Dagbók pílagrímsferðar - dagur 4

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Dagur 4 - 19. mars 2008 – miðvikudagur

Þetta var svolítill stressdagur. Erin var slöpp í morgun svo við náðum ekki að fá okkur morgunmat á hótelinu. Við urðum að drífa okkur niður í pílagrímamiðstöð fyrir kl. 08:30 þar sem þá átti að hefjast ferð til Mazra'ih og sveitasetrinu í Bahjí. Ég lagaði tvær samlokur í snarhasti þegar við komum niðureftir og borðaði aðra þeirra í rútunni á leiðinni.

MazraihÞað var ótrúlegt að koma til Mazra'ih. Garðurinn þar var í blóma og ilmur af rósum og appelsínublómstri mætti okkur. Okkur var boðið í setustofu á neðri hæðinni þar sem okkur var sagt frá sögu hússins og við fórum með valdar bænir og ritningargreinar. Því næst var okkur boðið að fara á efri hæðina.

Þar mátti líta ýmsa muni sem tengdust sögu trúarinnar, m.a. skrifborð sem Shoghi Effendi notaði, en það var við þetta skrifborð sem hann lagði drögin að 10 ára krossferðinni 1953-1963.

Blómin í MazraihVið fengum svo góða stund til að biðja í herbergi Bahá'u'lláh. Þar gaf að líta taj (höfuðfat) hans á rúminu og skór hans fyrir framan það. Það er hreint ótrúlegt að geta borið augum muni sem þessa sem opinberandi Guðs átti!

Að þessu loknu máttum við ganga um garðinn. Sumir pílagrímar tíndu upp greipaldin og glóaldin sem fallið höfðu á jörðina. Við gerðum það ekki en gáfum okkur tíma til að þefa af rósunum, en lyktin af þeim var himnesk, skoða trén, þarna mátti m.a. sjá, að ég held, fíkjutré með óþroskuðum fíkjum og döðlutré að mig minnir.

Eftir það fórum við beint til Bahjí, í þetta sinn lagði rútan á bílaplaninu vestanmegin garðanna og við gengum því beint að sveitasetrinu. Þar gaf að líta ýmsa muni sem Shoghi Effendi kom fyrir með stakri smekkvísi. Einnig mátti þar sjá upprunalega kistuna sem Navváb (eiginkona Bahá'u'lláh) var jarðsett í áður en jarðneskar leifar hennar voru fluttar í minnisvarðagarðinn og upprunalegir legsteinar hennar og Mírzá Mihdí.

Sveitasetrið Bahjí og grafhýsi Bahá'u'lláhEins og áður fengum við góða stund til að biðja í herbergi Bahá'u'lláh. Í þessu herbergi andaðist hann þann 29. maí 1892. Raunar hafði verið svo mikið að skoða í hinum herbergjunum að ég kom frekar seint inn í herbergi Bahá'u'lláh. Áður en ég vissi af voru allir farnir svo ég dreif mig á fætur og hélt að allir hinir væru farnir út á svalir hússins þaðan sem er gott útsýni yfir garðana. Ég dreif mig því að herberginu sem er í hinum enda hússins á ská á móti herbergi Bahá'u'lláh sem ég hélt að væri eldhúsið en reyndist svo ekki vera það. Þar inni var umsjónarkona hússins byrjuð að þrífa teppið þar inni. Ég spurði hvar eldhúsið væri, ég væri greinilega villtur. Hún sagði mér að félagar mínir væru allir farnir niður og nýr pílagrímahópur á leiðinni en ég gæti komið aftur næsta laugardag, þá yrði setrið opið aftur.

Hópurinn okkar (hópur N) í pílagrímsferðinni.Ég þakkaði fyrir mig og spurði hvar væri gengið út (ég var gersamlega villtur, hafði alveg gleymt mér). Hún vísaði mér rétta leið og þegar niður var komið beið Erin eftir mér með dótið mitt blessunin.

Ég kláraði hina samlokuna mína í pílagrímamiðstöðinni og því næst sótti okkur rúta og keyrði okkur aftur til Haifa. Við vorum bæði orðin glorhungruð og og fórum því á Hadarsvæðið og fengum okkur shawarma, versluðum aðeins og héldum til baka í pílagrímamiðstöðina (í Haifa auðvitað). Þar hringdum við í Evu og Darian, foreldra mína og Löru mágkonu mína. Svo skrifuðum við í dagbækurnar okkar. Eftir kvöldmat á Ben-Gurionstræti, kebab sem stóð ekki undir væntingum okkar, fórum við á fyrirlestur í aðsetri Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar og hlýddum á Glenford Mitchel, meðlim Allsherjarhúss réttvísinnar. Hann fræddi okkur um starf Bahá'í samfélagsins að ytri samskiptum. Mér fannst fyrirlesturinn mjög góður og varpaði skýrara ljósi á þennan málaflokk fyrir mig.

Að því lokun fórum við upp á hótel og fórum að sofa.

Myndaalbúm dagsins


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband