Bloggfrí, ráðstefna og fleira

Nú hefur maður aldeilis tekið sér gott bloggfrí. Það sem gerðist helst hjá okkur í desember er að tengdaforeldrar okkar komu í heimsókn frá Finnlandi. Þetta var í fyrsta skipti í um fjögur ár held ég sem þau bæði hafa komið. Mamma Erinar kom hingað þó í stuttan tíma eftir að Darian fæddist.

Síðan fóru tengdaforeldrarnir ásamt Erin til London og ég og Darian urðum eftir heima næstu 6 daga. Erin og foreldrar hennar fóru til London á ráðstefnuna sem Allsherjarhús réttvísinnar, æðsta stjórnstofnun bahá'íar trúarinnar, boðaði til fyrir Norður-Evrópu. Þar hitti hún auk þess systur sínar tvær. Lara, sú yngri kom frá Slóvakíu, þar sem hún er að vinna á barnaheimili sem er rekinn af bahá'íum í Bratislava. Einnig hitti hún Östu, tvíburasystur, sína sem kom frá Finnlandi ásamt börnum sínum tveimur.

Það voru um 15 bahá'íar sem fóru frá Íslandi, auk þess sem íslenskir bahá'íar búsettir á Bretlandi sóttu einnig ráðstefnuna. Skýrt var frá ráðstefnunni á fréttavef Alþjóðlega bahá'í samfélagsins þar sem sérstaklega var sagt frá íslensku þátttakendunum, en bútinn hef ég leyft mér að þýða:

Fyrir nokkra af þátttakendum reyndist það nokkur áskorun að komast til ráðstefnunnar. Bahá'íarnir frá Íslandi höfðu í nokkurn tíma þurft að glíma við aðstæður sem leiddu til þess að flugfargjöld hækkuðu upp úr öllu valdi sem leiddi til þess að þeir héldu að aðeins örfáir myndu geta farið til Lundúna.

Að lokum gat nokkur fjöldi Íslendinga mætt á ráðstefnuna. Einn af þeim, Eysteinn frá suðurhluta landsins, gekk trúnni á hönd fyrir aðeins þremur mánuðum. „Ég er svo heppinn sem nýr bahá'íi að vera viðstaddur þessa gríðarstóru ráðstefnu," sagði hann. Bahá'íar sem bjuggu nærri ráðstefnumiðstöðinni í Islington og Hackney buðu Íslendingunum upp á gistingu.

Lesa má greinina í heild hér. Einnig má lesa aðra frétt um ráðstefnuna og aðra sem haldin var í Abidjan á Fílabeinsströndinni hér.

Téður Eysteinn gerði síðan myndband sem hann birti á youtube. Þar má sjá íslensku þátttakendurnar í vinnuhópum, Elínrós Benediktsdóttur syngja erfiðleikabænina á íslensku og frá öðrum atriðum á ráðstefnunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Mama G

Gaman að fá loksins smá fréttir af þér Badí

Mama G, 15.1.2009 kl. 20:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband