Dagbók pílagrímsferðar - brottför og heimkoma

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Brottför og heimkoma - 26. og 27. mars – miðvikudagur og fimmtudagur

Miðjarðarhafið á leiðinni til Tel AvivRútan kom og sótti okkur rétt eftir kl. 11 þar sem við biðum í lobbýinu á hótelinu. Ég skrifaði í dagbókina mína en Erin var of stressuð til að skrifa (ferðastressið blessað). Við vorum að vonast eftir að rútan færi um Ben Gurionstræti þannig að við gætum séð stallana og grafhýsið í síðasta skiptið en því miður fór rútan aðra leið. Við keyrðum framhjá ströndinni. Ég fór þangað reglulega á sumrin þegar ég bjó hér. Þvílíkar öldur! Hér hefði ég skemmt mér á sundbrettinu mínu!

Öryggisgæslan var ekki eins hræðileg og ég óttaðist. Hauður bloggaði mikið reiðiblogg um öryggisgæsluna eftir pílagrímsferðina sína og því hélt ég að nú væri allt farið til andskotans hjá þeim eftir 11. september 2001. Ég átti von á ókurteisi og kaldhæðni en svo reyndist ekki vera. Öryggisstarfsfólkið var kurteist og kom fram við okkur af fagmennsku. No problem! Aðalatriði var að gefa sér a.m.k. þrjá tíma fyrir flug sem við gerðum.

Ferðin heim gekk vel. Ekkert óvenjulegt kom uppá og við lentum heilu og höldnu á Íslandi eftir einnar nætur gistingu við Stansteadflugvöll. Erin ætlaði að sækja Darian þegar við komum heim en þegar hún steig upp í bílinn og ætlaði að bakka neitaði bíllinn að fara úr handbremsu. Þetta hefur gerst áður eftir þriggja vikna dvöl í Finnlandi, nema hvað ég hélt að frostið ylli þessu og átti ekki von á miklu frosti í mars. Ég reyndi því að losa um handbremsurnar með því að jugga bílnum fram og til baka með bensíngjöfinni. Þrjú hjól losnuðu nema það aftara hægra megin, sem reyndist pikkfast, bremsuför mynduðust á malbikinu undir því eftir því sem ég hreyfði bílinn. Ég ætlaði að reyna ða keyra hjólin á kantsteininn en það tókst ekki betur til en svo að ég festi bílinn og spólaði hægra framhjólið ofan í möl. Ég sá fyrir mér að þurfa að panta dráttarbíl og að við gætum ekki sótt strákinn á bílnum okkar allavega.

Erin fór því til Evu í strætó og fékk hana til að keyra sig og Darian heim. Á meðan tók ég hjólið undan bílnum og kíkti á diskinn og sá ekkert sem ég gæti gert. Ég fór því inn og hringdi í viðgerðarstöð og lýsti vandræðum mínum. Verkstjórinn sagði mér að ná í hamar eða sleggju og slá fast í skálina. Þá ætti barkinn að losna en hann væri að öllum líkindum fastur. Ég vissi ekki einu sinni hvað skál væri en það er víst það sem er bak við diskinn. Ég gerði það og viti menn! Hjólið losnaði og ég var rétt búinn að setja hjólið á þegar Eva rennir í hlað.

Þar er Darian og þegar hann sá mig út um hliðargluggann brosti hann til mín, greinilega hissa. Erin sagði mér að hann hefði líklega verið hissa þegar hún kom að sækja hann til Evu. Hann hafði ekkert sagt. Eftir tvær sekúndur benti hann á mömmu sína og alla í kringum sig. Þegar hún rétti fram hendur sínar til að athuga hvort hann vildi koma til sína hikaði hann ekki!

Það var yndislegt að endurheimta strákinn okkar eftir þessa löngu fjarveru og hann mátti ekki missa okkur úr augsýn næstu klukkutímana. Við fórum á American Style og fengum okkur að borða og fórum með hann í leikherbergið þar. Hann var í essinu sínu og þegar við fengum okkur að borða komu önnur börn í leikherbergið. Það var því lítil athygli sem fór í að borða hjá honum heldur að horfa á hin börnin og snerist hann næstum í hringi í sætinu sínu til að fylgjast með þeim. Það er greinilega kominn tími til að hann fari í leikskóla, en hann kemst inn í næsta mánuði.

Jæja, hver var svo merking þessa alls?  Pílagrímsferð er ekki bara skoðunarferð. Þetta er tækifæri til að sjá staðina sem tengjast opinberendum Guðs og biðja á helgasta stað á jarðríki og létta á hjarta sínu og hljóta innblástur til áframhaldandi þjónustu við málstaðinn. Ferðin var allt þetta fyrir mig. Svo er að sjá hvernig gengur að túlka það í framkvæmd.

Síðustu myndir ferðarinnar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband