Dagbók pílagrímsferðar - dagur 8

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Dagur 8 - 23. mars – sunnudagur

Í dag er síðasta skipulagða ferðin okkar til ‘Akká. Í þetta sinn heimsækjum við hús ‘Abdu'lláh Páshá. Húsið er nefnt eftir landsstjóranum í ‘Akká sem bjó þar fyrrihluta nítjándu aldar. Fjórum árum eftir andlát Bahá'u'lláh flutti ‘Abdu'l-Bahá í þetta hús ásamt fjölskyldu sinni, fjórum dætrum og fjölskyldum þeirra. Þar átti hann heima til ársins 1910. Margt merkilegt gerðist á þessu tíma. Shoghi Effendi fæddist í húsinu árið 1897. Fyrsti hópur vestrænna pílagríma kom þangað árið 1898 og árið 1899 voru jarðneskar líkamsleifar Bábsins fluttar þangað frá Persíu með mikilli leynd og geymdar þar í herbergi Hins helgasta laufs, systur ‘Abdu'l-Bahá, þar til þeim hafði verið komið fyrir í grafhýsi á Karmelfjalli sem ‘Abdu'l-Bahá byggði í samræmi við óskir Bahá'u'lláh sem hann hafði mælt fyrir um nokkru áður en hann andaðist.

Hús 'Abdu'lláh PásháVið fengum að skoða húsið sem er mjög stórt enda þurfti að það að rúma marga. Raunar leigði ‘Abdu'l-Bahá það ekki allt í upphafi heldur leigði fleiri hluta hússins eftir því sem þörfin fyrir rými jókst. Meðal herbergjanna sem við skoðuðum var kennslustofa þar sem börnunum á heimilinu var kennt. Eitt af því sem ‘Abdu'l-Bahá sá til að þau lærðu var að tóna bænir og fékk hann kallara borgarinnar (mu'azzín) til að koma og kenna börnunum þá list.

Einnig fengum við að sjá herbergið þar sem ‘Abdu'l-Bahá tók á móti pílagrímum. Það var hér sem Laura Dreyfus-Barney dvaldi í heilt ár sem pílagrími, lærði persnesku og ritaði hið merka rit Some Answered Questions.

Aðalsalur hússins.Við fengum einnig að sjá herbergi Shoghi Effendi sem dvaldi í því að mig minnir til tíu ára aldurs. Það kom mér nokkuð á óvart hvað það var stórt og velti ég því fyrir mér hvort það hafi verið ein aðferð ‘Abdu'l-Bahá til að undirstrika mikilvægi hans sem hann gaf strax í skyn eftir að hann fæddist í töflu til móður hans.

Að sjálfsögðu má ekki gleyma herbergjum ‘Abdu'l-Bahá og Bahíyyih Khánum systur hans sem við skoðuðum og báðum í. Það kom mér mest á óvart að sjá kjól Bahíyyih Khánum. Þegar maður sér hann áttar maður sig á því hve smávaxin hún var. Engu að síður markaði hún merk spor í sögu trúarinnar og hélt utan um stjórntauma hennar í fjarveru Shoghi Effendi fyrstu tvö árin eftir andlát ‘Abdu'l-Bahá og var eiginlega fyrsti minjavörður bahá'í trúarinnar, en hún safnaði saman munum tengdum sögu trúarinnar og sýndi pílagrímum.

Að heimsókninni lokinni fórum við aftur til Haifa þar sem við fengum okkur hádegismat í pílagrímamiðstöðinni. Því næst fengum við lykil að garðinum þar sem Rúhíyyih Khánum, eiginkona Shoghi Effendi er jarðsett. Því næst fórum við niður á pósthús til að senda póstkort til vina og ættingja. Það var auðvitað steikjandi hiti á leiðinni, sem er mjög óvenjulegt  á þessum árstíma. Konan á pósthúsinu spjallaði aðeins við okkur og sagði okkur að alltaf, alla sína æfi, á Purim hátíð Gyðinga, sem nú stendur yfir, hafi verið kalt, yfirleitt rigning og bleyta. Í fyrsta skipti nú, á hennar 44 ára löngu ævi, væri nú sólskin og heitt.

Það voru svo sannarlega orð að sönnu. Mér fannst hitinn núna álíka hár og um mitt sumar þegar ég þjónaði hér árið 1996 og Erin sagði að þetta væri mesti hiti sem hún hefði verið í á ævinni. Planið okkar var að fara næst í upplýsingamiðstöð ferðamanna og fá nokkra bæklinga fyrir samnemendur Erinar í ferðamálaskólanum og ganga svo upp stallana upp á topp.

Í upplýsingamiðstöðinni tók á móti okkur afar indæl ísraelsk kona sem aðstoðaði Erin við að finna rétta efnið fyrir hana. Einnig voru þar miðaldra kona og tvær dætur hennar, bahá'íar með rauð „visitor"-barmmerki, sem við giskum á að merki að þær hafi verið ættingjar að heimsækja einhvern starfsmann við heimsmiðstöðina.

Stallarnir - sýnir vel hæðina.Þegar við ætluðum að borga vantaði konunni í afgreiðslunni skiptimynt og því þurfti ég að fara og skipta 100 sékla seðlinum mínum í galleríi hinu megin götunnar. Á meðan tók Erin tal við stúlkurnar sem voru forvitnar um Ísland og konan í afgreiðslunni færði henni vatn og sagði henni móðurlega að halda sig í skugganum þar sem hún væri með svo ljósa húð. Þegar ég kom loks til baka kvöddum við og fórum í sjoppu þar nærri á Ben Gurion-stræti og fengum okkur frostpinna til að kæla okkur niður fyrir fjallgönguna. Eftir að hafa klárað þá litum við á hvort annað: „Labba upp alla stallana? Í þessum hita?!" Við ákváðum að reyna að komast upp allavega hálfa leið að Grafhýsi Bábsins. Þegar við gengum inn um hliðið á neðsta stallinum spurðum við öryggisvörðinn hvert hitastigið væri. Hann sagði að það væri um 40°C í skugga, líklega um 45°C í sólinni. Við lölluðum tiltölulega rólega upp stallana og litum í kringum okkur á leiðinni. Spjölluðum við einn bahá'í sjálfboðaliða í öryggisvörslunni. Hann var frá Flórída og sagðist vanur svona hita úr heimahögunum. Hann var af norskum ættum sagði hann okkur þegar við sögðumst vera frá Íslandi.

Að labba upp stallana í þessu hita tók vel á. Við svitnuðum eins og svín svo það var ekki séns að við færum beint inn í grafhýsi Bábsins að biðja án þess að skola okkur í framan og fá okkur vatnsglas. Við fórum því fyrst í gamla pílagrímahúsið og fengum okkur vatn. Erin var eldrauð í framan og einni konu brá svo mikið að sjá hana, taldi hana við það að fá sólsting, svo hún færði henni blautar handþurrkur til að setja á hálsinn og andlitið. Hún var frá Arizona og þekkti John Jason, bahá'ía sem Erin þekkir frá fornu fari sem bjó í Joensuu í Finnlandi þegar hún var yngri. Þessi kona þekkti hann þegar hann bjó í Bandaríkjunum áður en hann flutti til Finnlands, sem var fyrir um 30 árum síðan. Týpískt ég-þekki-einhvern-sem þú-þekkir í bahá'í samfélaginu. ;)

Þegar við vorum búin að þvo okkur í framan, fá okkur nóg að drekka og ná okkur eftir vökvatapið og Erin var orðin aðeins minna rauð í framan, fórum við í Grafhýsið og báðum þar um stund. Að því loknu fórum við á Hadarsvæðið og fengum okkur shawarma og franskar í kvöldmat og fórum svo í pílagrímamiðstöðina og skrifuðum í dagbækurnar okkar þar til tími var kominn til að fara í Alþjóðlegu kennslumiðstöðina og hlýða á fyrirlestur kvöldsins kl. 20:00.

Að þessu sinni var það meðlimur Allsherjarhúss réttvísinnar, Dr. Payman Mohajir, sem talaði um núverandi fimm ára áætlun sem bahá'íar eru að vinna að. Það var mjög gaman að hlýða á hann, hann kom með skemmtilegar sögur með húmorinn í lagi svo áhorfendur skelltu ósjaldan uppúr. Þessi fyrirlestur skýrði ýmis atriði fyrir mér sem voru óljós um aðferðirnar sem við beitum í dag við útbreiðslu trúarinnar sem eru nokkuð frábrugðnar þeim sem notaðar voru á tímum Shoghi Effendi.

Ég fór alsæll í háttinn þetta kvöld. Smile

Myndaalbúm dagsins


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband