Mánudagur, 25. maí 2009
Dagbók pílagrímsferðar
Inngangur
Hér á eftir fer dagbók pílagrímsferðar minnar og eiginkonu minnar, Erin Mae Kinghorn, til Baháí helgistaðanna í Haifa og Akká, Ísrael í mars árið 2008. Ég birti hana hér á blogginu mínu ásamt myndum fólki til fróðleiks og upplyftingar nú um ári síðar. Ég mun birta hvern dag í sérstakri færslu sem birt verður með a.m.k. eins dags millibili. Njótið.
Lagt af stað - 14. mars 2008, föstudagur
Í dag var lagt af stað í ferðina. Við vöknuðum eldsnemma, kl. 03:00 og byrjuðum að fara í sturtu og höfðum okkur til. Við pökkuðum síðasta dótinu og kl. 04:15 kom leigubíllinn sem við pöntuðum í gær sem skutlaði okkur á BSÍ. Þaðan tókum við svo flugrútuna til Keflavíkur.
Við trúum varla að stundin sé loksins runnin upp. Við sóttum um þessa pílagrímsferð stuttu eftir að við giftum okkur, fyrir næstum því 6 árum síðan! Við vorum því nokkuð spennt og gengum á adrenalíni sem hélt okkur vakandi þar til við komum til Lundúna þrátt fyrir aðeins tæpan fjögurra tíma svefn.
Okkur leið líka mun betur með að skilja Darian litla eftir hjá Evu eftir að hún hringdi í okkur og sagði að hann hefði hætt að gráta strax eftir að við fórum. Við erum ekki frá því að hann hafi vitað að mamma og pabbi væru að fara eitthvert lengra í burtu yfir lengri tíma. Hann er ekki orðinn tveggja ára og ekki byrjaður að tala fyrir alvöru en við höfum alltaf sagt við hann reglulega að brátt myndum við fara í marga daga en hann yrði hjá Evu frænku á meðan.
Undanfarna daga hefur hann verið óvenju háður okkur og í gær t.d. mátti ég ekki hverfa í smá stund í Hagkaupum, t.d. á bak við vörurekka, þegar við vorum að versla án þess að hann byrjaði að kveina. Samt var Erin að ýta innkaupakerrunni sem hann sat í.
Við áttum góða kvöldstund með Evu og Anítu. Brutum föstuna með þeim klukkan sex. Brutum svo páskaegg og röbbuðum saman í góðu yfirlæti. Darian varð strax óöruggur þegar við komum til Evu, enda höfum við áður látið hann gista hjá henni til að þjálfa hann fyrir pílagrímsferðina okkar. Hann er því farinn að setja samasemmerki milli Evu og að mamma og pabbi hverfa.
Hann róaðist fljótt þegar hann sá að við vorum ekki að fara strax og borðaðið vel og lék sér eftir matinn enda orðinn kunnugur heimili Evu. Lokst fórum við með bænir og bjuggumst til brottfarar. Þá fattaði Darian hvað stóð til og byrjaði að gráta kröftuglega. Við föðmuðum hann og kysstum að skilnaði og drifum okkur út. Erin þolir ekki að hlusta á hann gráta svona og brast í grát í bílnum. En Eva sagði okkur í símanum seinna um kvöldið að hann hefði róast strax og við vorum farin og þekkt rútínuna sína undir eins. Vildi láta bursta í sér tennurnar og fara að sofa. Sú fregn róaði okkur. Þetta er í fyrsta skipti sem við erum í burtu frá honum í svona langan tíma.
Flugið með Iceland Express gekk mjög vel. Föðurbróðir Erinar, Richard, og kona hans, Diane, voru svo elskuleg að sækja okkur á Stanstead og keyra okkur á hótelið við Heathrow. Það var reglulega gaman að hitta þau og ættarsvipurinn hjá Richard leyndi sér ekki!
Dvölin hér á hótelinu er svosem ekki frásögur færandi . Við þurfum að vakna aftur eldsnemma á morgun, kl. 04:15 og taka leigubíl á Termnal 4 á Heathrowvelli. Ég vona að allt gangi vel í tollskoðuninni. Öryggisviðbúnaðurinn verður væntanlega extra mikill fyrir flug til Ísrael.
En núna ... SOFA!!! Við erum bæði örþreytt!
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Bloggar, Trúmál, Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.