Laugardagur, 30. maí 2009
Dagbók pílagrímsferðar - dagur 3
Í dag fengum við að sofa aðeins lengur. Við vöknuðum þegar klukkan var að ganga átta. Eftir að hafa fengið okkur morgunmat á hótelinu gengum við meðfram brún fjallsins að efsta stallinum að grafhýsi Bábsins og gengum þaðan niður að og yfir stallinn sem brúar Hatziunoutstræti og þaðan að pílagrímamiðstöðinni.
Við tókum því rólega um morguninn. Skrifuðum í dagbækurnar okkar og kl. 11 smurðum við nesti fyrir ferðina okkar í hús Abbúds og fangaklefann sem Bahá'u'lláh dvaldi í fyrst eftir að hann kom til Akká.
Ferðin hófst kl. 11:30 og um klukkustund síðar komum við í pílagrímamiðstöðina í Bahjí. Þar borðuðum við nestið okkar og svo fluttu rúturnar okkur að landhliðinu að Akká, en það var á sínum tíma annar tveggja innganga að fangelsisborginni. Þegar slakað var á hömlum fangavistar Bahá'u'lláh gekk hann út um þetta hlið og til Mazra'ih sem var sveitaóðal þar í grenndinni áður en hann flutti til Bahjí.
Þaðan gengum við að fangaklefanum og gengum upp tröppurnar sem þar eru og fengum að líta vistarverurnar þar sem Bahá'u'lláh, fjölskylda hans og nánustu fylgismenn hans dvöldu við ömurlegar aðstæður fyrstu tvö ár útlegðarinnar.
Hús Abbúds skiptist raunar í tvennt. Annars vegar húsnæði sem upphaflega var í eigu manns sem hét Údí Khammár. Eftir meira en tveggja ára dvöl í fangaklefanum í hermannaskála virkisborgarinnar þurftu stjórnvöld að nota herskálann og því voru Bahá'u'lláh og fylgjendur hans fluttir í karavanserai (gistiheimili) í borginni þar til hentugra" húsnæði fannst. Það var umrætt hús Údí Khammárs. Þar þurftu á tímabili 13 manns að hírast í einu herbergi. Nokkru síðar fékk Bahá'u'lláh annað húsnæði við hliðina til afnota, þ.e. hús Abbúds. Þau liggja saman í dag og eru saman kölluð hús Abbúds í dag.
Þegar við komum þangað var okkur boðið í herbergi á neðri hæðinni þar sem okkur var boðið upp á kex og undursamlegt te sem boðið er uppá hér við heimsmiðstöðina. Að því loknu fórum við á efri hæðina. Þar gaf að líta herbergið þar sem Bahá'u'lláh opinberaði Kitáb-i-Aqdas, helgustu bók trúarinnar og lögbók hennar. Herbergin eru búin munum frá tíma Abdu'l-Bahá en það var Shoghi Effendi sem skipulagði þau. Herbergi Bahá'u'lláh er þó búið munum frá tíma hans. Þar fengum við nokkra stund til að biðja áður en við fórum aftur í rútuna og héldum aftur til Haifa.
Við vorum komin þangað aftur um hálf sjö. Við rétt náðum að fá okkur smá snakk áður en haldið var í aðsetur Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar þar sem ráðgjafarnir tóku á móti okkur með svipuðum hætti og meðlimir Allsherjarhúss réttvísinnar gerðu daginn áður.
Það var sérstaklega gaman að hitta aftur Violettu Haake sem heimsótti íslenska samfélagið fyrir nokkrum árum og Shahriar Razavi sem vann náið með þjóðarráðinu meðan hann þjónaði í Álfuráði Evrópu.
Eftir að hafa heilsað öllum meðlimunum var boðið upp á te og kex í matsal hússins og þar hitti Erin óvænt hjón sem þekktu hana frá fornu fari. Þau búa nú á Hjaltlandseyjum en bjuggu í Finnlandi þegar Erin var smástelpa. Þar sem þau sáu um barnakennsluna í Joensuu þegar Erin bjó þar og kenndu því henni og voru yfir sig ánægð að hitta litlu stelpuna aftur núna þegar hún er orðin fullorðin kona.
Eftir að hafa blandað geði við þau og fleira fólk þarna héldum við heim á leið og tókum sherut upp á hótel og fórum svo á veitingastaðinn Gregs þar skammt frá áður en gengið var til náða eftir annasaman dag.
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Bloggar, Trúmál, Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.