Viðbrögðin við neyðinni á Haítí - stoltur af okkur

Það gladdi mig að heyra að Íslendingar  hefðu verið fyrstir til að senda hjálparsveit til Haítí. Við getum verið stolt af því. Þetta sýnir að þótt Ísland sé eyja líta Íslendingar alls ekki á sig sjálfhverfum augum þannig að þeim finnist það sem gerist út í heimi ekki koma þeim við.

Ég hef kynnst einum Haítíbúa á lífsleiðinni. Það var kona sem hét/heitir Laurence Bouchard.  Hún var leiðbeinandinn minn á bahá'í barnakennaranámskeiði sem ég fór á árið 1993 í Hamborg. Þetta var þegar Austurblokkin var nýfallin og töluverður móttækileiki var gagnvart bahá'í trúnni í austantjaldslöndunum. Því höfðu fjölmargir snúist til trúarinnar á þessum tíma og mikil þörf var á að styrkja samfélögin þar. Sérstök þörf var á að þjálfa barnakennara og því var ákveðið að prófa að þjálfa unga leiðbeinendur frá Vestur-Evrópu og senda þá til valinna landa í Austur-Evrópu til að þjálfa þar ungt fólk til að vera með bahá'í kennslustundir fyrir börn. Notast var við þjálfunarefni sem þróað hafði verið í Suður-Ameríku af Ruhi stofnuninni og fórum við í gegnum námskeið sem flestir bahá'íar þekkja nú sem bækur 1 og 3 („Íhugun um líf andans“ og „Barnakennsla 1. bekkur“).

Laurence (vona að ég stafi nafnið rétt) var virkilega fínn leiðbeinandi og þegar ég lít til baka held ég að þetta námskeið hafi haft djúp áhrif á mig og vakið löngun mína fyrir alvöru til að þjóna bahá'í trúnni. Ég var þá aðeins sautján ára og satt að segja velti ég því oft fyrir mér hver vegna við fjögur sem valin vorum frá Íslandi vorum svo ung, hin ungmennin voru nokkuð eldri. Ég og Elínrós Ben fórum svo ásamt tveimur stúlkum til Albaníu. Þar dvöldum við í einn og hálfan ógleymanlegan mánuð og héldum námskeið í borgunum Durres og Tirana.

Ég vona svo sannarlega að Laurence sé heil á húfi og bið fyrir Haítíbúum þessa dagana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband