Dagbók pílagrímsferðar - dagur 10

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Dagur 10 - 25. mars – þriðjudagur

Rebecca ásamt foreldrum sínum.Við leyfðum okkur sofa til kl. 08:00 í dag þar sem eini dagskrárliðurinn í dag byrjar ekki fyrr en kl. 12:30 með heimsókn í hús Meistarans á Haparsimstræti. Við tókum það því rólega þess vegna og eftir morgunverð og sturtu gengum við niður í pílagrímamiðstöð um kl. 10:00, athuguðum með skilaboð og þess háttar og röbbuðum við fólk í matsalnum, þar á meðal Rebeccu, unga konu frá Kenya sem er nú búsett í Kína. Hún þjónaði við heimsmiðstöðina rétt á eftir að minni þjónustu lauk þar. Hún þekkti samleigjanda minn, Badi Mungonye heitinn, samlanda sinn. Hann hafði verið veikur þegar við deildum saman íbúðinni á Golomb 17 en hann var ekkert að segja mér frá því. Nokkru eftir að ég flutti heim til Íslands eftir lok þjónustu minnar frétti ég að hann hefði látist í Kenya.

Manni bregður alltaf þegar ungt fólk deyr, sérstaklega jafnaldrar manns, og það var engin undantekning í þessu tilviki. Mín stærsta spurning var alltaf af hverju, og úr hverju. Samt hefur maður ekki kunnað við að grafast fyrir um það fyrr en nú að ég leyfði mér að spyrja Rebeccu út í það. Hún sagði mér að hann hefði haft einhvern lifrarsjúkdóm, töluvert lengi, raunar áður en hann kom til Haifa. Hann mátti eiga það að hann faldi það vel, eða kannski er ég bara svona blindur. Þá veit ég það. Tólf árum seinna. Og líður mér betur? ... Já. ... Af hverju? ... Veit það satt að segja ekki.

Badi Mungonye 1996Nafni minn Mungonye var ólíkindadrengur. Það tók mig tíma að fatta hann. Fyrst hélt ég að hann væri svona lyginn drengurinn þegar hann sagði hluti sem ég komst svo að því að stóðust ekki. Eftir því sem á leið fór ég að fatta að þetta var bara húmorinn hans, kannski menningarlegur mismunur á okkur. Hann gerði í því að spinna upp ævintýralegar lygasögur um sjálfan sig, t.d. sem matatubilstjóra í Kenya. Ég man eftir því einn daginn þegar við vorum á leiðinni frá Haifa til Bahjí í sherut ásamt nokkrum vinum, þar á meðal Esther Gaita, sem er einnig frá Kenya en hálf Bandarísk, ef ég man rétt. Í bílnum lét Badí Mungonye dæluna ganga um ævintýri sín og allir í sherutnum lágu í kasti, þar á meðal gamall Ísraeli sem var í sherutnum á leið til 'Akká. Þegar við komum þangað fór þessi gamli maður og um leið og hann steig út um bíldyrnar, hægum óstyrkum skrefum úr sherutnum endurtók hann hann hlæjandi orðin „Thank you, thank you" og horfði til Badís og okkar hinna, þakklátur fyrir þessa óvæntu skemmtun.

Badí var gull af manni, svolítið hrekkjóttur, en góðhjartaður og hlýlegur þegar maður náði að kynnast honum. Það var heiður að fá að kynnast honum. Blessuð sé minning hans.

Samleigjendur mínir á Golomb 17Rebecca var þó ekki í níudaga pílagrímsferð. Það voru foreldrar hennar hinsvegar. Móðir hennar talar þó aðeins kikuju en faðir hennar einnig ensku. Hún  kom til Ísrael frá Kína til að hitta foreldra sína og vera þeim til hjálpar. Þetta var í fyrsta sinn í þrjú ár sem hún hitti þau. Án efa stór stund enda er hún þeirra einkabarn og var sérstaklega erfitt fyrir móður hennar að sjá á eftir henni til Kína. Þetta var ekki aðeins fyrsta pílagrímsferð þeirra heldur fyrsta ferð þeirra utan landsteinanna. Það var gaman að kynnast þeim en ég gerði mér ekki grein fyrir þessu fyrr en Rebecca sagði okkur frá þessu og ýmsum vandkvæðum þeirra og misskilningi vegna lítillar tungumálakunnáttu að ég fattaði að við hefðum nú getað reynt að vera þeim meira innan handar.

[Birta mynd af foreldrum Rebeccu]

Garðurinn fyrir utan Haparsim 4Eftir að hafa spjallað og eytt smá tíma í pílagrímamiðstöðinni fórum við út í búðina á horninu og keyptum okkur ís og safa til að fá okkur í hitanum. Síðan lá leiðin á Haparsimstræti. Við byrjuðum að skoða hús nr. 4, sem ég kannaðist ekki við. Ég fattaði fljótlega af hverju. Bahá'í samfélagið eignaðist það ekki fyrr en árið 2001 að mig minnir, eftir að ég hafði þjónað hér. Það var ‘Abdu'l-Bahá sem leigði þetta hús undir pílagríma eftir að hann flutti til Haifa. Þar eru ýmsir munir og myndir frá þeim tíma og fallegur garður umhverfis.

Þvínæst fórum við og skoðuðum hús Meistarans (þ.e. ‘Abdu'l-Bahá). Þetta hús lét ‘Abdu'l-Bahá byggja þar sem hann vildi vera á svæðinu til að hafa umsjón með byggingu grafhýsis Bábsins. Strax og það var tilbúið flutti hann hluta fjölskyldunnar þangað, þar á meðal Bahíyyih Khánum og Shoghi Effendi sem þá var ungur drengur. Þegar ‘Abdu'l-Bahá sneri heim úr reisu sinni til Vesturlanda árið 1913 var þetta hús að opinberu heimili hans og þar tók hann á móti pílagrímum og þar þjónaði Shoghi Effendi honum sem ritari eftir fyrri heimsstyrjöldina. Það var í einu herbergjanna hér sem ‘Abdu'l-Bahá andaðist og stuttu síðar í aðalsal hússins var erfðaskrá hans lesin sem kvað á um að Shoghi Effendi tæki við stjórntaumum trúarinnar að honum látnum.

Hliðið fyrir utan hús Meistarans.Við settumst inn í herbergið þar sem ‘Abdu'l-Bahá tók á móti pílagrímum og David, leiðsögumaðurinn okkar, sagði okkur frá sögu hússins. Þvínæst fórum við inn í herbergi ‘Abdu'l-Bahá og Bahíyyih Khánum til að biðja og skoðuðum önnur herbergi hússins. Að því loknu komum við aftur saman og lásum nokkrar ritningar og David þakkaði okkur samfylgdina enda var þetta síðasti dagskrárliðurinn í pílagrímsferðinni fyrir utan kveðjuathöfnina í kvöld.

Allt í einu kom einn ungur danskur drengur og færði David konfekt í þakkarskyni og tók í höndina á honum. Síðan þakkaði Jess honum formlega fyrir hönd hópsins með ljóði sem jós á hann lofi fyrir blíðu sína, hlýlegt bros o.s.fr. o.s.fr. Ég veit ekki hvernig honum hefur liðið, ég hefði orðið þvílíkt vandræðalegur! En hann tók þessu með hæversku og stóískri ró og þakkaði fyrir sig. Hann sagði að hann hefði unnið sem leiðsögumaður nú í tvo mánuði en þetta væri í annað skiptið sem hann veitti leiðsögnina á ensku, yfirleitt gerði hann það bara á móðurmálinu, spænsku. Baðst hann velvirðingar á enskunni sinni en var klappað óspart lof í lófa. Að lokum bauð hann okkur að fara út á tröppur hússins til að taka mynd af hópnum þegar menn ætluðu að lofsyngja hann meira og meira.

Við ásamt David, leiðsögumanninum okkar.Eftir þessa síðustu heimsókn okkar á bahá'í helgistað, eftir myndatökuna, fórum við Erin á Hadarsvæðið og fengum okkur shawarma í síðasta skiptið. Þvínæst fórum við í pílagrímamiðstöðina og grafhýsi Bábsins og eftir það upp á hótel, skiptum um föt, fórum á McDonalds og gleyptum í okkur skyndibita og tókum svo leigubíl aftur að grafhýsi Bábsins kl. 19:00 á kveðjuathöfnina.

Þegar við komum var saman kominn múgur og margmenni fyrir utan gamla pílagrímahúsið. Við notuðum tækifærið að kveðja þá sem við þekktum fyrir eða höfðu kynnst í ferðinni. Á slaginu 19:30 voru svo vitjunartöflurnar tvær lesnar upp á arabísku og ensku og svo gekk öll hersing pílagrímanna í kringum grafhýsið. Að því loknu var grafhýsið opið til kl. 22:00. Við fórum þangað í síðasta sinn og vottuðum virðingu okkar og þakklæti fyrir þessa náð að fá að koma hingað. Að því loknu kvöddum við þá fáu sem við áttum eftir að kveðja í gamla pílagrímahúsinu, fórum svo í nýju miðstöðina, tókum dótið okkar sem við höfum geymt þar og tókum svo leigubíl upp á hótel.

Upplýst grafhýsið út um glugga leigubílsins reyndist vera síðasta skiptið sem við sáum það. Skrýtin tilfinning. Leigubílstjórinn virtist skynja það. Hann hafði án efa keyrt ófáum pílagrímum frá kveðjuathöfninni með tár í hvörmum. Hann sagði eitthvað á þá leið að hann og hans fólk (væntanlega íbúar Haifa) vonuðu að við kæmum aftur til baka.

Þessi tónlist hér fyrir neðan lýsir tilfinningunni ágætlega:

http://www.youtube.com/watch?v=SJUDEuNOjuY&eurl=http://apps.facebook.com/ilike/?ded_sender=651809486&ad=dedication_notif_d&force_login=1&ded_date=659&feature=player_embedded

Við byrjuðum að pakka ofan í töskur þegar við kæmum upp á hótelið og fórum svo og fengum okkur belgískar vöfflur um kl. 23:00. Þar voru einhverjir bahá'íar. Greinilegt að þessi vöfflustaður var orðinn vinsæll á meðal þeirra.

Við fórum í bólið um miðnætti þetta kvöld.

Myndaalbúm dagsins


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband