Að vera sendur til Coventry

Að vera sendur til Coventry („to be sent to Coventry“) er orðatiltæki á Bretlandi sem þýðir að vera útskúfaður og lítils virtur. Ekki er alveg ljóst af hverju þetta orðatiltæki stafar, skv. yfirborðslegu gúgli mínu þar um.

En hvað um það. Þetta orðatiltæki átti sem betur fer alls ekki við í mínu tilviki nú um síðustu helgi, en ég var jú sendur til Coventry, í orðsins fyllstu merkingu.

Ég var beðinn um að sækja ráðstefnu á vegum Bahá’í samfélagsins á Englandi fyrir svokallaðar umdæmisnefndir, en ég var nýlega útnefndur á eina slíka hér á landi.

Síðastaliðin 12 ár hafa bahá’í samfélög um allan heim verið að byggja upp samfélagsstarf með kerfisbundnum hætti þar sem ákveðin grunnstarfsemi er í aðalhlutverki. Þessi starfsemi miðar að því að efla andlegt líf bahá’í samfélagsins og þjóðfélaganna sem við búum í með því að bjóða upp á helgistundir, námshringi, barnafræðslu og unglingafræðslu.

Þessi starfsemi er starfrækt, metin og þróuð innan landfræðilegra eininga sem hvert Andlegt þjóðarráð bahá’ía í hverju landi fyrir sig skiptir landi sínu í útfrá ákveðnum forsendum og þegar þessi umdæmi komast á ákveðið þróunarstig eru útnefndar slíkar umdæmisnefndir.

Þessi ráðstefna var sérstaklega fyrir umdæmisnefndir bahá’í samfélagsins á Englandi en einnig var umdæmisnefndum frá völdum löndum í Evrópu boðið að koma, þar á meðal umdæmisnefnd hins íslenska suðvesturumdæmis sem spannar Snæfellsnes í vestri til Skeiðarársands í austri.

Miklar framfarir hafa átt sér stað í umdæmum Englands þar sem grasrótin hefur sýnt mikinn þrótt og henni tekist að halda uppi sívaxandi starfsemi. Það var því ákaflega lærdómsríkt að fá að hlýða á umdæmisnefndir þar segja frá sinni reynslu og taka þátt í umræðum á ráðstefnunni.

Ráðstefnan var mjög vel skipulögð og var haldin á Brittannia Hotel Coventry. Hótelið var allt í lagi, en skoraði ekki hátt í minni bók hvað hreinlæti og upphitun varðar. Þegar maður kemur á slíkt hótel skilur maður fljótt hversu góðu við Íslendingar erum vanir hvað húsakost, upphitun og hótelstandard varðar.

Það var hinsvegar vel haldið á málum hvað mat varðaði sem kom mér á óvart, því einhverra hluta vegna stóð ég í þeirri trú að það væri ekki breskur siður að sýna matargestum mikið örlæti sem er sérstaklega dásamlegt þjóðareinkenni Persa og Íslendinga. Svo var sem betur fer ekki raunin, og ég fékk nóg að borða! W00t LoL

Þátttakendur ráðstefnunnar voru um 100 talsins. Flestir eins og vænta mátti frá Englandi, en einnig voru þátttakendur frá Skotlandi, Wales, Noregi, Svíþjóð, Írlandi, Hollandi, Belgíu, Finnlandi og svo frá Íslandi auðvitað.

Það var frábært að hitta allt þetta fólk og merkilegt hvað það er yndislegt og einfalt að kynnast bahá’íum og auðvitað endurnýja gömul kynni og hitta fólk sem þekkir fólk sem maður þekkir.

Ég ætla að nota tækifærið og koma nokkrum kveðjum á framfæri hér:

Mirela – Suela Qerreti Vahdat biður að heilsa þér.
Erin – Patrick og Laura Jansson, Jessica (pílagrími), Soroush Fadaei og Minoo Shamsuddini biðja að heilsa þér.
Ólafur og Ragnheiður – Fereshte Ferdowsian biður að heilsa ykkur.
Helena Hastie og Tanya Jones sem komu hingað á síðasta sumarskóla biðja að heilsa öllum sem þær þekkja.

Svo fylgja nokkrar myndir í myndaalbúminu.

Og svo má lesa um Coventryborg hér og fræðast um dómkirkjuna þar hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Mama G

Hæ, hæ, gott að sjá að þú ert kominn aftur, búið að vera ansi rólegt hérna undanfarnar vikur

Mama G, 18.4.2008 kl. 12:23

2 Smámynd: Róbert Badí Baldursson

Takk fyrir það. Reyni að vera aðeins duglegri að skrifa en undanfarið

Róbert Badí Baldursson, 18.4.2008 kl. 13:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband