Dagbók pílagrímsferðar - dagur 5

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Dagur 5 - 20. mars 2008 – fimmtudagur

Úr minnisvarðagarðinumÍ dag tókum við aldrei þessu vant strætó nr. 22 niður að pílagrímamiðstöðinni. Við byrjuðum á að heimsækja minnisvarðagarðinn og báðum og lásum úr ritunum í tengslum við grafir meðlima hinna helgu fjölskyldu sem þar hvíla (Bahíyyih Khánum, Munírih Khánum, Navváb og Mírzá Mihdí).

Síðan skrifuðum við í dagbækurnar okkar og fengum okkur hádegismat. Við höfðum skráð okkur sem skipuleggjendur ferðar til ‘Akká, þ.e. að við myndum panta sherut kl. 12:00 sem aðrir pílagrímar gætu skráð sig í. Sex manns skáðu sig fyrir utan okkur tvö og við þekktum ekkert þeirra. Þegar klukkan var næstum tólf birtust allir nema einn og svo bættist einn óvænt við. Það var bahá'íi frá Malasíu sem vinnur fyrir Alþjóða gjaldeyrissjóðinn í Jerúsalem og fékk leyfi til að koma til Haifa yfir Naw-Rúz hátíðina. Þegar við vorum lögð af stað kom í ljós að hann hafði haldið að við værum að fara til Bahjí. Við náðum að redda honum fari til Bahjí þegar við komum til ‘Akká með hjálp eins ferðafélaga okkar sem talaði arabísku. Sá maður og kona hans reyndust mjög vel í ferðinni, en þau eru persnesk en alin upp í Kúveit. Þau gengu í skóla sem sóttur var af nemendum frá Palestínu, Líbanon og fleiri löndum og þekktu því vel til mállýskunnar sem Palestínuarabar í ‘Akká tala (sherutbílstjórinn var Palestínuarabi).

Arabískumælandi hjónin sem aðstoðuðu okkur.Þegar við lentum í ‘Akká skiptum við liði. Ég, Erin, Nepita, ung kona frá kyrrahafseyjunni Tonga, og Tarasieh, miðaldra persnesk kona búsett í Ekvador, fórum saman um gömlu borgina en arabískumælandi hjónin og níu mánaða sonur þeirra fóru sína leið. Við ákváðum þó að hittast aftur á sama stað kl. 15:30 og fara saman með sherut til Bahjí.

Við byrjuðum á að fara að landhliðinu. Það var ein tveggja inngönguleiða í borgina, en ‘Akká var jú virkisborg, notuð sem fangelsi fyrir verstu glæpamenn í ríki Ottómana sem spannaði m.a. Mesópótamíu, Tyrkland og Norður-Afríku. Bahá'u'lláh kom sjóleiðina til borgarinnar eftir stutta viðkomu í Haifa. Hann og fjölskylda hans komu þangað til við illan leik þann 31. ágúst 1868.

Bahá'u'lláh yfirgaf hinsvegar borgina árið 1877 og fór þá í gegnum landhliðið þegar slaknaði á hömlum fangavistarinnar. Á haustin og veturna dvaldi hann þó í húsi ‘Abbúds eftir það.

Nepita var hér í þriggja daga heimsókn og var því að koma til ‘Akká í fyrsta skipti. Það var því gaman að geta sýnt henni staðina í ‘Akká og sagt söguna á bak við suma þeirra sem við níu daga pílagrímarnir höfðum fengið að heyra fyrr í vikunni hjá leiðsögumönnunum okkar.

Við löbbuðum frá landhliðinu eftir Salah-a-din-stræti og beygðum til vinstri og gengum inn í Khán-i-Shávirdí sem var karavanserai (gistiheimili) á tímum Bahá'u'lláh. Þangað var Bahá'u'lláh settur í varðhald eftir morðið á azalítunum en sleppt stuttu seinna vegna íhlutunar kaupmanns nokkurs í borginni. Þaðan gengum við svo meðfram eystri sjávarveggnum að bryggjunni þar sem má sjá sjávarhliðið sem Bahá'u'lláh kom inn um. Þar eru í dag veitingahús, því miður.

Frá Khán-i-ShávirdíÞaðan gengum við í gegnum Khán-i-‘Avámíd, annað karavanserai, en þangað voru Bahá'u'lláh  og fylgjendur hans fluttir stuttu eftir lát Mírzá Mihdí árið 1870. Flestir fylgjendanna voru fluttir þangað. Fyrstu árin þjáðust þeir úr hungri. ‘Abdu'l-Bahá leigði tvö herbergi á efri hæðinni til að hýsa pílagríma. Þetta var því fyrsta bahá'í pílagrímahúsið í Landinu helga.

Þvínæst gengum við að sjávarhliðinu, að vitanum og svo sömu leið til baka þangað sem við byrjuðum gönguna. Tarasieh fór í tyrkneska baðhúsið en við töldum okkur ekki hafa tíma þar sem við vorum orðin svöng og höfðum lofað að hitta ferðafélaga okkar kl. 15:30, en í baðhúsinu var boðið upp á leiðsögn um safnið í sérstökum heyrnartólum sem tekur 30 mínútur.

Amma og barnabarn.Við fórum því í shawarmasjoppu og fengum okkur shawarma. Stuttu síðar komu hjónin ásamt syni sínum og Tarasieh og við fundum sherutinn okkar og héldum til Bahjí. Þar byrjuðum við á að fá okkur te og kex ásamt ferðafélögum okkar í pílagrímamiðstöðinni í Bahjí og áttum indælis samræður við Nepitu og Tarasieh. Að því loknu fórum við hvert í sínu lagi í grafhýsi Bahá'u'lláh og báðum þar góða stund uns klukkan var farin að nálgast sex að ég og Erin fórum aftur í pílagrímamiðstöðina og ákváðum að taka rútuna sem færi kl. 19:00 til Haifa, en heimsmiðstöðin leigði rútur undir pílagrímana sem færu á hálftímafresti frá kl. 18:00 - 20:30.

Rútan skilaði okkur fyrir utan hótelið þaðan sem við fórum út að borða og fengum okkur góðan Naw-Rúz kvöldverð, með eftirrétt. Þannig lauk þessum ágæta degi.

Myndaalbúm þessa dags.

Næsti dagur >>


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Mama G

Mikið er nú fallegt þarna í Ísrael. Ég er fegin að þurfa ekki að lesa þessa ferðasögu fyrir neinn, ég get ekki borið fram helminginn af þessum orðum!

Mama G, 10.6.2009 kl. 10:23

2 Smámynd: Róbert Badí Baldursson

Jamm, ég veit. Virkar mjög framandi í fyrstu en venst svo.

Róbert Badí Baldursson, 10.6.2009 kl. 11:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband