Dagbók pílagrímsferðar - dagur 2

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Dagur 2 - 17. mars 2008 – mánudagur

Við vöknuðum eldsnemma, eða kl. 05:45 og náðu því ekki að fá okkur morgunmat á hótelinu. Við tókum Carmelit-neðanjarðarlestina niður fjallið og fórum út á massadastræti og gengum þaðan að pílagrímamiðstöðinni. Við smurðum okkur morgunmat þar.

Kl. 07:30 hittum við leiðsögumanninn okkar, David, ungan mann frá Chile. Við erum í hópi N (hóparnir eru tólf, merktir bókstöfunum A, B, C, D, E, F, G, H, K L, M og N, alls 402 pílagrímar. Nú eru persnesku-, ensku- og frönskumælandi tungumálahópar).  Við erum fimm Íslendingar í þessari ferð, öll í hópi N, ég og Erin og svo Sigga Lóa, Siggi Ingi og Eva Margrét, öll úr Kópavogi eða upprunnin þaðan Tounge. Einnig eru í hópnum okkar Jess og Thenna sem við hittum á flugvellinum og fleira fólk sem ég man ekki hvað heitir frá Þýskalandi, Danmörku, Suður-Afríku, Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandi og mörgum fleiri löndum.

Kl. 08:30 lögðum við af stað í langferðabíl til Bahjí. Við byrjuðum á að stoppa í nýju pílagrímamiðstöðinni norðanmegin við grafhýsi Bahá'u'lláh og stórhýsið Bahjí, utan við Collinshliðið. Þetta er mjög fallegt og vel hannað hús og á því eru stórar glerrúður þannig að þeir sem inni sitja fá að njóta fegurðar garðanna.

Pílagrímamiðstöðin í Bahjí.

Eftir að hafa drukkið te og fengið að smakka litlar appelsínur úr görðunum lagði hópurinn af stað niður aðalstíginn að grafhýsinu í gegnum Collinshliðið í sína fyrstu heimsókn í grafhýsi Bahá'u'lláh.

Að koma þar inn aftur eftir svona mörg ár var yndislegt, raunar eins og að koma heim. Að hugsa séð að maður hafi fengið að biðja þar einn í lok þjónustunnar árið 1997. Erin var líka djúpt snortin og eftir heimsókn okkar þar inni röltum við að risastóra ólívutrénu í Haram-i-Aqdas og út á ysta stíginn við grindverkið og þaðan að Collinshliðinu og aftur í pílagrímamiðstöðina í Bahjí.

Kl. 11:45 lögðum við af stað til baka til Haifa. Smurðum okkur samlokur í Pílagrímamiðstöðinni þar og nærðum okkur áður en næsti dagskrárliður hæfist, sem var móttaka í aðsetri Allsherjarhúss réttvísinnar kl. 14:45.

Úr minnisvarðagarðinum.Í millitíðinni bauð einn félagi okkar í pílagrímahópnum frá Sviss nokkrum okkar að koma með sér og fjölskyldu sinni í minnisvarðagarðinn á Boganum. Við þáðum það og heimsóttum grafir meðlima hinnar helgu fjölskyldu sem þar eru. Að því loknu fórum við aftur í pílagrímamiðstöðina og biðum þar til tími var kominn að við færum öll að aðsetri Allsherjarhúss réttvísinnar.

Kl. 14:45 lögðum við af stað í gegnum garðinn hjá grafhýsi Bábsins, yfir stallinn sem brúar Hatziunoutstræti, upp bogastíginn og gengum inn í samkomusalinn (The Concourse Hall) í aðsetri Allsherjarhúss réttvísinnar. Strax og ég geng inn sé ég andlit sem ég þekkti strax. Það var Jeffrey Safajou, sem hafði og hefur greinilega enn umsjón með aðsetri Allsherjarhússins. Ég náði að heilsa honum stuttlega og kynna mig og hann virtist muna eftir mér. Það var reglulega gaman að sjá hann aftur. Hann var alltaf mjög glaðlyndur og kærleiksríkur í viðmóti. Einn af þessum mönnum sem var alltaf gleðilegt að hitta.

Aðsetur Allsherjarhúss réttvísinnarEftir dágóða stund þegar öll fjögurhundruðmanna hersingin var búin að koma sér fyrir gengu allir níu meðlimir Allsherjarhúss réttvísinnar inn í salinn. Það var Glenford Mitchel  sem fór með bæn á ensku. Þvínæst ávarpaði Paul Lample okkur og að því loknu tónaði Farzand Arbab bæn á persnesku.

Að því loknu risum við úr sætum, stólarnir okkar voru teknir og meðlimirnir hófu að ganga á röðina og heilsa okkur. Það tók auðvitað tímann sinn enda urðu þeir stundum að spjalla við fólk lengur en 3 sekúndur. Sérstaklega var gaman fyrir mig að heilsa Hooper Dunbar og þakka fyrir námskeiðin sem ég sótti hjá honum þegar ég þjónaði hér. Dr. Peter Khan kannaðist einnig við mig þegar ég kynnti mig og sagðist hafa þjónað hér í starfsmannaversluninni og lagði til að ég athugaði hvort ég fengi að sjá nýju verslunina þegar við færum í skoðunarferð um byggingarnar á boganum.

Það voru hinsvegar fagnaðarfundir þegar Erin kynnti sig fyrir Hr. Grossmann, en hann brautruddi til Finnlands fyrir margt löngu og talar enn ágæsta finnsku. Erin bar honum kveðjur frá foreldrum sínum sem virtist gleðja hann mjög og fengum við bæði faðmlag að launum.

Íslenski hópurinnÞessi stund með meðlimum æðstu stjórnstofnunnar trúarinnar var í senn virðuleg en ákaflega hlýleg stund. Eftir hana fór maður með yl í hjarta. Við dobbluðum Jess með okkur í kvöldmat á Ben-Gurionstræti með stuttri viðkomu í grafhýsi Bábsins. Eftir ljúfengan kvöldverð fórum við í aðsetur Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar og hlýddum á meðlim hennar, frú Violette Haake, sem heimsótti íslenska bahá'í samfélagið fyrir nokkrum árum.

Í ræðu sinni minnti frú Haake m.a. á að pílagrímsferðin væri frábrugðin öllum öðrum ferðum. Hún sé tækifæri til að biðja við fótskör opinberenda Guðs, létta á hjarta sínu og styrkja sáttmála sinn við Guð. Þetta minnir mig á orð Bahá'u'lláh í vitjunartöflunni (eða var það í föstubæninni?) þar sem hann talar um að sumir hafi komist í návist hans en engu að síður látið blæjur síns eigin sjálfs koma í veg fyrir að bera kennsl á hann. Það var því viðeigandi að hún skyldi kveðja okkur með orðunum „megi pílagrímsferð ykkar verða verða veitt viðtaka".

Eftir fyrirlesturinn héldum við upp á hótel. Við vorum bæði svöng og Erin orðin sérlega þreytt. Við fengum okkur shawarma og kók fyrir svefninn. Erin var mjög hrifin af þessum miðausturlenska skyndibita sem ég borðaði oft hér forðum daga. Wink

Grafhýsi Bábsins og stallarinir í rökkrinu

Myndaalbúm þessa dags.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband