Miðvikudagur, 27. maí 2009
Dagbók pílagrímsferðar - Dagur 1
Dagur 1 - 16. mars 2008, sunnudagur
07:15: Vekjaraklukkan hringdi. Ég hafði sko lítinn áhuga á að vakna! Það hafði verði frekar kalt í herberginu þrátt fyrir að lofthitunartækið fyrir ofan gluggann okkar hefði verið í gangi og því svaf ég ekkert sérstaklega vel. Erin hafði sofið vel og var spennt að byrja daginn. Hún var því ófeimin að ýta við mér. Ég kreisti fram bros og dreif mig á fætur.
Morgunmaturinn á hótelinu var einfaldur. Brauð, ostur, te og jógúrt. Rétt nóg til að fylla mallann á mér. Þvínæst gekk ég með Erin framhjá Dan Panorama hótelinu sem er andspænis hótelinu okkar og niður einn af mörgum tröppugöngum sem liggja um hlíðar Karmelfjalls að Golombstræti. Sú gata liggur að byggingum Bahá'í heimsmiðstöðvarinnar og við hana bjó ég þegar ég þjónaði hér fyrir 12 árum. Við gengum svo fram hjá hliðinu að byggingunum á boganum, niður tröppurnar við Hillelstræti og í pílagrímamiðstöðina. Þar tók við skráning þar sem við fengum fullt af kynningarefni fyrir pílagríma, kort af borginni o.þ.h.
Kl. 13:30 byrjaði svo pílagrímsferðin formlega með því að tveir meðlimir Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar leiddu okkur í bæn fyrir framan grafhýsi Bábsins og fóru með vitjunartöflurnar tvær, aðra fyrir Abdu'l-Bahá, en hann hvílir líka í grafhýsinu, og hina fyrir Bábinn. Þvínæst gengum við öll 400 talsins í kringum grafhýsið í hljóðri bæn.
Til að gefa lesendum smá innsýn inn í andann sem ríkir á þessari samkomu fjölda fólks, hvaðanæfa að, er rétt að ég taki fram að þessi ganga hefur djúpa andlega merkingu fyrir átrúendur. Þetta er ekki bara skoðunarferð um fallega garða. Hér hvílir annar tveggja opinberenda Guðs, fulltrúi Guðdómsins í þessum heimi og hinum næsta". Garðarnir eru í raun aðeins þarna til að undirbúa okkur pílagrímana undir það að biðja við fótskör hans í grafhýsinu.
Eftir þessa athöfn var grafhýsið opið til kl. 20:30 og við fengum að fara inn í herbergin fjögur til að biðja. Við Erin byrjuðum á að fara inn í hægra herbergið austanmegin, grafhýsi Abdu'l-Bahá. Þvínæst fórum við í miðjuherbergið, Grafhýsi sjálfs Bábsins. Þetta var merk stund fyrir Erin sem var að koma í fyrsta skipti og auðvitað fyrir mig líka sem byrjaði að brynna músum um leið og ég sá þröskuldinn að gröf Abdu'l-Bahá.
Það var ekkert meira á dagskrá þenna daginn. Um kvöldið borðuðum við á veitingahúsi nærri hótelinu og fórum mjög snemma að sofa. Á morgun bíður okkur heimsókn til Bahjí - grafhýsis Bahá'u'lláh. Við þurfum að vakna kl. 05:45 og vera mætt niðurfrá kl. 07:00.
Við rotuðumst um leið og við lögðumst útaf.
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Bloggar, Trúmál, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:07 | Facebook
Athugasemdir
Bara smá innlitskvitt, gaman að lesa svona ferðasögu
Afhverju má ekki mæta á svæðið fyrr en kl.21.00 daginn áður? Bara svona að pæla...
Mama G, 28.5.2009 kl. 10:10
Allt frá tímum Bahá'u'lláh hafa bahá'íar þurft að fá leyfi til að koma í pílagrímsferð. Í upphafi fengu átrúendur að dvelja mun lengur en í dag. Eftir því sem bahá'íum fjölgar verður hafa hafa reglu á pílagrímaheimsóknum, bæði til að valda ekki heimsmiðstöðinni óviðeigandi álagi og auk þess er Ísrael óstöðugt land og miklir mannsöfnuðir álitnir öryggisáhætta (btw. bahá'í pílagrímsferðin er ókeypis, við borgum ekkert til heimsmiðstöðvarinnar vegna hennar nema það sem við viljum í formi frjálsra framlaga).
Ég ímynda mér því að 21 reglan sé einfaldlega hugsuð sem svo að hún gefi bahá'íum kleift að koma sér fyrir á hótelinu sínu, hvílast og mæta svo á pílagrímadagskrána. Bahá'íar ættu ekki að líta á dvöina í Haifa sem sólarlanda- eða skemmtiferð og því ekki gert ráð fyrir að þeir dvelji þar mikið lengur en pílagrímsferðin varir.
Róbert Badí Baldursson, 28.5.2009 kl. 10:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.