Dagbók pílagrímsferðar - dagur 9

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Dagur 9 - 24. mars – mánudagur

BogabyggingarÍ dag heimsóttum við byggingarnar á boganum, þ.e.a.s. stjórnfarslegar byggingar bahá'í trúarinnar á Karmelfjalli, en þær standa við bogalaga stíg. Heimsóknin hófst kl. 10:30 svo við gátum því leyft okkur að vakna aðeins síðar en venjulega og fórum fyrst í minjagripabúðina Ahuza rétt hjá hótelinu okkar. Við höfðum keypt bahá'í minjagripi nokkru áður og nú þurftum við að fylla út eyðublöð vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts sem við myndum fá til baka á flugvellinum.

Að því loknu gengum við niður tröppurnar sem við fundum um daginn að hliðinu að bogabyggingunum við Golombstræti 16. Hitinn var auðvitað enn og aftur steikjandi og við svitnuðum þokkalega á niðurgöngunni. Þegar niður var komið hittum við hina pílagrímana í hópi N við hliðið. Kl. 10:30 hófst svo skoðunarferðin. Við byrjuðum á að skoða húsnæði Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar. Við skoðuðum hæðir 7 og 8 af alls 9 hæðum. Þar eru skrifstofur ráðgjafanna og ritara þeirra og fundarherbergið er á þeirri níundu. Restina, hæðir 1 - 6 eru grafnar niður í fjallið og þær sáum við ekki. Í raun sáum við bara yfirborðið í þessari skoðunarferð, því stærstur hluti bygginganna er neðanjarðar og hýsir hina fjölbreyttustu starfsemi.

GlerstrýtanSérstaklega fallegt var að sjá hvernig náttúrlegt ljós fær að njóta sín í þessari byggingu og helsta skrautið er glerstrýta með hringmerkinu með tilvitnun úr ritum Bahá'u'lláh á arabísku sem hljómar svo á ensku: „I am the royal Falcon on the arm of the Almighty. I unfold the drooping wings of every broken bird and start it on its flight."  Einnig var áhugavert að heyra að allar skrifstofur ráðgjafanna snúa að grafhýsi Bábsins á meðan skrifstofur meðlima Allsherjarhúss réttvísinnar í aðsetri þess snúa í átt að Bahjí.

Eftir að hafa skoðað þessa byggingu skoðuðum við aðsetur Allsherjarhúss réttvísinnar. Við gengum inn í hátíðarsalinn þar sem haldið var upp á Naw-Rúz hátíðina. Það var svosem ekkert nýtt fyrir mig að sjá þar enda vann ég hér í grenndinni á sínum tíma og þurfti við og við að sendast með vatn í eldhúsið næst fundarherbergi Allsherjarhússins.

Súlnatorg textarannsóknamiðstöðvarinnarEftir viðkomuna hér var ferðinni næst heitið í textarannsóknamiðstöðina. Þar fengum við að sjá innganginn. Þar starfa þýðendur og rannsakendur ritanna sem aðstoða Allsherjarhús réttvísinnar við rannsóknir á textum trúarinnar. Í henni er einnig að finna Alþjóðlega bahá'í bókasafnið. Eins og aðsetur Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar er stærsti hluti þess húss einnig inni í fjallinu, en byggingarnar sem sjást hið ytra eru aðeins lítill hluti heildarbygginganna. Þar er einnig að finna viðbyggingu við Alþjóðlega minjasafnið þar sem mikilvægir munir og rit eru geymd við rétt raka- og hitastig.

Að lokinni heimsókninni í textarannsóknamiðstöðina var ferðinni heitið undir 10. stallinn þar sem er að finna gestamiðstöð heimsmiðstöðvarinnar. Þar er tekið á móti sérstökum gestum og hópum sem um það biðja þar sem hægt er að horfa á kynningarmyndband í 150 manna sal og skoða sögusýningu um trúna. Sýningin var sérlega vel framsett. Þarna mátti sjá eftirlíkingar af upprunalegum handritum með töflum eftir Bahá'u'lláh og Bábinn, valdar tilvitnanir innrammaðar á veggjum, kort sem sýndi þá staði sem Bahá'u'lláh dvaldi á eða ferðaðist til í útlegð sinni, upplýsingar um félagsleg og efnahagsleg þróunarverkefni á vegum bahá'í samfélagsins og margt fleira.

Frá upplýsingamiðstöðinni.Þegar hér var komið sögu vorum við orðin vel lúin og dösuð eftir að hafa gengið um á milli bygginganna í steikjandi sólinni. Og það sem meira er, við þurftum að fara aftur í kennslumiðstöðina til að hitta Shahriar Razavi, sem hafði boðið okkur að hitta sig kl. 13:00. Þar sem David, leiðsögumaðurinn okkar hafði gleymt lyklum að einu hliðanna um minnisvarðagarðinn gátum við ekki farið til baka í gegnum hann heldur urðum að fara töluvert lengri leið í kennslumiðstöðina. Það þýddi röskan labbitúr í steikjandi hita um Hatziounoutstræti og upp væna lengju af tröppum (Hilleltröppurnar). Þannig að þegar við loksins mættum á staðinn vorum við vel þyrst og sveitt. Ekki alveg ákjósanlegasta staðan þegar maður á að hitta ráðgjafa og gamlan samverkamann, en Razavi var ráðgjafi fyrir Ísland og vann náið með þjóðarráðinu áður en hann var útnefndur ráðgjafi við alþjóðlegu kennslumiðstöðina. Við fengum sem betur fer vatnsglas og að þvo okkur í framan áður en við fórum upp til hans.

Það var reglulega gaman að hitta hann, og einnig stuttlega, frú Violette Haake, kollega hans. Við ræddum um starfið á Íslandi í ljósi fimm ára áætlunarinnar og hann sýndi okkur athyglisverð nýsigögn í tengslum við Ruhi þjálfunarefnið.

Að fundinum loknum vorum við orðin nokkuð svöng og fórum því niður í pílagrímamiðstöð og fengum okkur að borða og reyndum að klára afganginn af nestinu okkar þar, enda bara einn dagur eftir af pílagrímsferðinni. Svo fórum við í viðbygginguna og skrifuðum í dagbækurnar okkar. Nú var ég orðinn svo lúinn eftir lítt svefnsama nótt og allt röltið í hitanum að ég gat ekki skrifað mjög lengi og ákvað að fara niður í hvíldarherbergið og reyndi að fá mér lúr. Ég fór því niður, lokaði hurðinni, lagðist upp í sófann þar og eftir tvær veltur sofnaði ég. Það næsta sem ég veit er að Erin er að stugga við mér þar sem klukkan var að verða fimm og ég búinn að sofa í meira en klukkutíma. Og hvað ég var myglaður! Það tók mig óratíma að vakna almennilega. Ég var þvílíkt ringlaður í fyrstu en svo eftir að hafa þvegið mér í framan og fengið mér te komst ég á ról og við fórum í Grafhýsi Bábsins til að biðja. Því næst fórum við niður á Ben Gurionstræti í leit að góðum veitingastað til að borða á. Á röltinu sáum við einn veitingastað sem leit ágætlega út nema hvað staðurinn var pakkaður. En þarna sátu úti Sigga Lóa, Sigurður Ingi og Eva Margrét, hinir Íslendingarnir í pílagrímahópnum og félagar okkar í Kópavogssamfélaginu.

Við settumst því niður með þeim, pöntuðum mat, ég fékk mér St. Pétursfisk, sællar minningar úr þjónustu minni þegar ég át augun úr einum slíkum fyrir framan bandaríska vini mína þeim til mikillar hneykslunar og velgju en mér til ómældrar skemmtunar (fiskurinn er semsagt heill á disknum). Við áttum þar góðar samræður um málefni síðasta pílagrímafyrirlesturs og starfsemina á Íslandi.

Því miður tók óratíma fyrir matinn að koma þar sem fáliðað var á veitingahúsinu en fjölmennt af gestum þar sem purimhátíð gyðinga stóð enn yfir. Við vorum því ekki búin að borða og borga fyrr en kl. 19:45, korteri fyrir fyrirlestur kl. 20:00 og við þurfum að koma okkur upp fjallið í Alþjóðlegu kennslumiðstöðina fyrir þann tíma. Við ákváðum því að skipta liði þar sem við vorum fimm. Eva, Sigurður og Erin tóku leigubíl en ég og Sigga Lóa, sem er mikill fjallgöngugarpur, myndum labba.

Það gekk mjög vel og ótrúlegt en satt vorum við öll komin nær samtímis kl. 20:02 eða þar um bil, þrátt fyrir að ég hafi orðið að koma við í pílagrímamiðstöðinni á leiðinni til að sækja bakpokann minn. Ég var samt kófsveittur auðvitað eins og við mátti búast. Fór og þvoði mér í framan og biðum svo ásamt öðrum óstundvísum fyrir utan salinn meðan farið var með upphafsbæn. Að þessu sinni var hún nokkuð löng og tónuð á arabísku, sem var ágætt því þá náði ég að kæla mig niður áður en við gengjum í salinn.

Að þessu sinni var það Dr. Penny Walker, ráðgjafi við kennslumiðstöðina, sem talaði. Hún talaði um það hvernig bahá'íar um allan heim eru að læra að kynna trú sína fyrir öðrum með kerfisbundnari og hnitmiðaðri hætti en áður og bjóða þeim að taka þátt í starfsemi með þeim og byggja upp betri samfélög. Hún vitnaði sérstaklega í tilvitnun úr bókinni Wellspring of Guidance um það hvernig bahá'í samfélög við ættum að leitast við að rækta:

Wherever a Bahá'í community exists, whether large or small, let it be distinguished for its abiding, sense of security and faith, its high standard of rectitude, its complete freedom from all forms of prejudice, the spirit of love among, its members, and for the close knit fabric of its social life.

(The Universal House of Justice, Wellspring of Guidance, Messages 1963-1968)

Það veitti mér töluverðan innblástur að hlýða á ræðuna í þessu samhengi.

Eftir fyrirlesturinn fórum við og fengum okkur vöfflu upp á fjalli áður en við gengum til náða á hótelinu.

Myndaalbúm dagsins


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband