum að ganga frá hótelinu niður að hliðinu við Golombstræti. Við fundum nýja og styttri leið þangað en við höfðum farið síðast og vorum komin á staðinn eftir 15 - 20 mínútur.

Þar tók á móti okkur persnesk kona að nafni Vida. Við vorum hluti af hópi N, tólf talsins. Því miður er verið að gera við húsnæði Alþjóðlega minjasafnsins en munir þar hafa verið fluttir tímabundið í aðsetur Allsherjarhúss réttvísinnar. Það var því gaman að koma aftur á kunnuglegar slóðir, en starfsmannaverslunin var í bílakjallara þar í grennd og í sjálft aðsetrið fór maður í hádegismat og að erindast, og á fyrirlestra á kvöldin. Þetta var því staður þar sem margt var um manninn og mikið að gera.

Aðsetur Allsherjarhúss réttvísinnarEftir að byggingu aðseturs Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar og Textarannsóknamiðstöðvarinnar lauk hefur stór hluti starfseminnar sem þar var flust í nýju byggingarnar tvær og heimsmiðstöðin hætt að þurfa að leigja byggingar út í bæ undir ýmsar skrifstofur sínar.

Við gengum inn í minjasafnið kl. 09:30. Þá voru opnaðir fyrir okkur þrír skápar sem skipuðu öndvegi í salnum og við fengum að líta ljósmynd sem tekin var af Bahá'u'lláh rétt áður en hann var sendur í útlegðina til ‘Akká. Þetta var passamyndin hans, þó ekki eins og við eigum að venjast í dag, aðeins andlitsmynd, heldur portrettmynd þar sem hann situr í stól með borð sér til hægri handar sem á voru blóm í fallegum vasa. Þessi mynd var tekin eftir að eitrað hafði verið fyrir honum og hann hefur verið kominn á sextugsaldur.

Vasaúr Bahá'u'lláhÍ miðjuskápnum gaf að líta málverksmyndir sem kristinn Armeni hafði málað af honum. Þær voru þrjár en voru af honum þegar hann var yngri, áður en eitrað var fyrir honum. Málverkin voru greinilega undir kristnum áhrifum og mátti líta þar engla og kerúba yfir höfði Bahá'u'lláh. Það er því greinilegt að málarinn skynjaði helgi Bahá'u'lláh þótt hann hafi ekki verið bahá'íi. Í skápnum lengst til hægri mátti svo sjá teikningu af Bábinum.

Ég sé ekki tilgang með að lýsa myndunum frekar, en fyrir bahá'ía er það mjög sérstök stund að fá að sjá þessar myndir og ber að sýna þeim sérstaka virðingu. Því eru þær ekki almennt í vörslu bahá'ía eins og t.d. myndin af ‘Abdu'l-Bahá. Staða hans er önnur en opinberenda Guðs. Við lítum á hann sem fullkomna fyrirmynd sanns bahá'ía sem við ættum að leitast við að tileinka okkur hvað varðar háttsemi og dyggðugt líferni.

Eftir að hafa barið myndirnar augum góða stund fengum við að sjá ýmsa aðra muni tengda höfuðpersónunum, t.d. yfirhafnir þeirra, gleraugu, höfuðföt, innsigli þeirra, upprunalegar töflur, sverð Mullá Husayn sem hann notaði í umsátrinu um Shaykh Tabarsí og margt margt fleira sem of langt mál væri að telja upp.

Innsigli Bahá'u'lláhÞað sem mér er minnisstæðast að þessu sinni er að sjá gleraugu Navváb, eiginkonu Bahá'u'lláh, og að fá að vita að þau deildu þessum gleraugum. Mér hlýnaði um hjartarætur að heyra það og það gefur manni tilfinningu um hve náin þau voru og staðfestir það sem maður hefur lesið þar sem Bahá'u'lláh segir að hún sé sú sem hann hafi valið sem félaga sinn í öllum veröldum Guðs.

Það er ótrúlegt að geta barið augum þessa muni er tengjast opinberendum Guðs, að geta tengst þeim böndum. Að skilja að þetta eru ekki bara persónur úr sögubókum heldur voru þær raunverulegar manneskjur sem gengu um á meðal manna með svo upphafið hlutverk sem þeir höfðu.

Eftir þessa yndislegu heimsókn í minjasafnið héldum við í pílagrímamiðstöðina og fengum okkur hádegisverð og skráðum okkur sem farþega í sherut sem færi til Bahjí klukkan 13:00.

Penni og blekskeið Baha'u'lláhVið lögðum af stað þangað á tilsettum tíma og vorum komin til Bahjí aðeins um hálftíma síðar. Líklega var lítil umferð þar sem það var laugardagur (sem er eins og sunnudagur heima á Íslandi). Að þessu sinni var gamla pílagrímahúsið opið ásamt herbergi Meistarans (‘Abdu'l-Bahá) bak við grafhýsi Bahá'u'lláh. Þegar ég þjónaði hér notuðum við gamla pílagrímahúsið þar sem boðið var upp á te og kex eins og gert er í dag, nema hvað það er alveg ljóst að það hús myndi ekki rúma þann fjölda pílagríma sem er hér núna.

Að venju heimsóttum við grafhýsi Bahá'u'lláh en sáum fram á þetta yrði í síðasta skiptið sem við myndum gera það í þessari pílagrímsferð. Sveitasetrið var einnig opið og fórum við einnig þar inn aftur og báðum í herbergi Bahá'u'lláh. Eftir smá vesen með að ná okkur í sherut komum við aftur til Haifa kl. 20:00 og tókum leigubíl upp fjallið ásamt fyrrum nema við tækniháskólann hér sem við hittum fyrir tilviljun. Hann var indæll og leyfði okkur meira að segja ekki að borga þann hluta leigubílsverðsins sem okkur bar. Eftir að hafa etið kvöldverð var farið í háttinn eftir viðburðaríkan dag.

Myndaalbúm dagsins


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband