Skondin föstusaga 1

 

 

Í gær var í vinnunni til að fagna ákveðnum áfanga. Yfirmaður minn keypti fullt af nammi og setti í skálar og fullt af gosi. Ég snerti auðvitað ekki neitt af því og áður en langt um leið komst ég ekki hjá því að nefna að ég væri að fasta sem vakti auðvitað forvitni vinnufélaganna. Einn vinnufélagi minn spurði mig að því hvort ég fyndi einhvern mun á mér eftir föstuna. Ég svaraði því til að líkamlega fyndi ég ekki mun á mér.

Ég hugsaði síðar að þessi spurning er mjög týpísk fyrir það að mönnum dettur yfirleitt í hug að heilsufarsástæður liggi að baki föstunni. Það er ekki tilgangur föstunnar í bahá'í trúnni, það er að segja að minnsta kosti ekki aðaltilgangurinn. Bahá'í ritin kenna að fastan sé fyrst og fremst táknræn fyrir andlega föstu, þ.e. æfing í sjálfslausn. Það er að hefja sig yfir líkamlegar langanir og þrár. Þetta er tími bæna og hugleiðslu þar sem maður einbeitir sér að rækta andlegar dyggðir og losa sig við mannlega lesti eins og t.d. eigingirni.

Fyrir mig persónulega get ég borið því vitni að fastan gefur einmitt tíma til að einbeita sér að andanum. Það er nefnilega merkilega mikill tími á degi hverjum sem fer í að hugsa um mat, laga mat og borða mat. Það sem mér finnst einmitt yndislegast við föstuna er að lesa bænir og stúdera eitthvað. Eina föstuna, t.d. þegar ég var í Háskóla Íslands las ég bókina God Passes By eftir Shoghi Effendi. Það var meiriháttar. Núna er ég ekki að stúdera svo stóra bók heldur nokkra kafla í annarri bók.

En að skondnu föstusögunni sem ég lofaði. Þessi er af mágkonu minni, tvíburasystur Erinar þegar hún var nýlega komin á föstualdur (15 ára eða eldri).

Það var allt í einu að hún fann hjá sér löngun um kaffileitið til að fá sér samloku. Hún fór því inn í eldhús og lagaði þessa líka dýrindis samloku, með alls konar áleggi og fékk hreinlega vatn í munninn þegar hún horfði á hana ... mmmmm. Síðan tók hún upp samlokuna og var alveg að fara borða hana þegar hún áttaði sig. Snarstoppaði og kallaði á yngri systur sína sem ekki var orðin 15 ára: „LARA! Ég bjó til samloku handa þér!"

Lara var að vonum ánægð og borðaði samlokuna með bestu lyst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

hehe, heima hjá mér er eintóm föstugleði og meira að segja ég sem er greind með mjög skert sykurþol  næ að fasta og ég er ekkert smá glöð með það. Við lentum hins vegar í því fyrsta daginn þegar ég var að elda kvöldmat að verða gaslaus ( erum með gaseldavél) en þetta slapp fyrir horn því ég hef aðgang að einni hægfara rafmagnshellu.....mér bara fannst þetta svo fyndið því maður er svo svangur fyrsta daginn. Kær föstukveðja

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 6.3.2009 kl. 13:49

2 Smámynd: Róbert Badí Baldursson

Hehe Já, hef heyrt svipaða sögu, að vísu ekki tengda föstunni, þegar ofninn hjá tengdafjölskyldunni bilaði einmitt þegar fólki hafði verið boðið í mat. Það endaði með því að þau urðu að panta pizzu.

Takk fyrir kveðjuna. Hafðu það gott.

Róbert Badí Baldursson, 6.3.2009 kl. 14:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband