Í gegnum magann og niður í iður jarðar

Jæja, það tókst ekki  birta skondna föstusögu eins og ég lofaði í fyrradag þar sem ég var frekar upptekinn í gær. En gærdagurinn var sérlega skemmtilegur, þ.e. seinniparturinn.

Ég skellti mér í sund eftir vinnu, aðallega til að skella mér í pottinn og láta fossinn berja á bakinu og öxlunum. Það er eitthvað við vinnustellinguna sem ég þarf að passa mig á, því ég á það til að spennast upp í öxlum og baki. Það var auðvitað frábært að slaka á í pottinum og svo braut ég föstuna með smá vatnssopa þegar ég fór uppúr kl. 18.

Þar sem það hafði tekið Erin eitthvað lengur að versla en búist hafði verið við þar sem við þurftum að fá okkur nýjan barnabílstól varð ljóst að við næðum ekki að elda kjúklinginn í tæka tíð fyrir klukkan sex og svo langaði Erin svakalega í Rizzo pizzu. Ég lét undan, hafði smá áhyggjur af verðinu, og samþykkti að sækja hana og Darian eftir sundið og renna niður á Rizzo niðrí Bæjarlind. Just for the record þá finnast mér Rizzo pizzurnar æðislegar. Þunnar, eldbakaðar, rosagóðar. Betri en dominos, en við verðum yfirleitt óstjórnlega þyrst eftir að hafa borðað þær.

Þegar þangað var komið og ég leit á matseðilinn leist mér ekkert á blikuna, sá fram á að þurfa að punga út 5.000 kalli fyrir okkur þrjú. En það var of seint af snúa við. Nú var að duga eða drepast. En, sjá! Þegar ég reiddi fram debetkortið var uppgefið verð aðeins 3.700 kr. Halelújah!! Það er 30% afsláttur þessa dagana ... já þetta var óforskömmuð auglýsing í mjög eigingjörnum tilgangi ... Ég vil nefnilega ALLS EKKI að Rizzo fari á hausinn núna loksins þegar maður er búinn að finna almennilegan pizzustað ... svo þar hafið þið það ... nú er auglýsingin búin.

CoverÞegar heim var komið skelltum við Darian í bólið og leigðum okkur myndina Journey to the Center of the Earth með Brendan Frazier og Anítu Briem, á aðeins 350 kr. á skjánum, aftur afsláttur í gangi. Ókey ókey, ekki önnur auglýsing! En myndin var hreint út sagt frábær. Amerísk ævintýramynd í anda Indiana Jones, mynd sem sýndi ALVÖRU íslenska hluti eins og flugvél Icelandair, þar sem töluð var ALVÖRU íslenska og svo klifið í ALVÖRU íslensku gullfallegu landslagi. Ekki alveg það sem maður á að venjast þegar Ísland kemur fyrir í Amerískum bíómyndum! Ég varð svo stoltur að þjóðarstoltið vall hreinlega út úr eyrunum á mér og sólheimabrosið fletti næstum andlitinu af hausnum á mér ... en ... svo komust Brendan og Aníta og strákurinn í sjálfheldu í einhverjum „námugöngum" á Snæfellsnesi, Blágöng minnir mig að þau hafi átt að heita, þar sem 81 námuverkamaður átti að hafa látið lífið fyrir löngu. Þar endaði raunveruleikinn! En það var allt í lagi, þá tóku við svo skemmtilega fáránleg ævintýri sem kitluðu hláturtaugarnar svo um munaði. Við vorum í hæsta máta ánægð með myndina að henni lokinni og fórum í bólið með bros á vör.

Ég mæli með þessari mynd.

Læt þetta duga í þetta sinn. Reyni að birta skondna föstusögu á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband