Föstudagur og síðasti föstudagur í föstu - föstusaga 3 og 4

Ég bara stóðst ekki mátið með þennan titil! Grin

Jamm, það er föstudagur og síðasti dagur föstumánaðarins 'alá (upphafning). Eins gott að koma út síðustu skondnu föstusögunum sem ég lofaði.

Hin fyrri verður að teljast til þess sem kallast „urban myth". Ég sel hana ekki dýrara en ég keypti hana en hún hljómar svo:

Maður nokkur út í hinum stóra heimi gerist bahá'íi og lærir um bahá'í föstuna. Hann vill að sjálfsögðu fylgja boðorðum sinnar nýju trúar og lærir um þessa föstu: Að fastað sé á mat og drykk í nítján daga ...

Nú er föstumánuðurinn gengur í garð byrjar hann að fasta. Fyrsti dagurinn gengur ágætlega. Hann er nokkuð þyrstur í lok dags og fer að sofa. Daginn eftir er hann auðvitað ákaflega hungraður og þyrstur og rétt lifir daginn af. Í lok dags er hann nær aðframkominn. Finnst þessi fasta hin mesta pína og ákveður að heimsækja mann þann sem kenndi honum um trúna.

Þegar hann kemur til hans bregður honum nokkuð er hann sér að þarna situr maðurinn, sem hann leit nokkuð upp til, ásamt fjölskyldu sinni og etur þar dágóða máltíð. Hann spyr hvernig standi á því að hér sitji þessi fjölskylda og eti og drekki á föstunni. Húsbóndinn verður nokkuð hissa og segir honum jú að sólin hafi nú sest og því brjóti þau nú föstuna og verður auðvitað forviða að átta sig á því að þessi nýji átrúandi hafi virkilega haldið að hann ætti að fasta í heila nítján sólahringa samfleytt!

-----------------------------------------------------------------------

Hin sagan er nú bara af sjálfum mér þegar ég bjó á Bugðulæknum, áður en ég kvæntist. Þetta var lítill bílskúr sem ég leigði sem hafði verið gerður að stúdíóíbúð, með örlitlu svefnherbergi sem rétt rúmaði rúm og lítinn fataskáp.

Davíð, vinur minn minn, Gunnarsson, sem nú býr í Noregi hafði verið að rabba við mig um föstuna. Honum fannst hún svolítið skrýtin og kannski líklega svolítið meinlætaleg en ég bauð honum endilega að prófa að fasta með mér ef hann hefði áhyggjur af mér. Þetta væri nú ekki svo slæmt eins og sumir héldu.

Nú það var morgun einn í föstunni að ég svaf á mínu græna eyra. Klukkan var rétt nýorðin fimm og ég hafði stillt klukkuna á að hringja um 10 mínútum yfir. Allt í einu heyri ég eitthvað slást í gluggann með reglulegu millibili. Ég held í svefndrunganum að þetta sé laust band í þvottasnúrunni úti sem sláist í svefnherbergisgluggann í vindinum. Það er greinilega vindasamt hygg ég, því slátturinn heldur áfram: tikk tikk, tikk, tikk, tikktikktikk....

Ég fer á fætur á undan vekjaraklukkunni. „Óþolandi veður!" hugsa ég. Þegar ég stend í svefnherbergisdyrunum og lít yfir stofuna og eldhúsið verður mér litið að glugganum. Þar sé ég móta fyrir skugganum af manni SEM STENDUR ALVEG VIÐ GLUGGANN OG HORFIR INN!!!! Hárin rísa á höfði mér! Mér dauðbregður!

Þegar ég horfi betur fatta ég hvaða maður þetta er. Haldið þið ekki að Davíð standi þarna og banki létt í gluggann minn með nöglinni? Hann hafði ákveðið að koma í heimsókn til mín og fá sér morgunmat með mér! Ég hafði boðið honum að kíkja til mín ef hann vildi en var auðvitað löngu búinn að gleyma því. Nú hafði hann verið að vinna eða skemmta sér niðrí bæ (man ekki hvort) og var því vakandi á þessum tíma og ákvað því að kíkja til mín. Við áttum því ágætis spjall og morgunsnæðing eftir að ég hafði náð mér af versta sjokkinu ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Mama G

Ég er dáldið hrædd um að það væru ekki margir meðlimir í söfnuðinum ef þetta væri svona extreme fasta

En mikið skil ég þig með sjokkið af hr. Gluggagægi. Hef nokkrum sinnum lent í svona og mér bregður alltaf jafn mikið, þó svo að í öll skiptin hafi þetta bara verið fólk sem ég þekkti og í raun engin hætta á ferðum

Mama G, 20.3.2009 kl. 14:47

2 Smámynd: Róbert Badí Baldursson

nákvæmlega!

Róbert Badí Baldursson, 20.3.2009 kl. 16:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband