Dagbók pílagrímsferðar - dagur 7

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Dagur 7 - 22. mars 2008 – laugardagur

Alþjóðlega minjasafniðÍ dag var komið að heimsókn í Alþjóðlega minjasafnið. Þar myndum við fá að sjá myndir af Bábinum og Bahá'u'lláh og muni tengda þeim og einnig muni tengda ‘Abdu'l-Bahá og Shoghi Effendi.

Við ákváðum að ganga frá hótelinu niður að hliðinu við Golombstræti. Við fundum nýja og styttri leið þangað en við höfðum farið síðast og vorum komin á staðinn eftir 15 - 20 mínútur.

Þar tók á móti okkur persnesk kona að nafni Vida. Við vorum hluti af hópi N, tólf talsins. Því miður er verið að gera við húsnæði Alþjóðlega minjasafnsins en munir þar hafa verið fluttir tímabundið í aðsetur Allsherjarhúss réttvísinnar. Það var því gaman að koma aftur á kunnuglegar slóðir, en starfsmannaverslunin var í bílakjallara þar í grennd og í sjálft aðsetrið fór maður í hádegismat og að erindast, og á fyrirlestra á kvöldin. Þetta var því staður þar sem margt var um manninn og mikið að gera.

Aðsetur Allsherjarhúss réttvísinnarEftir að byggingu aðseturs Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar og Textarannsóknamiðstöðvarinnar lauk hefur stór hluti starfseminnar sem þar var flust í nýju byggingarnar tvær og heimsmiðstöðin hætt að þurfa að leigja byggingar út í bæ undir ýmsar skrifstofur sínar.

Við gengum inn í minjasafnið kl. 09:30. Þá voru opnaðir fyrir okkur þrír skápar sem skipuðu öndvegi í salnum og við fengum að líta ljósmynd sem tekin var af Bahá'u'lláh rétt áður en hann var sendur í útlegðina til ‘Akká. Þetta var passamyndin hans, þó ekki eins og við eigum að venjast í dag, aðeins andlitsmynd, heldur portrettmynd þar sem hann situr í stól með borð sér til hægri handar sem á voru blóm í fallegum vasa. Þessi mynd var tekin eftir að eitrað hafði verið fyrir honum og hann hefur verið kominn á sextugsaldur.

Vasaúr Bahá'u'lláhÍ miðjuskápnum gaf að líta málverksmyndir sem kristinn Armeni hafði málað af honum. Þær voru þrjár en voru af honum þegar hann var yngri, áður en eitrað var fyrir honum. Málverkin voru greinilega undir kristnum áhrifum og mátti líta þar engla og kerúba yfir höfði Bahá'u'lláh. Það er því greinilegt að málarinn skynjaði helgi Bahá'u'lláh þótt hann hafi ekki verið bahá'íi. Í skápnum lengst til hægri mátti svo sjá teikningu af Bábinum.

Ég sé ekki tilgang með að lýsa myndunum frekar, en fyrir bahá'ía er það mjög sérstök stund að fá að sjá þessar myndir og ber að sýna þeim sérstaka virðingu. Því eru þær ekki almennt í vörslu bahá'ía eins og t.d. myndin af ‘Abdu'l-Bahá. Staða hans er önnur en opinberenda Guðs. Við lítum á hann sem fullkomna fyrirmynd sanns bahá'ía sem við ættum að leitast við að tileinka okkur hvað varðar háttsemi og dyggðugt líferni.

Eftir að hafa barið myndirnar augum góða stund fengum við að sjá ýmsa aðra muni tengda höfuðpersónunum, t.d. yfirhafnir þeirra, gleraugu, höfuðföt, innsigli þeirra, upprunalegar töflur, sverð Mullá Husayn sem hann notaði í umsátrinu um Shaykh Tabarsí og margt margt fleira sem of langt mál væri að telja upp.

Innsigli Bahá'u'lláhÞað sem mér er minnisstæðast að þessu sinni er að sjá gleraugu Navváb, eiginkonu Bahá'u'lláh, og að fá að vita að þau deildu þessum gleraugum. Mér hlýnaði um hjartarætur að heyra það og það gefur manni tilfinningu um hve náin þau voru og staðfestir það sem maður hefur lesið þar sem Bahá'u'lláh segir að hún sé sú sem hann hafi valið sem félaga sinn í öllum veröldum Guðs.

Það er ótrúlegt að geta barið augum þessa muni er tengjast opinberendum Guðs, að geta tengst þeim böndum. Að skilja að þetta eru ekki bara persónur úr sögubókum heldur voru þær raunverulegar manneskjur sem gengu um á meðal manna með svo upphafið hlutverk sem þeir höfðu.

Eftir þessa yndislegu heimsókn í minjasafnið héldum við í pílagrímamiðstöðina og fengum okkur hádegisverð og skráðum okkur sem farþega í sherut sem færi til Bahjí klukkan 13:00.

Penni og blekskeið Baha'u'lláhVið lögðum af stað þangað á tilsettum tíma og vorum komin til Bahjí aðeins um hálftíma síðar. Líklega var lítil umferð þar sem það var laugardagur (sem er eins og sunnudagur heima á Íslandi). Að þessu sinni var gamla pílagrímahúsið opið ásamt herbergi Meistarans (‘Abdu'l-Bahá) bak við grafhýsi Bahá'u'lláh. Þegar ég þjónaði hér notuðum við gamla pílagrímahúsið þar sem boðið var upp á te og kex eins og gert er í dag, nema hvað það er alveg ljóst að það hús myndi ekki rúma þann fjölda pílagríma sem er hér núna.

Að venju heimsóttum við grafhýsi Bahá'u'lláh en sáum fram á þetta yrði í síðasta skiptið sem við myndum gera það í þessari pílagrímsferð. Sveitasetrið var einnig opið og fórum við einnig þar inn aftur og báðum í herbergi Bahá'u'lláh. Eftir smá vesen með að ná okkur í sherut komum við aftur til Haifa kl. 20:00 og tókum leigubíl upp fjallið ásamt fyrrum nema við tækniháskólann hér sem við hittum fyrir tilviljun. Hann var indæll og leyfði okkur meira að segja ekki að borga þann hluta leigubílsverðsins sem okkur bar. Eftir að hafa etið kvöldverð var farið í háttinn eftir viðburðaríkan dag.

Myndaalbúm dagsins


Vá! Flaug með British Airways í fyrra

Ótrúlegt að heyra! Woundering Við flugum einmitt með British Airways frá London til Ísrael í fyrra þegar við fórum í pílagrímsferðina okkar. Flugfélagið reyndist okkur ákaflega vel. Flugið var þægilegt í alla staði. Leitt að heyra að félagið eigi við erfiðleika að etja. Frown

Dagbók pílagrímsferðar - komið til Haifa


mbl.is Fólk beðið að vinna kauplaust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagbók pílagrímsferðar - dagur 6

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Dagur 6 - 21. mars 2008 - föstudagur

BangsarÍ dag er engin skipulögð pílagrímadagskrá enda Naw-Rúz (nýársdagur). Það verður haldið upp á daginn með helgistund kl. 16:00.

Við leyfðum okkur að sofa aðeins lengur í dag og vorum ekki mætt í morgunmat fyrr en kl. 08:50, tíu mínútum áður en lokaði. Því næst fórum við að efsta stallinum. Á leiðinni var mikill mannfjöldi á götum úti vegna Purimhátíðar Gyðinga. Það var sannkölluð karnivalstemning á götum úti og ógrynni barna í grímubúningum, þannig að það minnti einna helst á öskudaginn heima á Íslandi. Eftir að hafa náð að smokra okkur í gegnum mannfjöldann komumst við að efsta stallinum og gengum niður efri stallana að Grafhýsi Bábsins. Hitinn var mikill og maður svitnaði vel við að bera þungan bakpokann okkar niður hlíðina. Þegar við komum niður fórum við í gamla pílagrímahúsið og notuðum salernisaðstöðuna þar til að skola burt mesta svitann af andlitinu og kæla okkur niður áður en við færum í grafhýsi Bábsins til að biðja.

Við eyddum dágóðri stund þar við bæn og íhugun. Að því loknum fórum við á Hadarsvæðið og fengum okkur að borða. Erin fékk sér shawarma, sem hún er farin að elska. Ég ákvað að halda mig á grænmetislínunni og fékk mér falafel. Þegar við vorum mett tókum við Carmelit-lestina upp á fjallið og gengum á hótelið okkar. Þar höfðum við fataskipti og fórum í betri fötin og tókum svo leigubíl að hliðinu á Golombstræti 16 og gengum að aðsetri Allsherjarhúss réttvísinnar.

Kern WismanÞar var samankominn töluverður mannfjöldi og á bak við aðsetrið mátti finna borð þar sem hægt var að fá vatn, te og kex. Það leið ekki á löngu þar til ég sá fólk sem ég kannaðist við frá þjónustu minni hér. Helst ber að nefna Kern Wisman og konu hans Barböru. Kern var yfirmaður minn í starfsmannaversluninni sem ég vann í en hann dvaldi sem skiptinemi á Íslandi á því herrans ári 1969 og gekk í Menntaskólann í Reykjavík. Það var löngu áður en hann gerðist bahá'íi þótt hann hafi reyndar heyrt hennar fyrst getið þar.

Núna þjónar hann sem sérstakur fulltrúi Alþjóðlega bahá'í samfélagsins með aðsetur í Jerúsalem. Hann sér því um samskipti við stjónvöld í Ísrael og í tilefni af Naw-Rúz verður sérstök mótttaka þar í borg fyrir fyrirmenn þjóðarinnar af því tilefni.

Eftir að hafa heilsað þeim sem ég þekkti var okkur bent á að drífa okkur inn í hátíðarsalinn því þar væri allt að verða pakkað af fólki. Það voru orð að sönnu. Ég hef aldrei séð hátíðarsalinn svona fullann. Þarna voru samankomnir 402 pílagrímar og um 300 þriggjadagagestir og gestir starfsmanna. Um 600 starfsmenn voru svo í áhorfendasal Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar. Þannig að allt í allt voru samankomnir um 1300 bahá'íar á þessari Naw-Rúzhátíð.

Hátíðin var mjög einföld og falleg. Hartmut Grossmann, meðlimur Allsherjarhúss réttvísinnar setti hátíðina og var með stutt erindi. Því næst hófst ritningalestur á ensku, arabísku og persnesku. Kór heimsmiðstöðvarinnar söng lag við vers úr ritunum og eftir það fengu börn á aldrinum þriggja til tíu ára að yfirgefa salinn og fara á sérstaka dagskrá sem var ætluð þeim. Síðan hélt ritningalesturinn áfram þar til kom að lestri vitjunartaflna ‘Abdu'l-Bahá og Bábsins. Þá yfirgáfum við salinn og komum okkur fyrir á tröppunum fyrir framan aðsetrið þar sem við stóðum og snerum okkur í átt að grafhýsi Bábsins á meðan vitjunartöflurnar voru lesnar.

Gestir helgistundarinnar.Að þeim loknum gengum við í gegnum garðana og gengum virðingarhring í kringum grafhýsið og enduðum fyrir framan gamla pílagrímahúsið. Og hvílík mergð manns þar! Allir að spjalla og margir að rifja upp gömul kynni. Eftir að hafa staðið þar í smá stund ákváðum við að draga okkur í hlé. Við tókum leigubíl upp á hótel og fórum út að borða. Ég pantaði mér entré-coté steik sem stóð því miður ekki undir væntingum. Erin pantaði pastarétt sem reyndist mjög góður hinsvegar. Síðan var farið í háttinn eftir þennan rólega en viðburðaríka dag.

Albúm þessa dags.

Næsti dagur >>


Íran - lag um frelsi

Þessar fréttir minna nokkuð á byltinguna 1979 og sýna svo ekki verður um villst að það eru fleiri en bahá'íar sem eru kúgaðir af stjórnvöldum þar í landi. 

Ein írönsk vinkona mín á facebook hefur nýlega samið lag ásamt vinkonu sinni. Ég varð forvitinn og spurði hana nánar um lagið. Hún segir það samið til stuðnings írönskum bahá'í ungmennum sem er meinað um æðri menntun vegna trúar sinnar. Hún segir eftirfarandi um lagið:

This is a song about being free... As the chorus says: be free, pray free, live free, let me let me...

The chorus then goes on to repeat those words in Farsi.

It was written by Tara Ellis and myself and produced by Benny Cassette. Our hope was for enough people to listen to it so that it would eventually reach the ears of the youth in Iran. To give them hope and let them know we are thinking of them.

All the Farsi verses are translations of the English verses. Tara sings the English and I sing the Farsi.

Textinn er svohljóðandi:

I know I was given gifts to share with the world.

I know there's a reason, my existence in this world.
I want to love from my heart, I want to shine from my soul, I want to say my truth, I want to see the unkown.
 

Persneskan er þýðing á enska textanum.

Heyra má lagið hér til vinstri í tónlistarspilaranum.

Sjá nánar fyrri bloggfærslur um bahá'íana í Íran:

Krafinn um að gera grein fyrir eigin glæpum 

Murder with impunity – vídeó

Viðbrögð við úrskurði saksóknara Írans 


mbl.is Átök í Teheran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagbók pílagrímsferðar - dagur 5

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Dagur 5 - 20. mars 2008 – fimmtudagur

Úr minnisvarðagarðinumÍ dag tókum við aldrei þessu vant strætó nr. 22 niður að pílagrímamiðstöðinni. Við byrjuðum á að heimsækja minnisvarðagarðinn og báðum og lásum úr ritunum í tengslum við grafir meðlima hinna helgu fjölskyldu sem þar hvíla (Bahíyyih Khánum, Munírih Khánum, Navváb og Mírzá Mihdí).

Síðan skrifuðum við í dagbækurnar okkar og fengum okkur hádegismat. Við höfðum skráð okkur sem skipuleggjendur ferðar til ‘Akká, þ.e. að við myndum panta sherut kl. 12:00 sem aðrir pílagrímar gætu skráð sig í. Sex manns skáðu sig fyrir utan okkur tvö og við þekktum ekkert þeirra. Þegar klukkan var næstum tólf birtust allir nema einn og svo bættist einn óvænt við. Það var bahá'íi frá Malasíu sem vinnur fyrir Alþjóða gjaldeyrissjóðinn í Jerúsalem og fékk leyfi til að koma til Haifa yfir Naw-Rúz hátíðina. Þegar við vorum lögð af stað kom í ljós að hann hafði haldið að við værum að fara til Bahjí. Við náðum að redda honum fari til Bahjí þegar við komum til ‘Akká með hjálp eins ferðafélaga okkar sem talaði arabísku. Sá maður og kona hans reyndust mjög vel í ferðinni, en þau eru persnesk en alin upp í Kúveit. Þau gengu í skóla sem sóttur var af nemendum frá Palestínu, Líbanon og fleiri löndum og þekktu því vel til mállýskunnar sem Palestínuarabar í ‘Akká tala (sherutbílstjórinn var Palestínuarabi).

Arabískumælandi hjónin sem aðstoðuðu okkur.Þegar við lentum í ‘Akká skiptum við liði. Ég, Erin, Nepita, ung kona frá kyrrahafseyjunni Tonga, og Tarasieh, miðaldra persnesk kona búsett í Ekvador, fórum saman um gömlu borgina en arabískumælandi hjónin og níu mánaða sonur þeirra fóru sína leið. Við ákváðum þó að hittast aftur á sama stað kl. 15:30 og fara saman með sherut til Bahjí.

Við byrjuðum á að fara að landhliðinu. Það var ein tveggja inngönguleiða í borgina, en ‘Akká var jú virkisborg, notuð sem fangelsi fyrir verstu glæpamenn í ríki Ottómana sem spannaði m.a. Mesópótamíu, Tyrkland og Norður-Afríku. Bahá'u'lláh kom sjóleiðina til borgarinnar eftir stutta viðkomu í Haifa. Hann og fjölskylda hans komu þangað til við illan leik þann 31. ágúst 1868.

Bahá'u'lláh yfirgaf hinsvegar borgina árið 1877 og fór þá í gegnum landhliðið þegar slaknaði á hömlum fangavistarinnar. Á haustin og veturna dvaldi hann þó í húsi ‘Abbúds eftir það.

Nepita var hér í þriggja daga heimsókn og var því að koma til ‘Akká í fyrsta skipti. Það var því gaman að geta sýnt henni staðina í ‘Akká og sagt söguna á bak við suma þeirra sem við níu daga pílagrímarnir höfðum fengið að heyra fyrr í vikunni hjá leiðsögumönnunum okkar.

Við löbbuðum frá landhliðinu eftir Salah-a-din-stræti og beygðum til vinstri og gengum inn í Khán-i-Shávirdí sem var karavanserai (gistiheimili) á tímum Bahá'u'lláh. Þangað var Bahá'u'lláh settur í varðhald eftir morðið á azalítunum en sleppt stuttu seinna vegna íhlutunar kaupmanns nokkurs í borginni. Þaðan gengum við svo meðfram eystri sjávarveggnum að bryggjunni þar sem má sjá sjávarhliðið sem Bahá'u'lláh kom inn um. Þar eru í dag veitingahús, því miður.

Frá Khán-i-ShávirdíÞaðan gengum við í gegnum Khán-i-‘Avámíd, annað karavanserai, en þangað voru Bahá'u'lláh  og fylgjendur hans fluttir stuttu eftir lát Mírzá Mihdí árið 1870. Flestir fylgjendanna voru fluttir þangað. Fyrstu árin þjáðust þeir úr hungri. ‘Abdu'l-Bahá leigði tvö herbergi á efri hæðinni til að hýsa pílagríma. Þetta var því fyrsta bahá'í pílagrímahúsið í Landinu helga.

Þvínæst gengum við að sjávarhliðinu, að vitanum og svo sömu leið til baka þangað sem við byrjuðum gönguna. Tarasieh fór í tyrkneska baðhúsið en við töldum okkur ekki hafa tíma þar sem við vorum orðin svöng og höfðum lofað að hitta ferðafélaga okkar kl. 15:30, en í baðhúsinu var boðið upp á leiðsögn um safnið í sérstökum heyrnartólum sem tekur 30 mínútur.

Amma og barnabarn.Við fórum því í shawarmasjoppu og fengum okkur shawarma. Stuttu síðar komu hjónin ásamt syni sínum og Tarasieh og við fundum sherutinn okkar og héldum til Bahjí. Þar byrjuðum við á að fá okkur te og kex ásamt ferðafélögum okkar í pílagrímamiðstöðinni í Bahjí og áttum indælis samræður við Nepitu og Tarasieh. Að því loknu fórum við hvert í sínu lagi í grafhýsi Bahá'u'lláh og báðum þar góða stund uns klukkan var farin að nálgast sex að ég og Erin fórum aftur í pílagrímamiðstöðina og ákváðum að taka rútuna sem færi kl. 19:00 til Haifa, en heimsmiðstöðin leigði rútur undir pílagrímana sem færu á hálftímafresti frá kl. 18:00 - 20:30.

Rútan skilaði okkur fyrir utan hótelið þaðan sem við fórum út að borða og fengum okkur góðan Naw-Rúz kvöldverð, með eftirrétt. Þannig lauk þessum ágæta degi.

Myndaalbúm þessa dags.

Næsti dagur >>


Dagbók pílagrímsferðar - dagur 4

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Dagur 4 - 19. mars 2008 – miðvikudagur

Þetta var svolítill stressdagur. Erin var slöpp í morgun svo við náðum ekki að fá okkur morgunmat á hótelinu. Við urðum að drífa okkur niður í pílagrímamiðstöð fyrir kl. 08:30 þar sem þá átti að hefjast ferð til Mazra'ih og sveitasetrinu í Bahjí. Ég lagaði tvær samlokur í snarhasti þegar við komum niðureftir og borðaði aðra þeirra í rútunni á leiðinni.

MazraihÞað var ótrúlegt að koma til Mazra'ih. Garðurinn þar var í blóma og ilmur af rósum og appelsínublómstri mætti okkur. Okkur var boðið í setustofu á neðri hæðinni þar sem okkur var sagt frá sögu hússins og við fórum með valdar bænir og ritningargreinar. Því næst var okkur boðið að fara á efri hæðina.

Þar mátti líta ýmsa muni sem tengdust sögu trúarinnar, m.a. skrifborð sem Shoghi Effendi notaði, en það var við þetta skrifborð sem hann lagði drögin að 10 ára krossferðinni 1953-1963.

Blómin í MazraihVið fengum svo góða stund til að biðja í herbergi Bahá'u'lláh. Þar gaf að líta taj (höfuðfat) hans á rúminu og skór hans fyrir framan það. Það er hreint ótrúlegt að geta borið augum muni sem þessa sem opinberandi Guðs átti!

Að þessu loknu máttum við ganga um garðinn. Sumir pílagrímar tíndu upp greipaldin og glóaldin sem fallið höfðu á jörðina. Við gerðum það ekki en gáfum okkur tíma til að þefa af rósunum, en lyktin af þeim var himnesk, skoða trén, þarna mátti m.a. sjá, að ég held, fíkjutré með óþroskuðum fíkjum og döðlutré að mig minnir.

Eftir það fórum við beint til Bahjí, í þetta sinn lagði rútan á bílaplaninu vestanmegin garðanna og við gengum því beint að sveitasetrinu. Þar gaf að líta ýmsa muni sem Shoghi Effendi kom fyrir með stakri smekkvísi. Einnig mátti þar sjá upprunalega kistuna sem Navváb (eiginkona Bahá'u'lláh) var jarðsett í áður en jarðneskar leifar hennar voru fluttar í minnisvarðagarðinn og upprunalegir legsteinar hennar og Mírzá Mihdí.

Sveitasetrið Bahjí og grafhýsi Bahá'u'lláhEins og áður fengum við góða stund til að biðja í herbergi Bahá'u'lláh. Í þessu herbergi andaðist hann þann 29. maí 1892. Raunar hafði verið svo mikið að skoða í hinum herbergjunum að ég kom frekar seint inn í herbergi Bahá'u'lláh. Áður en ég vissi af voru allir farnir svo ég dreif mig á fætur og hélt að allir hinir væru farnir út á svalir hússins þaðan sem er gott útsýni yfir garðana. Ég dreif mig því að herberginu sem er í hinum enda hússins á ská á móti herbergi Bahá'u'lláh sem ég hélt að væri eldhúsið en reyndist svo ekki vera það. Þar inni var umsjónarkona hússins byrjuð að þrífa teppið þar inni. Ég spurði hvar eldhúsið væri, ég væri greinilega villtur. Hún sagði mér að félagar mínir væru allir farnir niður og nýr pílagrímahópur á leiðinni en ég gæti komið aftur næsta laugardag, þá yrði setrið opið aftur.

Hópurinn okkar (hópur N) í pílagrímsferðinni.Ég þakkaði fyrir mig og spurði hvar væri gengið út (ég var gersamlega villtur, hafði alveg gleymt mér). Hún vísaði mér rétta leið og þegar niður var komið beið Erin eftir mér með dótið mitt blessunin.

Ég kláraði hina samlokuna mína í pílagrímamiðstöðinni og því næst sótti okkur rúta og keyrði okkur aftur til Haifa. Við vorum bæði orðin glorhungruð og og fórum því á Hadarsvæðið og fengum okkur shawarma, versluðum aðeins og héldum til baka í pílagrímamiðstöðina (í Haifa auðvitað). Þar hringdum við í Evu og Darian, foreldra mína og Löru mágkonu mína. Svo skrifuðum við í dagbækurnar okkar. Eftir kvöldmat á Ben-Gurionstræti, kebab sem stóð ekki undir væntingum okkar, fórum við á fyrirlestur í aðsetri Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar og hlýddum á Glenford Mitchel, meðlim Allsherjarhúss réttvísinnar. Hann fræddi okkur um starf Bahá'í samfélagsins að ytri samskiptum. Mér fannst fyrirlesturinn mjög góður og varpaði skýrara ljósi á þennan málaflokk fyrir mig.

Að því lokun fórum við upp á hótel og fórum að sofa.

Myndaalbúm dagsins


Dagbók pílagrímsferðar - dagur 3

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Dagur 3 - 18. mars 2008 – þriðjudagur

Í dag fengum við að sofa aðeins lengur. Við vöknuðum þegar klukkan var að ganga átta. Eftir að hafa fengið okkur morgunmat á hótelinu gengum við meðfram brún fjallsins að efsta stallinum að grafhýsi Bábsins og gengum þaðan niður að og yfir stallinn sem brúar Hatziunoutstræti og þaðan að pílagrímamiðstöðinni.

Við tókum því rólega um morguninn. Skrifuðum í dagbækurnar okkar og kl. 11 smurðum við nesti fyrir ferðina okkar í hús ‘Abbúds og fangaklefann sem Bahá'u'lláh dvaldi í fyrst eftir að hann kom til ‘Akká.

Ferðin hófst kl. 11:30 og um klukkustund síðar komum við í pílagrímamiðstöðina í Bahjí. Þar borðuðum við nestið okkar og svo fluttu rúturnar okkur að landhliðinu að ‘Akká, en það var á sínum tíma annar tveggja innganga að fangelsisborginni. Þegar slakað var á hömlum fangavistar Bahá'u'lláh gekk hann út um þetta hlið og til Mazra'ih sem var sveitaóðal þar í grenndinni áður en hann flutti til Bahjí.

Þaðan gengum við að fangaklefanum og gengum upp tröppurnar sem þar eru og fengum að líta vistarverurnar þar sem Bahá'u'lláh, fjölskylda hans og nánustu fylgismenn hans dvöldu við ömurlegar aðstæður fyrstu tvö ár útlegðarinnar.

Hús 'AbbúdsHús ‘Abbúds skiptist raunar í tvennt. Annars vegar húsnæði sem upphaflega var í eigu manns sem hét ‘Údí Khammár. Eftir meira en tveggja ára dvöl í fangaklefanum í hermannaskála virkisborgarinnar þurftu stjórnvöld að nota herskálann og því voru Bahá'u'lláh og fylgjendur hans fluttir í karavanserai (gistiheimili) í borginni þar til „hentugra" húsnæði fannst. Það var umrætt hús ‘Údí Khammárs. Þar þurftu á tímabili 13 manns að hírast í einu herbergi. Nokkru síðar fékk Bahá'u'lláh annað húsnæði við hliðina til afnota, þ.e. hús ‘Abbúds. Þau liggja saman í dag og eru saman kölluð hús ‘Abbúds í dag.

Þegar við komum þangað var okkur boðið í herbergi á neðri hæðinni þar sem okkur var boðið upp á kex og undursamlegt te sem boðið er uppá hér við heimsmiðstöðina. Að því loknu fórum við á efri hæðina. Þar gaf að líta herbergið þar sem Bahá'u'lláh opinberaði Kitáb-i-Aqdas, helgustu bók trúarinnar og lögbók hennar. Herbergin eru búin munum frá tíma ‘Abdu'l-Bahá en það var Shoghi Effendi sem skipulagði þau. Herbergi Bahá'u'lláh er þó búið munum frá tíma hans. Þar fengum við nokkra stund til að biðja áður en við fórum aftur í rútuna og héldum aftur til Haifa.

Við vorum komin þangað aftur um hálf sjö. Við rétt náðum að fá okkur smá snakk áður en haldið var í aðsetur Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar þar sem ráðgjafarnir tóku á móti okkur með svipuðum hætti og meðlimir Allsherjarhúss réttvísinnar gerðu daginn áður.

Það var sérstaklega gaman að hitta aftur Violettu Haake sem heimsótti íslenska samfélagið fyrir nokkrum árum og Shahriar Razavi sem vann náið með þjóðarráðinu meðan hann þjónaði í Álfuráði Evrópu.

HjaltlandseyjafjölskyldanEftir að hafa heilsað öllum meðlimunum var boðið upp á te og kex í matsal hússins og þar hitti Erin óvænt hjón sem þekktu hana frá fornu fari. Þau búa nú á Hjaltlandseyjum en bjuggu í Finnlandi þegar Erin var smástelpa. Þar sem þau sáu um barnakennsluna í Joensuu þegar Erin bjó þar og kenndu því henni og voru yfir sig ánægð að hitta litlu stelpuna aftur núna þegar hún er orðin fullorðin kona.

Eftir að hafa blandað geði við þau og fleira fólk þarna héldum við heim á leið og tókum sherut upp á hótel og fórum svo á veitingastaðinn Gregs þar skammt frá áður en gengið var til náða eftir annasaman dag.

Myndaalbúm þessa dags.


Dagbók pílagrímsferðar - dagur 2

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Dagur 2 - 17. mars 2008 – mánudagur

Við vöknuðum eldsnemma, eða kl. 05:45 og náðu því ekki að fá okkur morgunmat á hótelinu. Við tókum Carmelit-neðanjarðarlestina niður fjallið og fórum út á massadastræti og gengum þaðan að pílagrímamiðstöðinni. Við smurðum okkur morgunmat þar.

Kl. 07:30 hittum við leiðsögumanninn okkar, David, ungan mann frá Chile. Við erum í hópi N (hóparnir eru tólf, merktir bókstöfunum A, B, C, D, E, F, G, H, K L, M og N, alls 402 pílagrímar. Nú eru persnesku-, ensku- og frönskumælandi tungumálahópar).  Við erum fimm Íslendingar í þessari ferð, öll í hópi N, ég og Erin og svo Sigga Lóa, Siggi Ingi og Eva Margrét, öll úr Kópavogi eða upprunnin þaðan Tounge. Einnig eru í hópnum okkar Jess og Thenna sem við hittum á flugvellinum og fleira fólk sem ég man ekki hvað heitir frá Þýskalandi, Danmörku, Suður-Afríku, Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandi og mörgum fleiri löndum.

Kl. 08:30 lögðum við af stað í langferðabíl til Bahjí. Við byrjuðum á að stoppa í nýju pílagrímamiðstöðinni norðanmegin við grafhýsi Bahá'u'lláh og stórhýsið Bahjí, utan við Collinshliðið. Þetta er mjög fallegt og vel hannað hús og á því eru stórar glerrúður þannig að þeir sem inni sitja fá að njóta fegurðar garðanna.

Pílagrímamiðstöðin í Bahjí.

Eftir að hafa drukkið te og fengið að smakka litlar appelsínur úr görðunum lagði hópurinn af stað niður aðalstíginn að grafhýsinu í gegnum Collinshliðið í sína fyrstu heimsókn í grafhýsi Bahá'u'lláh.

Að koma þar inn aftur eftir svona mörg ár var yndislegt, raunar eins og að koma heim. Að hugsa séð að maður hafi fengið að biðja þar einn í lok þjónustunnar árið 1997. Erin var líka djúpt snortin og eftir heimsókn okkar þar inni röltum við að risastóra ólívutrénu í Haram-i-Aqdas og út á ysta stíginn við grindverkið og þaðan að Collinshliðinu og aftur í pílagrímamiðstöðina í Bahjí.

Kl. 11:45 lögðum við af stað til baka til Haifa. Smurðum okkur samlokur í Pílagrímamiðstöðinni þar og nærðum okkur áður en næsti dagskrárliður hæfist, sem var móttaka í aðsetri Allsherjarhúss réttvísinnar kl. 14:45.

Úr minnisvarðagarðinum.Í millitíðinni bauð einn félagi okkar í pílagrímahópnum frá Sviss nokkrum okkar að koma með sér og fjölskyldu sinni í minnisvarðagarðinn á Boganum. Við þáðum það og heimsóttum grafir meðlima hinnar helgu fjölskyldu sem þar eru. Að því loknu fórum við aftur í pílagrímamiðstöðina og biðum þar til tími var kominn að við færum öll að aðsetri Allsherjarhúss réttvísinnar.

Kl. 14:45 lögðum við af stað í gegnum garðinn hjá grafhýsi Bábsins, yfir stallinn sem brúar Hatziunoutstræti, upp bogastíginn og gengum inn í samkomusalinn (The Concourse Hall) í aðsetri Allsherjarhúss réttvísinnar. Strax og ég geng inn sé ég andlit sem ég þekkti strax. Það var Jeffrey Safajou, sem hafði og hefur greinilega enn umsjón með aðsetri Allsherjarhússins. Ég náði að heilsa honum stuttlega og kynna mig og hann virtist muna eftir mér. Það var reglulega gaman að sjá hann aftur. Hann var alltaf mjög glaðlyndur og kærleiksríkur í viðmóti. Einn af þessum mönnum sem var alltaf gleðilegt að hitta.

Aðsetur Allsherjarhúss réttvísinnarEftir dágóða stund þegar öll fjögurhundruðmanna hersingin var búin að koma sér fyrir gengu allir níu meðlimir Allsherjarhúss réttvísinnar inn í salinn. Það var Glenford Mitchel  sem fór með bæn á ensku. Þvínæst ávarpaði Paul Lample okkur og að því loknu tónaði Farzand Arbab bæn á persnesku.

Að því loknu risum við úr sætum, stólarnir okkar voru teknir og meðlimirnir hófu að ganga á röðina og heilsa okkur. Það tók auðvitað tímann sinn enda urðu þeir stundum að spjalla við fólk lengur en 3 sekúndur. Sérstaklega var gaman fyrir mig að heilsa Hooper Dunbar og þakka fyrir námskeiðin sem ég sótti hjá honum þegar ég þjónaði hér. Dr. Peter Khan kannaðist einnig við mig þegar ég kynnti mig og sagðist hafa þjónað hér í starfsmannaversluninni og lagði til að ég athugaði hvort ég fengi að sjá nýju verslunina þegar við færum í skoðunarferð um byggingarnar á boganum.

Það voru hinsvegar fagnaðarfundir þegar Erin kynnti sig fyrir Hr. Grossmann, en hann brautruddi til Finnlands fyrir margt löngu og talar enn ágæsta finnsku. Erin bar honum kveðjur frá foreldrum sínum sem virtist gleðja hann mjög og fengum við bæði faðmlag að launum.

Íslenski hópurinnÞessi stund með meðlimum æðstu stjórnstofnunnar trúarinnar var í senn virðuleg en ákaflega hlýleg stund. Eftir hana fór maður með yl í hjarta. Við dobbluðum Jess með okkur í kvöldmat á Ben-Gurionstræti með stuttri viðkomu í grafhýsi Bábsins. Eftir ljúfengan kvöldverð fórum við í aðsetur Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar og hlýddum á meðlim hennar, frú Violette Haake, sem heimsótti íslenska bahá'í samfélagið fyrir nokkrum árum.

Í ræðu sinni minnti frú Haake m.a. á að pílagrímsferðin væri frábrugðin öllum öðrum ferðum. Hún sé tækifæri til að biðja við fótskör opinberenda Guðs, létta á hjarta sínu og styrkja sáttmála sinn við Guð. Þetta minnir mig á orð Bahá'u'lláh í vitjunartöflunni (eða var það í föstubæninni?) þar sem hann talar um að sumir hafi komist í návist hans en engu að síður látið blæjur síns eigin sjálfs koma í veg fyrir að bera kennsl á hann. Það var því viðeigandi að hún skyldi kveðja okkur með orðunum „megi pílagrímsferð ykkar verða verða veitt viðtaka".

Eftir fyrirlesturinn héldum við upp á hótel. Við vorum bæði svöng og Erin orðin sérlega þreytt. Við fengum okkur shawarma og kók fyrir svefninn. Erin var mjög hrifin af þessum miðausturlenska skyndibita sem ég borðaði oft hér forðum daga. Wink

Grafhýsi Bábsins og stallarinir í rökkrinu

Myndaalbúm þessa dags.


Dagbók pílagrímsferðar - Dagur 1

Upphafsfærsla ferðadagbókar 

Dagur 1 - 16. mars 2008, sunnudagur

07:15: Vekjaraklukkan hringdi. Ég hafði sko lítinn áhuga á að vakna! Það hafði verði frekar kalt í herberginu þrátt fyrir að lofthitunartækið fyrir ofan gluggann okkar hefði verið í gangi og því svaf ég ekkert sérstaklega vel. Erin hafði sofið vel og var spennt að byrja daginn. Hún var því ófeimin að ýta við mér. Ég kreisti fram bros og dreif mig á fætur.

Morgunmaturinn á hótelinu var einfaldur. Brauð, ostur, te og jógúrt. Rétt nóg til að fylla mallann á mér. Þvínæst gekk ég með Erin framhjá Dan Panorama hótelinu sem er andspænis hótelinu okkar og niður einn af mörgum tröppugöngum sem liggja um hlíðar Karmelfjalls að Golombstræti. Sú gata liggur að byggingum Bahá'í heimsmiðstöðvarinnar og við hana bjó ég þegar ég þjónaði hér fyrir 12 árum. Við gengum svo fram hjá hliðinu að byggingunum á boganum, niður tröppurnar við Hillelstræti og í pílagrímamiðstöðina. Þar tók við skráning þar sem við fengum fullt af kynningarefni fyrir pílagríma, kort af borginni o.þ.h.

Kl. 13:30 byrjaði svo pílagrímsferðin formlega með því að tveir meðlimir Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar leiddu okkur í bæn fyrir framan grafhýsi Bábsins og fóru með vitjunartöflurnar tvær, aðra fyrir ‘Abdu'l-Bahá, en hann hvílir líka í grafhýsinu, og hina fyrir Bábinn. Þvínæst gengum við öll 400 talsins í kringum grafhýsið í hljóðri bæn.

Til að gefa lesendum smá innsýn inn í andann sem ríkir á þessari samkomu fjölda fólks, hvaðanæfa að, er rétt að ég taki fram að þessi ganga hefur djúpa andlega merkingu fyrir átrúendur. Þetta er ekki bara skoðunarferð um fallega garða. Hér hvílir annar tveggja opinberenda Guðs, „fulltrúi Guðdómsins í þessum heimi og hinum næsta". Garðarnir eru í raun aðeins þarna til að undirbúa okkur pílagrímana undir það að biðja við fótskör hans í grafhýsinu.

Eftir þessa athöfn var grafhýsið opið til kl. 20:30 og við fengum að fara inn í herbergin fjögur til að biðja. Við Erin byrjuðum á að fara inn í hægra herbergið austanmegin, grafhýsi ‘Abdu'l-Bahá. Þvínæst fórum við í miðjuherbergið, Grafhýsi sjálfs Bábsins. Þetta var merk stund fyrir Erin sem var að koma í fyrsta skipti og auðvitað fyrir mig líka sem byrjaði að brynna músum um leið og ég sá þröskuldinn að gröf ‘Abdu'l-Bahá.

Það var ekkert meira á dagskrá þenna daginn. Um kvöldið borðuðum við á veitingahúsi nærri hótelinu og fórum mjög snemma að sofa. Á morgun bíður okkur heimsókn til Bahjí - grafhýsis Bahá'u'lláh. Við þurfum að vakna kl. 05:45 og vera mætt niðurfrá kl. 07:00.

Við rotuðumst um leið og við lögðumst útaf.

Myndaalbúm þessa dags.

 


Dagbók pílagrímsferðar - komið til Haifa

Upphafsfærsla ferðadagbókar

Á leiðinni - 15. mars 2008, laugardagur

„Vá, þetta eru há fjöll!" sagði Erin og leit á skjáinn í sætisbakinu fyrir fram sig og skoðaði landakortið sem þar var og litlu flugvélina sem þá stundina markaði staðsetningu Boeing 777 vélar British Airways sem við vorum í. „Þetta eru Alparnir er það ekki!" hrópaði hún spennt. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé Alpana!" Stuttu síðar endurtók sagan sig þegar við flugum yfir borg, líklega Sofiu í Búlgaríu og svo framhjá Kýpur. Erin var heldur betur spennt og hrifin

Þetta var í fyrst skipti sem Erin fer svo sunnarlega eða austarlega. Hún hefur komið til allra landa í Skandinavíu og Bretlands áður en aldrei til þessa heimshluta og aldrei í pílagrímsferð eða þriggja daga heimsókn til Bahá'í helgistaðanna í Ísrael. Ég næstum því skammast mín fyrir að vera að fara í fimmta skiptið. Reyni að líta svo á að mitt hlutverk sé að leiðbeina Erin um svæðið og sjá til þess að hún fái sem mest úr ferðinni. Við pössuðum upp á að mæta snemma á Heathrow. Við erum jú að fara til Ísrael og öryggisgæslan verður væntanlega í hámarki. Hún reyndist svo ekki vera meiri en ég átti von á. Venjulegt eftirlit á Heathrow, screening þar sem ég og Erin vorum beðin að stíga til hliðar um leið og við gengum úr vélinni og gera grein fyrir erindi okkar til landsins og svo ítarleg vegabréfaskoðun við tollhliðið þar sem ég var spurður furðulegrar spurningar. Svo vorum við laus.

Við höfðum komið auga á fólk við útgönguhliðið á Heathrow sem okkur grunaði að væru bahá'íar á leið í pílagrímsferð. Þegar við lentum kom í ljós að þeir voru mun fleiri. Neda, persnesk kona spurði hvort við vildum slá saman í sherut til Haifa. Þar sem við höfðum lesið að við mættum ekki koma til Haifa fyrr en kl. 21 þorðum við ekki að leggja strax af stað þangað og ætluðum að drepa tímann á vellinum á meðan. Við afþökkuðum það góða boð.

Því næst hittum við Jessicu, konu frá Wales og förunaut hennar, ungann mann að nafni Thenna, úr sama bæjarfélagi. Þau höfðu fyrir tilviljum valið sömu dagsetningar fyrir pílagrímsferð á sama hátt og við og Sigga Lóa og Sigurður Ingi úr Kópavogi. Það voru heldur ekki samantekin ráð.

Jessica og Thenna, sem er hálfur Íraki og hálfur Breti, voru einnig að velta fyrir sér hvort við vildum verða samferða þeim. Við bentum þeim á tuttuguogeitt-regluna (pílagrímar eiga ekki að koma til Haifa-‘Akká svæðisins fyrr en kl. 21 degi fyrir upphaf pílagrímsferðar) og ákváðu þau að bíða. Við áttum svo þetta fína samtal við Jessicu í kaffiteríunni á Ben Gurion flugvellinum.

Á meðan við við vorum að ræða við hana stend ég upp til að athuga eitthvað og þá gengur maður á móti mér og segir „Hello, hello! Badí from Iceland!" Ég spyr hvernig hann viti það. Hann kynnir sig og kemur í ljós að þetta var Neysan Rafat frá Þýskalandi sem þjónaði í nokkra mánuði á Íslandi og bjó ásamt félaga sínum Riaz Khabirpour hjá Davíð Ólafssyni. Það voru fagnaðarfundir. Hann var að koma í pílagrímsferð ásamt ömmu sinni.

Loks tókum við lestina frá Ben Gurion flugvelli kl. 19:35. Þá vorum við orðin vel þreytt eftir ferðina en mjög sæl og ánægð með að hafa hitt allt þetta fólk, og það bara á flugvellinum. Við vorum komin til Haifa kl. 20:55.

Þegar við stigum út af lestarstöðinni blasti við okkur flóðlýst grafhýsi Bábsins og upplýstir stallarnir í næturhúminu. Erin var dolfallin. Trúði varla sínum eigin augum. Var hún raunverulega hér?

Við tókum leigubíl á hótelið okkar. Lítið snoturt hótel efst upp á Karmelfjalli. Við komum okkur fyrir og fórum svo og fengum okkur kvöldsnæðing á McDonalds og fórum svo að sofa. Á morgun er svo skráning og formlegt upphaf pílagrímsferðarinnar.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband